Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   fös 22. mars 2024 10:56
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kallað eftir höfði Berhalter þrátt fyrir sigur gegn lærisveinum Heimis
Gregg Berhalter.
Gregg Berhalter.
Mynd: EPA
Heimir Hallgrímsson er landsliðsþjálfari Jamaíku.
Heimir Hallgrímsson er landsliðsþjálfari Jamaíku.
Mynd: Getty Images
Stuðningsmenn bandaríska landsliðsins eru ekki glaðir þrátt fyrir að liðið hafi unnið sigur gegn Jamaíku í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar í gærkvöldi.

Heimir Hallgrímsson og lærisveinar hans í landsliði Jamaíku komust yfir gegn Bandaríkjunum eftir aðeins 30 sekúndur er Bobby Reid kom með háan bolta á fjærstöngina þar sem Greg Leigh var mættur til að stanga boltann í netið.

Bandaríkjamenn tóku við stjórninni eftir markið og sköpuðu sér mörg úrvalsfæri. Vonarneistinn var að hverfa og var allt útlit fyrir að Jamaíka væri á leið í úrslit þegar bandaríska liðið fékk hornspyrnu með um tæpa mínúta eftir af uppbótartímanum. Þeir höfðu heppnina með sér því Cory Burke setti boltann í eigið net eftir hornspyrnuna og tryggði það Bandaríkjamönnum framlengingu.

Sóknarmaðurinn Haji Wright afgreiddi Jamaíku-menn þar með tveimur mörkum og kom sínum mönnum í úrslit Þjóðadeildarinnar.

Vefmiðillinn Goal fjallar um það að stuðningsmenn Bandaríkjanna séu ekki sáttir við leikinn þrátt fyrir að hann hafi á endanum unnist. Berhalter fær að finna fyrir því og vill fólk að hann taki pokann sinn.

„Hann er lúser og hefur alltaf verið það," skrifar einn á X. „Þetta er gullkynslóð Bandaríkjanna. Ef þetta lið vill ná einhverjum árangri, þá er Gregg Berhalter ekki maðurinn. Gefið Jesse Marsch þetta lið og leyfið honum að elda," skrifar annar.

Frammistaðan var ekki góð hjá Bandaríkjunum en á sama tíma hefur Heimir verið að vinna frábært starf með Jamaíku. Stuðningsmenn Bandaríkjanna eru ekki sáttir með það hversu nálægt Jamaíka var að vinna þennan leik.

Það hefur vakið athygli að Haji Wright, sem tryggði Bandaríkjunum, sigurinn var á leið í frí áður en hann fékk seint símtal frá Berhalter. Hann tryggði Coventry áfram í undanúrslit enska FA-bikarsins um síðustu helgi og fékk í kjölfarið kallið upp í landsliðið. Hann var ekki í upprunalega hópnum og hefur það verið gagnrýnt.

Bandaríkin mæta Mexíkó í úrslitaleik Þjóðadeildarinnar í CONCACAF á mánudaginn.




Athugasemdir
banner
banner