Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 31. júlí 2022 13:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Nik rýnir í úrslitaleikinn - „Ekki segja það, ekki segja það"
England spilar við Þýskaland í úrslitaleiknum.
England spilar við Þýskaland í úrslitaleiknum.
Mynd: EPA
Englendingurinn Nik Chamberlain, sem stýrir kvennaliði Þróttar, er mjög spenntur fyrir leiknum.
Englendingurinn Nik Chamberlain, sem stýrir kvennaliði Þróttar, er mjög spenntur fyrir leiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lena Oberdorf er mikilvæg fyrir þýska liðið.
Lena Oberdorf er mikilvæg fyrir þýska liðið.
Mynd: Getty Images
Er fótboltinn að koma heim?
Er fótboltinn að koma heim?
Mynd: Getty Images
Í dag er stór dagur. Úrslitaleikur Evrópumótsins verður spilaður á Wembley í Englandi. Það er uppselt á leikinn og er búist við um 90 þúsund áhorfendum.

Heimakonur í Englandi spila við Þýskaland í úrslitunum. Bæði þessi lið hafa spilað frábærlega á mótinu og þetta verður virkilega fróðlegur úrslitaleikur.

Undirritaður heyrði í Nik Chamberlain, þjálfara kvennaliðs Þróttar, á dögunum og fékk hann til að rýna í úrslitaleikinn sem er framundan.

„Gæðin í þessum leik verða mikil. Ég held að liðin munu ekki breyta mikið út af vananum fyrir þennan leik; það verður mikið um pressu, áhættumiklar sendingar, kantmenn að keyra einn á einn... skot, vörslur og klúður. Ég held að þetta verði mjög góður leikur og frábær leið til að slútta stórkostlegu móti," segir Nik.

„Lukkan hefur að einhverju leyti verið með báðum þessum liðum í liði á leið í úrslitaleikinn, en þú þarft alltaf smá heppni. Tréverkið bjargaði Þýskalandi gegn Austurríki og Earps, markvörður Englands, var öflug í undanúrslitunum gegn Svíþjóð. En þessi lið hafa skorað mest í mótinu og fengið á sig minnst. Enska liðið rústaði bæði Noregi og Svíþjóð. Og Þjóðverjar hafa verið skilvirkir líkt og Þjóðverjum einum er lagið. Eftir riðlakeppnina þá var mikið af fólki sem spáði þessum tveimur liðum í úrslitaleikinn og núna er það raunin," segir Nik.

Eitt besta miðvarðarpar sem ég hef séð
Það eru frábærir leikmenn í báðum þessum liðum, en hvaða leikmenn munu gera gæfumuninn í þessum úrslitaleik?

„Ég nefndi tvo unga leikmenn í spjalli á Heimavellinum um daginn - Lauren Hemp og Klara Buhl - og það verður spennandi að sjá þær á stærsta sviði fótboltans. Þær eru báðar búnar að eiga mjög gott mót hingað til," segir Nik.

„Alexandra Popp mun spila stórt hlutverk í leik Þýskalands og því verða Millie Bright og Leah Williamson að halda áfram að sýna yfirburði líkt og þær hafa gert hingað til. Í hreinskilni sagt eru þær eitt besta miðvarðarpar sem ég hef séð. Þær munu pottþétt eiga ömurlegan leik núna þegar ég er búinn að segja þetta," segir þjálfarinn léttur.

Nik segir að England með sé sterka leikmenn til að koma inn af bekknum og það geti skipt miklu máli í úrslitaleiknum. Alessia Russo og Ella Toone, sem báðar spila fyrir Manchester United, hafa báðir verið mjög sterkar í því að koma inn af bekknum á mótinu.

Hann býst við að baráttan inn á miðjunni geti verið lykillinn að sigri í þessum leik.

„Lena Oberdorf verður mikilvæg á miðsvæðinu í því að stoppa uppspil Englands. Keira Walsh er ótrúlega mikilvæg fyrir enska liðið og ef þýska liðinu tekst að stoppa hana og þá góðu eiginleika sem hún býr yfir inn á miðsvæðinu - eins og Spánn gerði - þá verður staða Þýskalands góð."

Taugarnar verða þandar
Um er að ræða gríðarlega stóran leik í enskri fótboltasögu, þetta er fyrsti úrslitaleikurinn sem kvennalandsliðið fer í á stórmóti - og það á heimavelli. Þjóðverjar eru á meðan áttfaldir Evrópumeistarar á uppleið aftur eftir nokkur mögur ár.

„Þetta er sögulegt. Ég hef fylgst með ljónynjunum af mikilli alvöru síðan 2007 þegar þær spiluðu á heimsmeistaramótinu í Kína. Að sjá þróun þeirra og vöxt hefur verið magnað. Þær hafa fengið mikinn stuðning um allt land og það hefur verið stórkostlegt að sjá. Þetta mun veita næstu kynslóðum mikinn innblástur og vonandi opna fleiri dyr fyrir kvennaboltann," segir Nik.

„Að mínu mati er þetta jafnstórt og úrslitaleikurinn á EM karla í fyrra. Ég verð á einhverjum bar í miðbænum og taugarnar verða þandar. Ég verð mjög spenntur og mun öskra á sjónvarpið eins og það skipti einhverju miklu máli."

Er fótboltinn að koma heim?

„Ekki segja það, ekki segja það, ekki segja... 'It’s coming home!'

Leikurinn í dag hefst klukkan 16:00 að íslenskum tíma. Hann verður sýndur í beinni útsendingu á RÚV.
Athugasemdir
banner
banner
banner