Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mið 31. ágúst 2022 21:46
Brynjar Ingi Erluson
Mjólkurbikarinn: Víkingar enn og aftur í úrslit eftir sigur á Blikum
Víkingur er komið í bikarúrslit
Víkingur er komið í bikarúrslit
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik liðanna í deildinni fyrr á tímabilinu
Úr leik liðanna í deildinni fyrr á tímabilinu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik 0 - 3 Víkingur R.
0-1 Davíð Ingvarsson ('5 , sjálfsmark)
0-2 Karl Friðleifur Gunnarsson ('8 )
0-3 Erlingur Agnarsson ('20 )
Lestu um leikinn

Víkingur er komið í úrslit Mjólkurbikarsins þriðja sinn í röð eftir 3-0 sigur á Breiðabliki í undanúrslitum keppninnar er liðin mættust á Kópavogsvelli í kvöld.

Gestirnir fengu mark á silfurfati á 5. mínútu. Birnir Snær Ingason átti fyrirgjöf. Boltinn fór yfir Nikolaj Hansen og skoppaði í teignum þar sem Anton Ari Einarsson ýtir boltanum til hliðar og þar var Davíð Ingvarsson í baráttunni við Erling Agnarsson og varð Davíð fyrir því óláni að skila honum í eigið net.

Karl Friðleifur Gunnarsson bætti við öðru fyrir Víking þremur mínútum síðar eftir fyrirgjöf frá Pablo Punyed og þá gerði Erlingur þriðja markið á 20. mínútu.

Höskuldur Gunnlaugsson ætlaði að senda boltann til baka á Anton Ara en sendingin rataði aldrei á markvörðinn og komst Erlingur í boltann áður en hann skilaði honum örugglega í netið.

Helgi Guðjónsson var hársbreidd frá því að bæta við fjórða markinu en hann skallaði yfir úr dauðafæri. Staðan í hálfleik 3-0 fyrir Víkingum.

Bæði lið sköpuðu sér færi í byrjun síðari hálfleiks en fyrsta alvöru dauðafæri Blika kom á 72. mínútu. Höskuldur kom boltanum inn í teiginn á Gísla Eyjólfsson sem stangaði honum á markið en Ingvar Jónsson gerði frábærlega og varði.

Víkingar náðu að sigla sigrinum örugglega heim og er liðið nú komið í þriðja bikarúrslitaleikinn í röð. Liðið vann bikarinn eftirminnilega á síðasta ári gegn ÍA, en árið 2020 var bikarkeppnin flautuð af vegna Covid. Liðið vann bikarinn einnig árið 2019 og á nú möguleika á að vinna þriðja sinn í röð.

Aðeins þrjú lið hafa náð þeim magnaða árangri. Valur vann bikarinn þrisvar í röð frá 1990-1992 og þá gerði ÍA það sama frá 1982-1984. KR vann bikarinn fimm sinnum í röð frá 1960-1964.

Víkingur mætir FH eða KA í úrslitum bikarsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner