Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   fös 01. júní 2018 13:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
HM spáin: C-riðill - 3. sæti
Danmörk
Komast Danir upp úr riðlinum?
Komast Danir upp úr riðlinum?
Mynd: Getty Images
Christian Eriksen er lykillinn að góðum árangri Dana. Geggjaður fótboltamaður.
Christian Eriksen er lykillinn að góðum árangri Dana. Geggjaður fótboltamaður.
Mynd: Getty Images
Age Hareide, landsliðsþjálfari Dana ræðir hér við Birki Bjarnason.
Age Hareide, landsliðsþjálfari Dana ræðir hér við Birki Bjarnason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Simon Kjær er fyrirliði Danmerkur.
Simon Kjær er fyrirliði Danmerkur.
Mynd: Getty Images
Danskir stuðningsmenn.
Danskir stuðningsmenn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er farið að styttast gífurlega í HM. Spennan er farin að magnast og er spennan hjá landsmönnum miklu meiri en áður þar sem Ísland er nú í fyrsta sinn á meðal þáttökuþjóða.

Fótbolti.net er með spá í riðlakeppnina og heldur hún áfram í dag. Við fengum nokkra góða álitsgjafa í bland við starfsmenn okkar til að aðstoða okkur við spána.

Sjá einnig:
Spáin fyrir A-riðil
Spáin fyrir B-riðil

Í dag er komið að sjálfum C-riðlinum, en þar er frændum okkar frá Danmörku spáð þriðja sætinu.

Í C-riðli leika Ástralía, Danmörk, Frakkland og Perú, en eitt af þessum liðum gæti mætt Íslandi í 16-liða úrslitum þar sem lið úr C- og D-riðlunum munu eigast við þegar þangað er komið.

Spámenn Fótbolta.net: Cloe Lacasse, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Gunnar Logi Gylfason, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Mist Rúnarsdóttir, Natasha Moraa Anasi, Orri Rafn Sigurðarson, Sara Hrund Helgadóttir, Tryggvi Guðmundsson.

Liðin fengu stig frá 1-4 eftir því sem þeim var spáð í riðlinum. Mest var því hægt að fá 44 stig, minnst 11 stig.

Spá Fótbolta.net fyrir C-riðil:

1. sæti.
2. sæti.
3. sæti. Danmörk, 26 stig
4. sæti. Ástralía, 13 stig

Staða á heimslista FIFA: 12.

Um liðið: Frændur okkar Danir eru komnir á HM ásamt okkur Íslendingum. Danmörk hefur ekki verið tíður gestur á síðustu stórmótum en munu mæta til leiks í Rússlandi. Þeim er ekki spáð upp úr riðlinum í spá okkar, en ættu að geta veitt Frakklandi og Perú harða samkeppni.

Þjálfarinn: Hinn norski Åge Hareide hefur stýrt Danmörku frá árinu 2015 og gert góða hluti. Hareide er 64 ára gamall og veit sitthvað um fótbolta. Á leikmannaferlinum spilaði hann meðal annars fyrir Manchester City og lék 50 landsleiki fyrir Noreg.

Hann hefur þjálfað á Norðurlöndunum á þjálfaraferli sínum og hefur komið nokkuð víða við. Hann var landsliðsþjálfari Noregs frá 2003 til 2008, en hann kom aldrei Norðmönnum á stórmót á meðan það tókst í fyrstu tilraun í Danmörku. Hann var að þjálfa Malmö í Svíþjóð áður en hann tók við landsliði Dana.

Árangur á síðasta HM: Voru ekki með.

Besti árangur á HM: Komust í 8-liða úrslit árið 1998.

Leikir á HM 2018:
16. júní, Perú - Danmörk (Saransk)
21. júní, Danmörk - Ástralía (Samara)
26. júní, Danmörk - Frakkland (Moskva)

Af hverju Danmörk gæti unnið leiki: Christian Eriksen er í heimsklassa og er lykillinn að góðum árangri Danmerkur. Hann er frábær í föstum leikatriðum og það er yfirleitt mikil hætta í kringum hann. Eriksen átti magnaðan leik gegn Íralndi í umspilinu og er stærsta ástæðan fyrir því að Danmörk er á HM.

Þeir fengu fá mörk á sig í undankeppninni þar sem Kasper Schmeichel, Simon Kjær og Andreas Bjelland vinna vel saman. Andreas Christensen, varnarmaður Chelsea kemst ekki í byrjunarliðið. Danir eru með hávaxið lið og geta reitt sig á langa bolta, en í liðinu er líka að finna tekníska leikmenn eins og Eriksen og Pione Sisto. Þegar farið er fram á við geta Danir því farið margar leiðir í áttina að markinu.

Af hverju Danmörk gæti tapað leikjum: Það gæti reynt of mikið á Eriksen ef eitthvað er. Hans frammistaða á mótinu mun segja til um það hversu langt Danmörk nær. Ef hann nær sér ekki á strik þá er Danmörk ekki að fara að ná langt.

Það er hægt að setja spurningarmerki við miðjumennina tvo sem eru fyrir aftan Eriksen, en svo gæti farið að það verði William Kvist og Thomas Delaney sem gegna því hlutverki. Efasemdir hafa vaknað um getu þeirra að færa boltann á milli varnar og sóknar.

Stjarnan: Christian Eriksen, einfalt. Eriksen er besti leikmaður Dana og þeir munu reiða sig mikið á hann. Leikur með Tottenham í enska boltanum og er þar í lykilhlutverki.

Fylgstu með: Kasper Dolberg og Andreas Christensen eru efnilegir leikmenn í þessu danska liði. Christensen er að koma úr góðu tímabili með Chelsea og Dolberg hefur verið flottur með Ajax. Dolberg getur komið með sprengikraft inn af bekknum.

Það er alltaf gaman að fylgjast með Nicklas Bendtner og hans uppátækjum. Bendtner er í æfingahópi Dana fyrir mótið, en hann fór meiddur af velli með Rosenborg um liðna helgi og er í kapphlaupi við tímann að verða klár fyrir mótið. Á næstu dögum verður 23 manna hópur Dana fyrir mótið tilkynntur og eins og staðan er núna er efast um að Bendtner verði með. Það yrðu mikil vonbrigði.

Líklegt byrjunarlið að mati Yahoo Sports (4-2-3-1): Kasper Schmeichel; Jens Stryger Larsen, Simon Kjaer, Andreas Bjelland, Riza Durmisi; Andreas Christensen, Thomas Delaney; Yussuf Poulson, Christian Eriksen, Pione Sisto; Nicolai Jorgensen.

Þarna má sjá að Christensen er inn á miðjunni. Hareide hefur talað um að nota hann þar, en í vetur spilaði strákurinn efnilegi í þriggja manna hafsentalínu Chelsea.

Riza Durmisi er í líklegu byrjunarliði en hann er ekki í lokahópi Dana. Það mun því einhver annar spila stöðu vinstri bakvarðar.

Leikmannahópurinn:
Hareide hefur tilkynnt 27 manna hóp sem verður skorinn niður í 23 á næstu dögum. Bendtner er þarna inni en eins og staðan er ólíklegt að hann fari með vegna meiðsla.

Markverðir: Kasper Schmeichel (Leicester), Jonas Lossl (Huddersfield), Frederik Ronow (Brondby)

Varnarmenn: Simon Kjaer (Sevilla), Andreas Christensen (Chelsea), Mathias Jorgensen (Huddersfield), Jannik Vestergaard (Borussia Monchengladbach), Andreas Bjelland (Brentford), Henrik Dalsgaard (Brentford), Peter Ankersen (FC Copenhagen), Jens Stryger (Udinese), Jonas Knudsen (Ipswich),

Miðjumenn: William Kvist (FC Copenhagen), Thomas Delaney (Werder Bremen), Christian Eriksen (Tottenham), Lasse Schone (Ajax), Mike Jensen (Rosenborg), Lukas Lerager (Bordeaux), Michael Krohn-Dehli (Deportivo La Coruna)

Sóknarmenn: Pione Sisto (Celta Vigo), Martin Braithwaite (Bordeaux), Andreas Cornelius (Atalanta), Viktor Fischer (FC Copenhagen), Yussuf Poulsen (RB Leipzig), Nicolai Jorgensen (Feyenoord), Nicklas Bendtner (Rosenborg), Kasper Dolberg (Ajax)



Athugasemdir
banner
banner