Salah, Rashford, Guehi, Ten Hag, Dewsbury-Hall og fleiri í pakka dagsins
   fös 01. júní 2018 11:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
HM spáin: C-riðill - 4. sæti
Ástralía
Ástralía fer ekki langt samkvæmt spánni.
Ástralía fer ekki langt samkvæmt spánni.
Mynd: Getty Images
Bert van Marwijk stýrir Áströlum á HM.
Bert van Marwijk stýrir Áströlum á HM.
Mynd: Getty Images
Aaron Mooy verður að eiga gott mót.
Aaron Mooy verður að eiga gott mót.
Mynd: Getty Images
Cahill er enn að spila fyrir Ástralíu. Hann var markahæsti leikmaður liðsins í undankeppninni.
Cahill er enn að spila fyrir Ástralíu. Hann var markahæsti leikmaður liðsins í undankeppninni.
Mynd: Getty Images
Jedinak er fyrirliði liðsins. Hann var næstmarkahæsti leikmaður liðsins í undankeppninni.
Jedinak er fyrirliði liðsins. Hann var næstmarkahæsti leikmaður liðsins í undankeppninni.
Mynd: Getty Images
Það er farið að styttast gífurlega í HM. Í dag eru akkúrat tvær vikur í að mótið verði flautað á.

Spennan er farin að magnast og er spennan hjá landsmönnum miklu meiri en áður þar sem Ísland er nú í fyrsta sinn á meðal þáttökuþjóða.

Fótbolti.net er með spá í riðlakeppnina og heldur hún áfram í dag. Við fengum nokkra góða álitsgjafa í bland við starfsmenn okkar til að aðstoða okkur við spána.

Sjá einnig:
Spáin fyrir A-riðil
Spáin fyrir B-riðil

Í dag er komið að sjálfum C-riðlinum og byrjum við á liðinu sem er spáð neðsta sætinu þar.

Í C-riðli leika Ástralía, Danmörk, Frakkland og Perú, en eitt af þessum liðum gæti mætt Íslandi í 16-liða úrslitum þar sem lið úr C- og D-riðlunum munu eigast við þegar þangað er komið.

Spámenn Fótbolta.net: Cloe Lacasse, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Gunnar Logi Gylfason, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Mist Rúnarsdóttir, Natasha Moraa Anasi, Orri Rafn Sigurðarson, Sara Hrund Helgadóttir, Tryggvi Guðmundsson.

Liðin fengu stig frá 1-4 eftir því sem þeim var spáð í riðlinum. Mest var því hægt að fá 44 stig, minnst 11 stig.

Spá Fótbolta.net fyrir C-riðil:

1. sæti.
2. sæti.
3. sæti.
4. sæti. Ástralía, 13 stig

Staða á heimslista FIFA: 40.

Um liðið: Ástralir eru að fara á sitt fjórða Heimsmeistaramót í röð en ólíklegt þykir að liðið muni leika eftir sinn besta árangur hingað til, frá 2006, þegar það komst í 16-liða úrslit. Undankeppnin var basl og mótið kemur til með að vera það líka.

Þjálfarinn: Hollendingurinn Bert van Marwijk stýrir Áströlum á HM. Það var athyglisvert að Ange Postecoglou ákvað að hætta með liðið um leið og HM sætið var tryggt. Þjálfarleit fór af stað og kemur það í hlut Van Marwijk að stýra liðinu á HM.

Hinn 65 ára gamli Van Marwijk kom Sádí-Arabíu á HM en hætti þar eftir undankeppnina. Van Marwijk byrjaði að þjálfa 1998 og hefur þjálfað félgslið í Hollandi og Þýskalandi. Hann var þjálfari hollenska landsliðsins árið 2010 og kom hann liðinu þá í úrslitaleik HM, en þar var tap niðurstaðan gegn Spáni.

Árangur á síðasta HM: Féllu út í riðlakeppninni.

Besti árangur á HM: Komust í 16-liða úrslit árið 2006.

Leikir á HM 2018:
16. júní, Frakkland - Ástralía (Kazan)
21. júní, Danmörk - Ástralía (Samara)
26. júní, Ástralía - Perú (Sochi)

Af hverju Ástralía gæti unnið leiki: Það er erfitt að segja, riðillinn er mjög sterkur. Það eru ekki margir magnaðir knattspyrnumenn í ástralska landsliðinu, en það eru nokkrir ágætir inn á milli, þar á meðal Aaron Mooy, leikmaður Huddersfield, og Matthew Ryan, markvörður Brighton. Mooy sýndi fína takta inn á milli í ensku úrvalsdeildinni í vetur og getur skorað fótboltamörk, og Ryan getur komið í veg fyrir fótboltamörk.

Ef önnur lið sýna kæruleysi, þá gæti Átralía nýtt sér það með reynslumikinn þjálfara eins og Van Marwijk.

Af hverju Ástralía gæti tapað leikjum: Þó Van Marwijk sé reynslumikill og hefur áður náð góðum árangri á HM þá er hann ekki búinn að fá mikinn tíma með áströlsku leikmennina.

Ástralía náði sér ekki á strik í undankeppninni og þurfti að fara í gegnum tvö umspil til þess eins að komast á mótið vegna þess að liðið gat ekki lent á undan Sádí-Arabíu. Vörnin lítur ekki vel út hjá ástralska liðinu á pappír.

Riðillinn er heilt yfir mjög sterkur og ættu hin þrjú liðin að vera sterkari en Ástralir á fótboltavellinum.

Stjarnan: Aaron Mooy er öflugur leikmaður sem sýndi hvað hann getur með Huddersfield í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Hann er með mörg vopn í vopnabúri sínu, getur spilað góðum síðasta bolta og auk þess er hann góður tæklingamaður.

Hann þarf að vera upp á sitt langbesta ef Ástralía á að komast upp úr riðlakeppninni, en ef hann nær að fleyta Ástralíu eitthvað lengra þá munu stærri félög eflaust bítast um hann í sumar.

Fylgstu með: Tim Cahill, sem er orðinn 38 ára gamall. Er enn að spila með ástralska landsliðinu og var markahæsti leikmaður liðsins í undankeppninni með 11 mörk. Ef Ástralíu vantar mark inn af bekknum er hann maðurinn.

Líklegt byrjunarlið að mati Yahoo Sports (4-2-3-1): Mat Ryan; Josh Risdon, Trent Sainsbury, Milos Degenek, Aziz Behich; Mile Jedinak, Massimo Luongo; Matthew Leckie, Aaron Mooy, Robbie Kruse; Tomi Juric.

Leikmannahópurinn:
Bert van Marwijk, landsliðsþjálfari, hefur tilkynnt 27 leikmenn sem berjast um 23 farseðla til Rússlands. Hópurinn verður minnkaður í 23 á komandi dögum.

Markverðir: Brad Jones (Feyenoord), Mat Ryan (Brighton), Danny Vukovic (Genk)

Varnarmenn: Aziz Behich (Bursaspor), Milos Degenek (Yokohama F. Marinos), Matthew Jurman (Suwon Samsung Bluewings), Fran Karacic (Lokomotiva), James Meredith (Millwall), Josh Risdon (Western Sydney Wanderers), Trent Sainsbury (Grasshoppers)

Miðjumenn: Josh Brillante (Sydney FC), Jackson Irvine (Hull), Mile Jedinak (Aston Villa), Robbie Kruse (Bochum), Massimo Luongo (Queens Park Rangers), Mark Milligan (Al Ahli), Aaron Mooy (Huddersfield), Tom Rogic (Celtic), James Troisi (Melbourne Victory)

Sóknarmenn: Daniel Arzani (Melbourne City), Tim Cahill (Millwall), Tomi Juric (FC Luzern), Mathew Leckie (Hertha Berlin), Andrew Nabbout (Urawa Red Diamonds), Dimitri Petratos (Newcastle Jets), Nikita Rukavytsya (Maccabi Haifa), Jamie Maclaren (Hibernian)
Athugasemdir
banner
banner
banner