Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   fim 07. júní 2018 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
HM spáin: F-riðill - 3. sæti
Svíþjóð
Svíum er spáð þriðja sæti í F-riðlinum.
Svíum er spáð þriðja sæti í F-riðlinum.
Mynd: Getty Images
Janne Andersson stýrir Svíum.
Janne Andersson stýrir Svíum.
Mynd: Getty Images
Emil Forsberg er lykilmaður hjá Svíum.
Emil Forsberg er lykilmaður hjá Svíum.
Mynd: Getty Images
Lindelöf ætlar að sanna sig í Rússlandi.
Lindelöf ætlar að sanna sig í Rússlandi.
Mynd: Getty Images
Zlatan tilkynnti það eftir EM 2016 að hann væri hættur með landsliðinu. Síðustu mánuði hefur hann þó ýjað að því að hann væri að fara með til Rússlands, en hann fer ekki á mótið.
Zlatan tilkynnti það eftir EM 2016 að hann væri hættur með landsliðinu. Síðustu mánuði hefur hann þó ýjað að því að hann væri að fara með til Rússlands, en hann fer ekki á mótið.
Mynd: Getty Images
Spá Fótbolta.net í riðlakeppni HM heldur áfram í dag. Eftir því sem líður á daginn verður spáin fyrir F-riðilinn opinberuð. Nú er það liðið sem er spá þriðja sæti; Svíþjóð.

Sjá einnig:
Spáin fyrir A-riðil
Spáin fyrir B-riðil
Spáin fyrir C-riðil
Spáin fyrir D-riðil
Spáin fyrir E-riðil

HM í Rússlandi hefst eftir nokkra daga. Opnunarleikurinn er á milli heimamanna og Sádí-Arabíu 14. júní og sjálfur úrslitaleikurinn verður 15. júlí næstkomandi.

Spámenn Fótbolta.net: Cloe Lacasse, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Gunnar Logi Gylfason, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Mist Rúnarsdóttir, Natasha Moraa Anasi, Orri Rafn Sigurðarson, Sara Hrund Helgadóttir, Tryggvi Guðmundsson.

Liðin fengu stig frá 1-4 eftir því sem þeim var spáð í riðlinum. Mest var því hægt að fá 44 stig, minnst 11 stig.

Spá Fótbolta.net fyrir F-riðil:

1. sæti.
2. sæti.
3. sæti. Svíþjóð, 23 stig
4. sæti. Suður-Kórea, 17 stig

Staða á heimslista FIFA: 23.

Um liðið: Svíar gerðu sér lítið fyrir og slógu út stórveldið Ítalíu í umspili um sæti á Heimsmeistaramótinu. Það var risastórt afrek, líka í ljósi þess að liðið var í riðli með Frakklandi, Hollandi og Búlgaríu í undankeppninni. Svíþjóð komst í gegnum erfiða undankeppni og er nú í erfiðum riðli á HM. Það var ekki kallað í Zlatan Ibrahimovic, kemst liðið í gegnum aðra erfiða prófraun án hans? Ekki samkvæmt spánni að minnsta kosti.

Þjálfarinn: Janne Andersson hefur þjálfað Svíþjóð frá því eftir EM 2016 þar sem liðið féll út í riðlakeppninni. Janne náði aldrei miklum árangri sem leikmaður en sem þjálfari hefur hann verið að gera flotta hluti. Árið 2011 tók hann við Norrköping, sem er mikið Íslendingalið, og nokkrum árum síðar, árið 2015, gerði hann liðið að sænskum meisturum mjög óvænt. Hann er ein stærsta goðsögn í sögu Norrköping eftir það afrek.

Hann kom Svíþjóð óvænt á HM eftir umspilið við Ítalíu og nú þarf hann að að gera eitthvað óvænt aftur.

Árangur á síðasta HM: Voru ekki með.

Besti árangur á HM: Annað sæti árið 1958.

Leikir á HM 2018:
18. júní, Svíþjóð - Suður-Kórea (Nizhny Novgorod)
23. júní, Þýskaland - Svíþjóð (Sochi)
27. júní, Mexíkó - Svíþjóð (Ekaterinburg)

Af hverju Svíþjóð gæti unnið leiki: Liðið er betra án Zlatan, nei í alvöru. Án Zlatan er meiri agi í liðinu og andinn í kringum sænska landsliðið er betri. Andstæðingar hræðast Svíþjóð kannski ekki eins mikið, en það má ekki líta fram hjá Svíum sem fóru erfiðustu leiðina af öllum til Rússlands.

Undir stjórn Janne Andersson er liðið mjög vel skipulagt, hann spilar þétta 4-4-2 taktík eins og Ísland gerði mjög mikið þegar Lars Lagerback var við stjórnvölinn.

Af hverju Svíþjóð gæti tapað leikjum: Vegna þess að það er enginn Zlatan... Án Zlatan er ekki mikil tæknileg geta í hópnum, það er Emil Forsberg en ekki mikið annað. Það er ekki mikil breidd og lykilmenn hafa ekki verið að spila vel eða mikið að undanförnu.

Victor Lindelof átti ekki gott tímabil með Manchester United. John Guidetti fann sig ekki hjá Alaves, Ola Toivonen spilar varla fyrir Toulouse, Marcus Berg er að spila í Abú Dabí og aðalmarkvörðurinn Robin Olsen varð fyrir meiðslum á slæmum tímapunkti. Liðið spilar með tvo sóknarmenn en það er ekki úr mörgu að velja þar.

Stjarnan: Emil Forsberg, miðvallarleikmaður RB Leipzig, er stjörnuleikmaðurinn í þessu liði. Hann gaf flestar stoðsendingar af öllum leikmönnum í bestu fimm deildum Evrópu tímabilið 2016-17. Þetta tímabil var ekki eins gott en hann er algjör lykilmaður í sóknaruppbyggingu Svía.

Hann er andstæðan við Zlatan og er feiminn og hógvær. Faðir hans sagði einu sinni um hann: „Hann er án efa leiðinlegasti viðmælandi sem til er. Hann segir alltaf það sama."

Fylgstu með: Victor Lindelöf sem er líklega þekktasta nafnið í sænska landsliðshópnum. Leikur með Manchester United þar sem hann átti ekki gott fyrsta tímabil eftir að hafa komið frá Benfica. Hann er fyrsti kostur í miðvarðarstöðuna hjá Svíþjóð ásamt Andreas Granqvist og ætlar hann að sýna sig og sanna á HM.

Líklegt byrjunarlið að mati Yahoo Sports (4-4-2): Robin Olsen; Mikael Lustig, Victor Lindelof, Andreas Granqvist, Ludwig Augustinsson; Viktor Claesson, Sebastian Larsson, Albin Ekdal, Emil Forsberg; Ola Toivonen, Marcus Berg.

Leikmannahópurinn:
Zlatan fer ekki með til Rússlands, en ekki heldur Jakob Johansson sem skoraði markið sem kom Svíþjóð á HM.

Markverðir: Karl-Johan Johnsson (Guingamp), Kristoffer Nordfeldt (Swansea), Robin Olsen (FC Copenhagen).

Varnarmenn: Ludwig Augustinsson (Werder Bremen), Andreas Granqvist (Krasnodar), Filip Helander (Bologna), Pontus Jansson (Leeds), Emil Krafth (Bologna), Mikael Lustig (Celtic), Victor Lindelof (Manchester United), Martin Olsson (Swansea).

Miðjumenn: Viktor Claesson (Krasnodar), Jimmy Durmaz (Toulouse), Albin Ekdal (Hamburger SV), Emil Forsberg (Leipzig), Oscar Hiljemark (Genoa), Sebastian Larsson (Hull City), Marcus Rohden (FC Crotone), Gustav Svensson (Seattle Sounders).

Sóknarmenn: Marcus Berg (Al Ain), John Guidetti (Alaves), Isaac Kiese Thelin (Waasland-Beveren), Ola Toivonen (Toulouse).
Athugasemdir
banner