Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   þri 02. maí 2017 12:45
Arnar Daði Arnarsson
Best í 1. umferð: Setjum markið hátt í Garðabænum
Katrín Ásbjörnsdóttir - Stjarnan
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
„Ég er mjög ánægð með þessa byrjun og jákvætt að skora tvö mörk. Ég set mér alltaf ákveðin persónuleg markmið á leikdag og í þessum leik skiluðu þau sér," sagði Katrín Ásbjörnsdóttir fyrirliði Stjörnunnar.

Katrín er leikmaður 1. umferðar í Pepsi-deild kvenna hjá Fótbolta.net en hún skoraði tvívegis og lagði upp tvö í 5-1 sigri liðsins á Haukum í 1. umferð Pepsi-deildar kvenna.

Þurfum að gera betur í boxinu
„Í heildina er ég ánægð með leikinn. Við sköpum okkur mikið af færum en hefðum mátt nýta fleiri. Við komumst mikið upp kantana og fengum mikið af fyrirgjöfum og hornspyrnum þar sem við þurfum að gera betur í boxinu."

„Haukarnir gáfu okkur hörkuleik og spiluðu fast en mér fannst við vera með yfirhöndina allan leikinn. Við vissum að við myndum vera meira með boltann, eins og við erum oftast, en þyrftum að vera fókuseraðar og finna bestu marktækifærin. Ég er alltaf ánægð með þrjú stig hvernig sem þau koma og eru fimm mörk í fyrsta leik góð byrjun á sumrinu," sagði Katrín en Stjörnuliðið var lengi vel aðeins einu marki yfir þrátt fyrir að vera manni fleiri frá 20. mínútu leiksins.

„Haukarnir komu okkur ekkert á óvart. Við vissum að búast væri við hörkuleik við nýliðana því þær vilja sanna sig í Pepsí og þær spiluðu góðan leik á köflum og skora glæsilegt mark. Ég viðurkenni að það var smá skjálfti í okkur í stöðunni 2-1 en við sýndum úr hverju við erum gerðar, spiluðum áfram okkar leik og vorum þolinmóðar."

Stefnum á allta titla sem eru í boði
Stjörnunni var spáð Íslandsmeistaratitlinum af sérfræðingum Fótblta.net. En hvernig fótbolta megum við búast við af Stjörnuliðinu í sumar?

„Við ætlum okkur að spila skemmtilegan og árangursríkan fótbolta í sumar og stefnum á þá titla sem eru í boði. Við erum þekktar fyrir það að halda vel í boltann og færa hann vel á milli leikmanna. Við viljum líka byggja ofan á það sem við höfum verið að gera í vetur og gera enn betur í sumar, sérstaklega á síðasta þriðjungi. Okkar markmið eru skýr og setjum við markið hátt í Garðabænum."

Katrín býst við skemmtilegu tímabili í sumar og raunar það skemmtilegasta í langan tíma.

„Það er mjög jákvætt fyrir íslenskan fótbolta að fá leikmenn heim úr atvinnumennsku og styrkir það deildina enn frekar. Ég held að þetta verði jöfn barátta milli fjögurra liða í sumar; Stjörnunnar, Vals, Breiðabliks og Þór/KA. Donni, þjálfari Þórs/KA, hefur verið að gera góða hluti fyrir norðan og lítur liðið mjög vel út. Einnig geta lið eins og IBV og KR strítt þessum liðum og blandað sér í toppbaráttuna," sagði Katrín fyrirliði Stjörnunnar og hélt áfram,

„Þetta verður jöfn og spennandi deild og ég held að það verði mikil dramatík í september," sagði hún að lokum.

Katrín fær pizzuveislu frá Domino´s en allir leikmenn umferðarinnar í Pepsi-deild kvenna fá gjafabréf frá Domino´s í sumar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner