Bayern hefur áhuga á Bruno - Man Utd ætlar að bjóða í Branthwaite - Frank og McKenna orðaðir við stjórastarfið á Old Trafford
   mið 01. maí 2024 21:05
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Dortmund leiðir einvígið - Færin fóru forgörðum hjá PSG
Kylian Mbappe og félagar fá tækifæri til að snúa við taflinu í París
Kylian Mbappe og félagar fá tækifæri til að snúa við taflinu í París
Mynd: Getty Images
Borussia D. 1 - 0 Paris Saint Germain
1-0 Niclas Fullkrug ('36 )

Borussia Dortmund vann Paris Saint-Germain, 1-0, í fyrri undanúrslitaleik liðanna í Meistaradeild Evrópu er þau mættust á Signal Iduna Park í Þýskalandi í kvöld.

Heimamenn skoruðu eina mark leiksins á 36. mínútu er miðvörðurinn Nico Schlotterbeck kom með háa og hnitmiðaða sendingu yfir vörn PSG og til Niclas Füllkrug, sem kláraði af stakri snilld.

Í síðari hálfleiknum sköpuðu frönsku gestirnir sér urmul af færum og í raun ótrúlegt að liðið hafi ekki að minnsta kosti skorað eitt mark í leiknum.

Kylian Mbappe og Achraf Hakimi settu báðir boltann í stöng í sömu sókninni. Nokkrum mínútum síðar klúðraði Fabian Ruiz dauðafæri eftir frábæra fyrirgjöf Marquinhos. Ruiz var einn og óvaldaður í teignum en stangaði boltanum framhjá markinu af stuttu færi.

Ousmane Dembele fékk tvö frábær færi í teignum en brást bogalistin.

Jadon Sancho, sem er á láni hjá Dortmund frá Manchester United, var stórkostlegur í leiknum. Skapaði færi fyrir liðsfélaga sína og minnti þetta á gamla góða Sancho áður en hann fór til United fyrir þremur árum.

Dortmund sigldi sigrinum heim og er nú 90 mínútum frá því að komast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. Allt getur enn gerst, enda seinni leikurinn á Parc des Princes, heimavelli PSG, en hann fer fram í næstu viku.
Athugasemdir
banner
banner
banner