Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, reiknar fastlega með því að Þorlákur Breki Baxter komi aftur til móts við hópinn í sumar, en hann mun eyða fyrri hlutanum á láni hjá Selfyssingum.
Á dögunum skoraði hinn 19 ára gamli Breki fyrra mark Stjörnunnar í sigri á Augnabliki í Mjólkurbikarnum.
Seinna um kvöldið var hann lánaður í Selfoss, sem spilar í 2. deildinni, en hann var sendur þangað til að fá meiri leikreynslu.
Breki er framherji sem kom á Selfoss frá Hetti/Huginn fyrir tímabilið 2021 en hann var keyptur til Lecce síðasta sumar. Hann spilaði lítið með unglingaliði félagsins en hann meiddist stuttu eftir að hann kom til Lecce.
Hann snéri aftur heim eftir nokkra mánaða dvöl á Ítalíu og gerði þriggja ára samning við Stjörnuna.
Eftir 1-0 sigur Stjörnunnar á Fylki talaði Jökull um það að Stjarnan ætti möguleika á að kalla hann til baka í sumarglugganum og verður sá möguleiki líklega nýttur.
„Ég held að það sé möguleiki að kalla hann til baka. Við erum með miklar væntingar til hans, virkilega flottur leikmaður. Það er fínt fyrir hann að fá að spila aðeins núna og vonandi kemur hann aftur í glugganum og við komum honum betur inn í hlutina. Við reiknum aftur með honum í sumar,“ sagði Jökull við Fótbolta.net.
Athugasemdir