Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   lau 09. mars 2024 19:35
Ívan Guðjón Baldursson
England: Arsenal á toppinn eftir nauman sigur
Mynd: EPA
Arsenal 2 - 1 Brentford
1-0 Declan Rice ('19)
1-1 Yoane Wissa ('45+4)
2-1 Kai Havertz ('86)

Arsenal og Brentford áttust við í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni og tóku heimamenn forystuna í fyrri hálfleik, þegar Declan Rice gerði vel að skalla góða fyrirgjöf frá Ben White í netið.

Leikurinn var nokkuð jafn, þar sem Arsenal hélt boltanum betur en gestirnir voru hættulegir í sínum sóknaraðgerðum. Heimamenn í Arsenal voru bitlausir og tókst gestunum að gera jöfnunarmark fyrir leikhlé, sem skrifast alfarið á Aaron Ramsdale, markvörð Arsenal.

Ramsdale var alltof lengi að hreinsa boltann frá marki og endaði á að sparka honum í Yoane Wissa sem kom í pressunni og þaðan endaði boltinn í netinu.

Síðari hálfleikurinn var nokkuð jafn, þar sem Arsenal átti í vandræðum með að opna vörn Brentford og reyndust skyndisóknir gestanna hættulegar. Ramsdale bætti upp fyrir mistökin hryllilegu með frábærum markvörslum í síðari hálfleik og var staðan jöfn allt þar til á lokakaflanum.

Það voru Ben White og Kai Havertz sem gerðu gæfumuninn, þegar Havertz kom boltanum í netið með góðum skalla eftir aðra fyrirgjöf frá White - sem lagði bæði mörk Arsenal upp með fyrirgjöfum frá hægri vængnum.

Arsenal fer á topp ensku úrvalsdeildarinnar með þessum sigri, en getur misst sætið á morgun þegar Liverpool og Manchester City mætast í eftirvæntum toppslag.
Athugasemdir
banner
banner