Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 10. maí 2021 13:30
Elvar Geir Magnússon
Hafa ekki efni á Ronaldo án Meistaradeildarinnar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo.
Mynd: Getty Images
Juventus er í fimmta sæti ítölsku A-deildarinnar eftir 3-0 tap gegn AC Milan á sunnudag. Meistararnir eru stigi á eftir Napoli sem er í fjórða sætinu.

Juventus þarf að komast í Meistaradeildina til að eiga efni á því að halda Cristiano Ronaldo samkvæmt Calciomercato.com. Ef það mistekst að komast í keppni þeirra bestu gætu leiðir skilið.

Ef horft er framhjá tekjumissinum myndi Ronaldo líklega hvort sem er vilja fara ef liðið kemst ekki í Meistaradeildina.

Það er hinsvegar enginn hægðarleikur fyrir Jorge Mendes umboðsmann hans að finna félag sem er tilbúið að jafna launatölur Portúgalans hjá Juventus.

Ronaldo hefur skorað 27 deildarmörk á þessu tímabili og gæti enn hjálpað liðinu að komast í Meistaradeildina en þrjár umferðir eru eftir af deildinni.

Pirlo klárar tímabilið
Hávær umræða hefur verið um framtíð Andrea Pirlo, stjóra Juventus. Stjórn Juventus fundaði um stöðu mála í dag en samkvæmt SportItalia hefur verið ákveðið að hann muni klára tímabilið í stjórasætinu.

Juventus á eftir að spila gegn Sassuolo, Inter og Bologna í deildinni. Þá á liðið eftir að leika bikarúrslitaleik gegn Atalanta.
Athugasemdir
banner