Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   þri 13. mars 2018 11:00
Magnús Már Einarsson
Fylkir spilar líklega fyrstu tvo heimaleikina í Laugardalnum
Fylkismenn fagna sætinu í Pepsi-deild síðastliðið haust.
Fylkismenn fagna sætinu í Pepsi-deild síðastliðið haust.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Frá Fylkisvelli.
Frá Fylkisvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Allt bendir til þess að fyrstu tveir leikir Fylkis í Pepsi-deild karla í sumar fari fram á Eimskipsvellinum, heimavelli Þróttar í Laugardalnum.

Í desember var undirritað samkomulag um að leggja gervigrasvöll á aðalvöll Fylkis. Framkvæmdir eru þó ekki ennþá hafnar.

„Þetta er í útboðsferli og framkvæmdir ættu að geta hafist um næstu mánaðarmót. Það þarf að leggja allar lagnir og allt undir vellinum," sagði Hörður Guðjónsson framkvæmdastjóri Fylkis við Fótbolta.net í dag.

„Upphaflega planið var að ná þessu fyrir mót en ef maður er alveg raunsær þá er það líklega ekki að ganga. Ekki nema menn vinni rosalega hratt."

Fylkir byrjar Pepsi-deildina á útivelli gegn Víkingi R. en liðið á heimaleiki í 2. umferð (6. maí) gegn KA og í 4. umferð (17. maí) gegn ÍBV. Allt bendir til þess að þeir leikir fari fram á Þróttarvelli.

„Við höfum rætt við Þróttarana um að spila fyrstu tvo leikina þar en þetta er ekki alveg orðið 100%," sagði Hörður.

Fylkir stefnir á að leika fyrsta leikinn á nýju gervigrasi á aðalvelli sínum þann 28. maí þegar FH kemur í heimsókn í 6. umferð Pepsi-deildarinnar. „Við erum að horfa á þann leik til að vera alveg raunsæ," sagði Hörður.

Kvennalið Fylkis spilar í 1. deild kvenna og þar er ekki leyfiskerfi eins og í Pepsi-deiild karla. Því spilar kvennaliðið fyrstu heimaleiki sína á núverandi gervigrasvelli Fylkis en þar er engin stúka fyrir áhorfendur.
Athugasemdir
banner