Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 14. mars 2024 22:07
Ívan Guðjón Baldursson
Evrópudeildin: Auðvelt fyrir Liverpool - Endurkoma í Leverkusen
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Liverpool, AS Roma, Atalanta og Bayer Leverkusen eru komin áfram í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar eftir leiki kvöldsins.

Liverpool rúllaði yfir Sparta Prag í leik þar sem Mohamed Salah skoraði eitt og gaf þrjár stoðsendingar.

Bobby Clark komst einnig á blað ásamt Darwin Núnez og Dominik Szoboszlai, en Cody Gakpo setti tvennu.

Hinn 19 ára gamli Clark skoraði þar með sitt fyrsta mark fyrir meistaraflokk Liverpool og lagði einnig upp mark í sigrinum.

Liverpool vann 6-1 eftir stórsigur í fyrri leiknum, þannig heildarniðurstaðan er 11-2 sigur.

Danny Welbeck skoraði þá eina mark leiksins er Brighton sigraði 1-0 gegn Roma, en sá sigur er ekki nægilega stór til að fleyta Roberto De Zerbi og lærisveinum hans áfram í næstu umferð.

Brighton var talsvert sterkara liðið á heimavelli en klúðraði urmul færa og dettur úr leik eftir 4-0 tap í fyrri leiknum í Róm.

Bayer Leverkusen tók á móti Qarabag frá Aserbaídsjan eftir að liðin gerðu 2-2 jafntefli í fyrri leiknum ytra. Qarabag komst í 2-0 forystu á heimavelli en Leverkusen tókst að jafna í síðari hálfleik, en staðan í kvöld var markalaus í leikhlé.

Qarabag komst óvænt í tveggja marka forystu í síðari hálfleiknum í kvöld og misstu Aserarnir einnig leikmann af velli með beint rautt spjald.

Tíu leikmenn Qarabag reyndu eins og þeir gátu að halda forystunni, en það tókst ekki. Vængbakvörðurinn eftirsótti Jeremie Frimpong var snöggur að minnka muninn en jöfnunarmark Leverkusen leit ekki dagsins ljós fyrr en í uppbótartíma.

Þar var tékkneski sóknarmaðurinn Patrik Schick á ferðinni, þar sem hann skoraði jöfnunarmark á 93. mínútu áður en hann gerði sigurmark fjórum mínútum síðar.

Að lokum hafði Atalanta betur í hörkuslag gegn Sporting CP, þar sem gestirnir frá Lissabon komust yfir og leiddu í hálfleik eftir 1-1 jafntefli í fyrri leiknum í Portúgal. Pedro Goncalves, sem átti stóran þátt í að slá Arsenal úr leik í fyrra, skoraði eina markið í fyrri hálfleik.

Ademola Lookman jafnaði metin í upphafi síðari hálfleiks og tók Gianluca Scamacca forystuna á 59. mínútu.

Sporting reyndi að jafna metin á ný en tókst ekki að skora framhjá sterkri vörn Atalanta sem stóð uppi sem sigurvegari.

Gian Piero Gasperini, þjálfari Atalanta, hvíldi lykilmenn í leiknum í dag þar sem Davide Zappacosta, Charles De Ketelære og Teun Koopmeiners komu allir inn af bekknum.

Liverpool, Roma, Atalanta og Leverkusen eru því komin í 8-liða úrslitin ásamt West Ham, Marseille, Benfica og Milan.

Liverpool 6 - 1 Sparta Prag (11-2 samanlagt)
1-0 Darwin Nunez ('7 )
2-0 Bobby Clark ('8 )
3-0 Mohamed Salah ('10 )
4-0 Cody Gakpo ('14 )
4-1 Veljko Birmancevic ('42 )
5-1 Dominik Szoboszlai ('48 )
6-1 Cody Gakpo ('55 )

Brighton 1 - 0 Roma (1-4 samanlagt)
1-0 Danny Welbeck ('37 )

Leverkusen 3 - 2 Qarabag (5-4 samanlagt)
0-1 Abdellah Zoubir ('58 )
0-2 Juninho ('67 )
1-2 Jeremie Frimpong ('72 )
2-2 Patrik Schick ('93 )
3-2 Patrik Schick ('97 )
Rautt spjald: Elvin Cafarquliyev, Qarabag ('63)

Atalanta 2 - 1 Sporting
0-1 Pedro Goncalves ('33 )
1-1 Ademola Lookman ('46 )
2-1 Gianluca Scamacca ('59 )
Athugasemdir
banner
banner
banner