Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   þri 14. apríl 2020 20:06
Elvar Geir Magnússon
Víðir útilokar ekki krakkamótin - „Hægt að fara IKEA leiðina"
Frá N1-mótinu á Akureyri.
Frá N1-mótinu á Akureyri.
Mynd: Sigurður Svansson
Mynd: N1 mótið
Möguleiki er á að halda stóru krakkamótin í fótbolta í sumar en þá með öðruvísi sniði. Þetta segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra.

Hann segir að skipuleggjendur móta séu að skoða möguleika á að skipta þátttakendum upp í hópa svo farið sé eftir gildandi reglum vegna Covid-19.

„Maður hefur heyrt af því að skipuleggjendur móta treysti sér í að hólfa þessi mót niður eftir því hvaða tölur verða í gildi," segir Víðir.

„Það er möguleiki á að hægt sé að halda krakkamót með breyttu sniði í einhverjum minni hópum. Kannski þarf að skipta þessu meira upp innan svæða. Þá verða kannski einhverjir hópar fyrir hádegi og aðrir eftir hádegi og slíkt."

„Menn eru lausnarmiðaðir og reyna að hugsa út fyrir boxið. Menn geta fundið leiðina."

Nokkur stór krakkamót skipta miklu máli í fjáröflun hjá íþróttafélögum og þá er mikil upplifun hjá ungum fótboltakrökkum að taka þátt í svona mótum.

Víðir talar um „IKEA-leiðina" í þeim efnum að halda mót með breyttu sniði á þessum fordæmalausu tímum.

„Þegar það var 100 manna takmörkun þá skipti IKEA búðinni upp í sex svæði. Maður gæti séð svipaða útfærslu á krakkamótunum. Ef þú ert til dæmis bara með 100 krakka á sama svæðinu og láta þá ekki spila þvers og kruss þá er hægt að finna leiðir í þessu," segir Víðir.

„Maður er búinn að heyra alls kyns hugmyndir frá íþróttahreyfingunni um hvernig er hægt að leita leiða til að koma starfsseminni af stað. Það vill samt enginn taka neinar áhættur. Það vill enginn að það komi upp smit á viðburði sem hann er að halda. Það er engin sýndarmennska í þessu og ef menn ætla að gera þetta þá gera þeir það eftir þeim reglum og skilyrðum sem gilda hverju sinni."
Athugasemdir
banner
banner