Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   mið 20. mars 2024 13:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hákon um sögu sína í fótboltanum: Þetta er mjög grillað
Icelandair
Hákon í leik með Gróttu.
Hákon í leik með Gróttu.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Óskar Hrafn Þorvaldsson gaf Hákoni stórt tækifæri.
Óskar Hrafn Þorvaldsson gaf Hákoni stórt tækifæri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hákon í leik með Elfsborg.
Hákon í leik með Elfsborg.
Mynd: Guðmundur Svansson
Hákon Rafn Valdimarsson var í janúar síðastliðnum keyptur til Brentford sem leikur í ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa verið besti markvörður sænsku úrvalsdeildarinnar með Elfsborg. Hákon er dýrasti markvörður í sögu sænsku úrvalsdeildarinnar og er salan á honum sú stærsta í sögu Elfsborg. Kaupverðið var um 3,5 milljónir evra.

Uppgangurinn hefur verið hraður hjá Hákoni en fyrir ekki svo mörgum árum síðan var hann miðvörður í yngri flokkum KR. Á þeim tíma var hann áhugasamari um handbolta og hætti hann um tíma í fótbolta. Hann var svo kallaður inn á æfingar hjá Gróttu þegar það vantaði markvörð þar.

„Þetta er mjög grillað. Ég var alltaf í handbolta í Gróttu. Það vantaði alltaf markvörð í 2. flokk en ég hafði spilað einn eða tvo leiki með 3. flokki. Ég æfði eiginlega ekkert og ég kunni ekkert mark. Þetta voru bara vinir mínir að spila," sagði Hákon í samtali við Fótbolta.net í gær.

„Ég var mjög lítið að æfa, mætti kannski einu sinni í viku og var bara í handbolta. Tímabilið 2017 var Tóti Dan að þjálfa Gróttuliðið og þá vantaði markvörð í æfingaferð til Króatíu í mars. Þá var sagt við mig að ég gæti verið varamarkvörður í Gróttu í 1. deild en þá þyrfti ég að hætta í handbolta. Ég hugsaði það og sagðist svo vera til í það."

Hákon segir að það hafi verið spennandi tilhugsun að fá þarna tækifæri að koma upp í meistaraflokkinn á þessum tíma.

„Ég var þarna 16 ára á árinu. Þetta var spennandi og skemmtilegt. Það endaði á því að vera góð ákvörðun."

Óskar var svo góður við mig
Með tímanum þróaðist Hákon svo frekar óvænt í frábæran markvörð. Hákon talaði um það í viðtali árið 2021 hversu mikilvægt það var fyrir hann að fá traustið sumarið 2018. Þá steig hann inn hjá Gróttu og greip tækifærið sem hann fékk. Hákon segist hafa farið á fullt þegar Óskar Hrafn Þorvaldsson tók við Gróttu fyrir tímabilið 2018 og þá fékk Hákon traustið.

„Hann er toppmaður og hjálpaði mér svo mikið. Ég er mjög þakklátur honum. Hann hringdi í Gulla Gull og alls konar menn og bað þá um að þjálfa mig. Ég var ekki með neinn markmannsgrunn og hann aðstoðaði mig við það. Ég átti ekki að spila þetta tímabil en Jón Ívan Rivine meiðist. Það er geggjað að Óskar hafi gefið mér tækifærið í þessu verkefni hans. Það er áhætta fyrir hann að setja einhvern 16 ára strák sem kann mjög lítið í marki í markið í 2. deild. Það gekk ekkert það vel fyrst en svo komumst við á gott skrið og komumst upp," segir Hákon.

„Óskar var svo góður við mig, eiginlega of góður. Auðvitað á hann ekkert að taka allt á sig, en hann gerði það. Kannski átti ég lélega sendingu en hann tók það á sig. Það var mér að kenna en hann tók allt á sig í byrjun. Hann vildi spila svona fótbolta og við spiluðum fínan fótbolta er við komumst upp um tvær deildir."

Hákon segist ekki hugsa mikið til baka um það hvort að hann hefði átt að velja handboltann frekar.

„Sjálfum finnst mér ótrúlega gaman að spila handbolta. Ég hugsa kannski stundum þegar ég horfi á landsliðið að ég væri til í að vera þarna að spila á stórmótum. Ég hefði getað orðið góður í handbolta ef ég hefði sett sama metnað í það og fótboltann," segir Hákon.
Hákon Rafn - Umspilið og leiðin til Brentford
Athugasemdir
banner
banner
banner