lau 27.apr 2024 12:00 Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir |
|
Spá þjálfara og fyrirliða í Lengjudeild kvenna: 9. sæti
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeild kvenna í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð í deildinni. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-9 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Ef spáin rætist þá fara báðir nýliðarnir aftur niður því ÍA er spáð níunda sæti deildarinnar.
Erna Björt Elíasdóttir er mikilvægur leikmaður og hefur skorað mikið á undirbúningstímabilinu.
Mynd/ÍA
1.
2.
3.
4.
5.
6.
7.
8.
9. ÍA, 56 stig
10. ÍR, 21 stig
9. ÍA
Í níunda sæti í spánni eru Skagakonur sem eru mættar aftur í Lengjudeildina eftir tvö ár í 2. deild kvenna. ÍA með alla sína fótboltasögu á ekki að vera í þriðju efstu deild, það er alveg klárt mál. Núna eru þær mættar aftur upp í Lengjudeildina og hljóta að vera horfa í það að komast enn hærra. Árið 2018 var ÍA ekkert sérlega langt frá því að komast upp í Bestu deildina en liðið endaði þá í þriðja sæti í Lengjudeildinni með ansi skemmtilegt lið. Árin eftir voru erfið og var liðið nálægt falli bæði 2019 og 2020, og svo árið 2021 féll liðið loksins. Það tók tíma að byggja Skagaliðið aftur upp eftir þau vonbrigði og núna eru þær mættar aftur. Þær eru ekki komnar aftur bara til að vera með og eru ekki að horfa í það að falla eins og spáin segir til um. „Við erum komnar á þann stað sem við viljum vera og ætlum okkur að vera um ókomna tíð því ÍA á að vera með lið í efstudeild þannig er það bara," sagði Magnea Guðlaugsdóttir, þáverandi þjálfari ÍA, árið 2014 þegar ÍA komst upp í Bestu deildina. Núna eru tíu ár liðin frá því, en það hlýtur að vera langtímamarkmið, að eiga lið í Bestu deild kvenna.
Þjálfarinn: Áðurnefnd Magnea Guðlaugsdóttir hætti með ÍA eftir síðasta tímabil og tók Skarphéðinn Magnússon við liðinu af henni. Skarphéðinn er 34 ára, lék sem markvörður á sínum ferli og lék þrjá leiki með U16 landsliðinu. Hans síðustu leikir voru með ÍA í Lengjubikarnum árið 2018. „Skarphéðinn hefur þjálfað hjá ÍA undanfarin 10 ár, hann er vel menntaður og reynslumikill þjálfari. Erum við afar ánægð með þetta skref og væntum mikils af honum," sagði í tilkynningu ÍA þegar Skarphéðinn var ráðinn. Þjálfarateymi meistaraflokks kvenna samanstendur af Skarphéðni, Aldísi Ylfu Heimisdóttur og Þorsteini Magnússyni.
Styrkleikar: Heimavöllurinn er klárlega styrkleiki en það er erfitt að mæta ÍA-liðinu í Akraneshöllinni. Það er ekkert lið sem þekkir það betur að spila inn í höllinni og það er alls ekki auðvelt að koma þangað. Hópurinn stendur mestmegnis saman af heimastelpum sem þekkja hvor aðra inn og út og hafa spilað saman í mörg ár. Liðið var frábært sóknarlega í fyrra og skoraði 68 mörk í 20 leikjum. Það verður gaman að sjá hvort liðið nái að halda í þau einkenni í ár.
Veikleikar: ÍA missti gríðarlega mikilvægan leikmann í Unni Ýr Haraldsdóttur í vetur en hún tilkynnti það að hún væri hætt í fótbolta. Það fer mikil reynsla með henni og mikil gæði. Ná þær að leysa það? Reynslan í liðinu að takast á við þessa deild er kannski ekki sérlega mikil og þá er spurning hvort breiddin sé nægilega góð fyrir sumarið. Það er alltaf pressa frá samfélaginu upp á Skaga að ná góðum úrslitum og ef liðið fer ekki nægilega vel af stað, þá gæti það orðið erfitt.
Lykilmenn: Erna Björt Elíasdóttir, Erla Karitas Jóhannesdóttir og Madison Brooke Schwartzenberger.
Fylgist með: Sunna Rún Sigurðardóttir, fædd árið 2008 og spilar á miðsvæðinu. Búin að spila mikið í vetur og gæti fengið stórt hlutverk í sumar. Hún er systir Arnórs Sigurðssonar, leikmanns Blackburn á Englandi, og er mjög svo efnileg í fótbolta.
Komnar:
Juliana Marie Paoletti frá Bandaríkjunum
Klil Keshwar frá Bandaríkjunum
Madison Brooke Schwartzenberger frá Bandaríkjunum
Farnar:
Aníta Sól Ágústsdóttir
Lucia Lebrero Rodríguez til Spánar
Unnur Ýr Haraldsdóttir hætt
Allar nema þrjár komið upp í gegnum yngri flokka starfið
Skarphéðinn Magnússon er tekinn við ÍA og hann er spenntur fyrir sínu fyrsta tímabili með liðinu.
„Spáin kemur okkur svo sem ekki á óvart. Við vorum að koma upp eftir að hafa lent í öðru sæti í 2. deild. Það er alltaf auðveldast að spá þeim liðum sem komu upp aftur niður," segir Skarphéðinn í samtali við Fótbolta.net.
„Stefnan á síðasta tímabili var að fara upp um deild og það tókst, svo það var frábært tímabil. Það hefur gengið mjög vel í vetur, við erum búin að æfa virkilega vel og það hefur verið mikill stígandi hjá okkur í vetur. Stelpurnar hafa lagt hrikalega mikið á sig á þessu undirbúningstímabili og tekið góðum framförum sem lið."
„Það eru miklar breytingar frá síðasta tímabili. Þjálfarateymið er breytt og búið að auka við umgjörðina. Ég tók við liðinu og með mér eru Þorsteinn Magnússon, Aldís Ylfa Heimisdóttir og Eva María Jónsdóttir. Frá því á síðasta tímabili eru fimm stelpur sem spiluðu í byrjunarliði ekki með okkur núna. Við fengum inn þrjár öflugar erlendar stelpur til liðs við okkur sem hafa komið vel inn í þetta hjá okkur. Síðan byggjum við liðið upp á Skagastelpum og hafa allir leikmenn liðsins fyrir utan þessa þrjá erlendu leikmenn komið upp í gegnum yngri flokka starf félagsins og við erum mjög stolt af því. Við erum mjög ánægð með hópinn eins og hann er í dag."
„Þetta verður spennandi deild og verður gaman fyrir áhugafólk að fylgjast með henni, því ég tel að öll lið geti tekið stig af hvert öðru. Markmiðið okkar er einfalt, að fara í alla leiki til að vinna þá og við höfum heldur betur liðið í það."
„Áfram ÍA og vil ég hvetja Skagmenn til að koma á völlinn og styðja stelpurnar í sumar."
Fyrstu þrír leikir ÍA:
6. maí, ÍA - Grindavík (Akraneshöllin)
12. maí, FHL - ÍA (Fjarðabyggðarhöllin)
23. maí, ÍA - Fram (Akraneshöllin)