Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
banner
   mán 25. mars 2024 17:28
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Wroclaw
Sverrir gaf loforð - Mögulega stærsti leikur ferilsins
Icelandair
'Þetta eru leikirnir sem þú vilt spila sem fótboltamaður, það er allt undir, fullur völlur og að spila upp á eitthvað sem skiptir öllu máli'
'Þetta eru leikirnir sem þú vilt spila sem fótboltamaður, það er allt undir, fullur völlur og að spila upp á eitthvað sem skiptir öllu máli'
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
'Ég get lofað því að við munum leggja allt í sölurnar á morgun til að ná okkar markmiðum.'
'Ég get lofað því að við munum leggja allt í sölurnar á morgun til að ná okkar markmiðum.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Sem fótboltamaður veistu ekkert hversu mörg tækifæri þú færð.'
'Sem fótboltamaður veistu ekkert hversu mörg tækifæri þú færð.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fréttamannafundur íslenska liðsins fyrir leikinn gegn Úkraínu fór fram á heimavelli pólska liðsins Slask Wroclaw í dag. Úrslitaleikurinn um sæti á EM fer fram á vellinum annað kvöld.

Age Hareide landsliðsþjálfari og Sverrir Ingi Ingason, sem bar fyrirliðabandið gegn Ísrael á fimmtudag, sátu fyrir svörum.

Miðvörðurinn var spurður út í spennustigið í hópnum.

„Mér finnst spennustigið hafa verið mjög fínt hingað til, við sáum það kannski í leiknum á móti Ísrael að það var mikið undir svona fyrstu 15 mínúturnar. Það var fínt að hafa fengið smá smjörþefinn af því þar. Við vitum að við erum að fara spila gríðarlega sterku liði á morgun, við þurfum að vera tilbúnir, sérstaklega fyrstu 15-20 mínúturnar, að þeir komi og setji pressu á okkur. Við þurfum að geta staðist hana og fundið sama takt í okkar leik eftir það."

„Mér finnst stemningin búin að vera mjög góð, við höfum farið vel yfir hvaða liðið við erum að fara mæta á morgun og erum vel undirbúnir."


Ertu að sjá fyrir þér í aðdraganda leiksins hvernig það væri að fara með þessu liði á stórmót?

„Klárlega, ég hef fengið heiðurinn að fara tvisvar áður. Það er einhver skemmtilegasta lífsreynsla sem ég hef tekið þátt í. Ég held að það myndi gefa þessu landsliði svakalega mikið að fá þessa reynslu og við erum með frábært tækifæri fyrir framan okkur; erum einum leik frá því."

„Ég get lofað því að við munum leggja allt í sölurnar á morgun til að ná okkar markmiðum. Sem fótboltamaður veistu ekkert hversu mörg tækifæri þú færð. Þetta gæti verið mitt síðasta tækifæri, og annarra í liðinu, til að komast með landsliðinu á stórmót. Margir í liðinu eru að byrja (eru snemma á sínum landsliðsferli) og við erum staðráðnir í að nýta þetta tækifæri og vera með í sumar af því þetta eru stærstu augnablikin sem fótboltamaður; að spila fyrir þjóðina og á stærsta sviðinu."


Sverrir hefur farið og spilað á EM og HM. En leikurinn á morgun, að vera lykilmaður í liði sem á möguleika á því að komast á EM, er hann sá stærsti á ferlinum?

„Það er alveg hægt að færa rök fyrir því. Ég var í öðruvísi hlutverki þá, var að stíga mín fyrstu skref með landsliðinu. Ég veit að það hjálpaði mér mikið að á þeim tímapunktum á ferlinum að hafa fengið að taka þátt í þeim verkefnum."

„Það myndi gefa fullt af leikmönnum sem eru að taka sín fyrstu skref, eins og ég var á þeim tíma, tækifæri til að komast ennþá lengra á styttri tíma."

„Þetta eru leikirnir sem þú vilt spila sem fótboltamaður, það er allt undir, fullur völlur og að spila upp á eitthvað sem skiptir öllu máli."

„Við erum fullir sjálfstrausts og verðum fyrst og fremst að trúa því sjálfir að við getum farið og gefið Úkraínumönnum góðan leik á morgun,"
sagði Sverrir.

Leikurinn á morgun hefst klukkan 19:45 að íslenskum tíma.
Athugasemdir
banner
banner