Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
banner
   mið 25. september 2019 12:51
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Sá efnilegasti kýs að vera einn í klefanum - „Fæ vonandi vin á næsta tímabili"
Finnur Tómas Pálmason.
Finnur Tómas Pálmason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Finnur í leik gegn Breiðabliki.
Finnur í leik gegn Breiðabliki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net valdi Finn Tómas Pálmason sem besta unga leikmann Pepsi Max-deildarinnar en hann hefur verið frábær í hjarta varnar KR sem hefur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.

Finnur kom í mjög skemmtilegt viðtal við útvarpsþáttinn Fótbolti.net síðasta laugardag.

Finnur er 18 ára og opinberaði það í þættinum að hann situr einn í öðrum helmingi KR-klefans.

„Það eru ekki margir á mínum aldri þarna. Ægir er þremur árum eldri en ég. Ég er eini á menntaskólaaldri og tengi kannski lítið við líf þeirra utan fótboltans," segir Finnur.

„Ég sit einn í klefanum, ég fékk pláss í horninu hjá Beiti og Kidda en færði mig aftur á minn stað. Þetta eru tveir litlir klefar, ég sit einn í öðrum þeirra og allir hinir leikmennirnir eru í hinum. Þeir eru duglegir samt að koma í heimsókn."

Hann er með pláss í hinum klefanum en ákvað að nýta sér það ekki. „Ég kýs að vera einn," segir Finnur léttur í bragði.

Í þættinum var Arnór Sveinn Aðalsteinsson í viðtalinu með Finni og sagði að Finnur hefði sýnt ákveðið fordæmi í því hvernig koma eigi sem ungur leikmaður inn í svona fullmótað lið.

Hefur hann rutt brautina fyrir fleiri unga leikmenn?

„Ég vona það allavega. Ég vona að ég fái vin á næsta tímabili!" segir Finnur kíminn.

Byrjaði sem markvörður
Þegar Finnur byrjaði að æfa fótbolta sem barn þá byrjaði hann sem markvörður. Hann segir að það hafi í raun ekkert verið í loftinu að hann yrði framúrskarandi fótboltamaður.

„Ég byrjaði í markinu og var líka í öðrum íþróttum, bæði körfubolta og handbolta. Ég var líka í markinu í handbolta. Svo fór ég fram, þar sem allir litlir strákar vilja vera. Fyrir tilviljun á eldra ári í 4. flokki fór ég í miðvörðinn og leit ekki til baka," segir Finnur.

„Ég stækka mikið þegar ég er 13 ára og verð stærstur og sterkastur. Ég nýtti mér það til að byrja með."

Arnór Sveinn segir mjög gott að spila við hlið Finns í vörninni:

„Hann spilaði rosalega vel á undirbúningstímabilinu og nær að leggja helvíti mikið inn. Hann er mjög jarðbundinn og ekki margt sem stressar hann. Það er gott að hafa mann við hlið þér sem tekur öllu með 'köldum haus'. Hann hlustar og er klár í að gera vel og gera vel fyrir liðið," segir Arnór.

Í fyrra lék Finnur á láni hjá Þrótti í Inkasso-deildinni.

„Það gerði helling fyrir mig en ég áttaði mig ekki á því meðan ég var að spila þarna. Það eru mikil gæði í þessari deild þó inni á milli komi plebbar," segir Finnur.

Hlustaðu á viðtalið hér að neðan eða í gegnum Podcast forrit:
Miðvarðapar Íslandsmeistaranna - Finnur og Arnór
Athugasemdir
banner
banner
banner