Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   þri 05. október 2021 11:20
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Mín skoðun 
Hemmi Hreiðars: Er allt annar þjálfari en ég var þá
Hermann á hliðarlínunni með U21 landsliðinu.
Hermann á hliðarlínunni með U21 landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hermann ásamt fjölskyldu sinni.
Hermann ásamt fjölskyldu sinni.
Mynd: ibvsport.is
Hermann náði frábærum árangri í Vogunum.
Hermann náði frábærum árangri í Vogunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍBV staðfesti í byrjun vikunnar að Hermann Hreiðarsson hefði verið ráðinn þjálfari liðsins í stað Helga Sigurðssonar sem lét af störfum. Hermann er því kominn heim og stýrir Eyjaliðinu í efstu deild á næsta ári.

Í viðtali við Valtý Björn Valtýsson í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun segir Hermann að hann líti á þetta sem risatækifæri og mikla áskorun. Hann hafi fengið símtal frá ÍBV þarsíðasta fimmtudag.

„Við tókum góðan fund til að byrja með og svo þróuðust málin eftir það. Svo var þetta afgreitt seinni hlutann í síðustu viku," segir Hermann en hann mun flytja til Vestmannaeyja ásamt fjölskyldunni í janúar.

„Það var alveg klárt atriði að ef að þessu yrði þá myndi fjölskyldan flytja til Eyja. Við ætlum að gera þetta eins vel og hægt er. Eyjarnar eru spennandi og við erum með fjölskyldu, einn eins árs og einn tveggja ára. Þarna eru kjöraðstæður. Það er gott að alast upp í Eyjum og stutt í allt. Ég ólst upp í Eyjum og bjó þar til 23 ára aldurs."

Þarf að styrkja liðið
Hermann er að taka við þjálfun ÍBV í annað sinn en hann stýrði liðinu sumarið 2013 þegar það hafnaði í sjötta sæti efstu deildar. Hann hefur síðan öðlast mikla reynslu, þjálfað hjá Fylki, verið aðstoðarþjálfari Southend, aðstoðarmaður David James í Indlandi og svo kom hann Þrótti Vogum upp í Lengjudeildina í ár.

„Maður hugsaði alltaf að maður yrði að koma aftur og ég er þakklátur fyrir að fá tækifæri á því. Ég er allt annar þjálfari núna en ég var þá. Ég hef þjálfað í átta ár og prófað hitt og þetta, verið aðstoðarþjálfari og farið til Indlands og klárað mínar gráður. Ég hef þroskast vel, maður er alltaf að læra," segir Hermann.

Hann segir ljóst að styrkja þurfi leikmannahóp ÍBV enda liðið að fara í mun sterkari deild.

„Það þarf að styrkja liðið. Það vita það að allir að það er munur á Pepsi og Lengjudeildinni. Liðið spilaði frábærlega í sumar og átti fyllilega skilið að fara upp. Ég ætla að skoða hópinn í rólegheitum og menn byrja á núlli."

Samstarf sem var stórsigur í alla staði
Eins og áður sagði þá stýrði Hermann liði Þróttar í Vogum og náði að koma liðinu upp í B-deildina í fyrsta sinn í sögu félagsins. Honum leið gríðarlega vel í Vogunum.

„Þetta hefur verið meiriháttar gleði síðan maður mætti í Vogana, frábær hópur og frábært fólk. Allt var mjög jákvætt. Klúbburinn er í toppmálum og í góðum höndum. Ég held að þetta samstarf hafi verið stórsigur í alla staði," segir Hermann.

„Auðvitað er þetta búið að vera skemmtilegt og spennandi. Félagið er í fyrsta sinn í Lengjudeildinni. Þeir reyndu mikið að telja manni trú um að þetta væri eini klúbburinn í heiminum. Það er meiriháttar fólk í kringum félagið."

Þá er Hermann aðstoðarþjálfari U21 landsliðs Íslands þar sem hann starfar við hlið Davíðs Snorra Jónassonar. Hann stefnir að því að halda áfram í því starfi samhliða þjálfun ÍBV.

„Ég hef afskaplega gaman að því, ég og Davíð Snorri náum ofboðslega vel saman. Fyrstu tveir leikirnir lofa góðu og hópurinn er ákveðinn. Þeim langar þetta alveg svakalega. Það eru rosalega margir góðir fótboltamenn á þessum aldri," segir Hermann Hreiðarsson við Valtý Björn.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner