Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 09. maí 2022 19:18
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Jóhann Helgi lánaði Andreu hjálminn - „Trúi að hann hafi gefið mér ofurkrafta"
Andrea í leiknum í gær
Andrea í leiknum í gær
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Helgi með hjálminn
Jóhann Helgi með hjálminn
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Það vakti athygli í leik Þórs/KA gegn Aftureldingu í gær að Andrea Mist Pálsdóttir, leikmaður Þórs/KA, lék með hvítan hjálm á höfðinu.

Andrea lenti í samstuði við Örnu Sif Ásgrímsdóttur, leikmann Vals, í leik liðanna í síðustu viku. Andrea þurfti að hætta leik þar sem hún var með skurð á höfðinu. Hún var keyrð á sjúkrahús þar sem skurðinum var lokað með saumum.

Lestu um leikinn: Afturelding 1 -  2 Þór/KA

„Ég blessunarlega slapp við heilahristing og var með hjálminn í leiknum í gær svo saumarnir rifnuðu ekki," sagði Andrea Mist við Fótbolta.net í dag.

Atvikið gegn Val átti sér stað á 13. mínútu en Andrea var mætt aftur í Bogann í seinni hálfleik. Varstu flutt með sjúkrabíl upp á sjúkrahús?

„Nei ég ætla ekki að stiga fæti upp í sjúkrabíl," sagði Andrea á léttu nótunum.

„Ég lét frekar hringja í pabba og mömmu og við keyrðum upp á spítala þar sem ég fór strax inn og var saumuð á stundinni. Ég var svo mætt aftur á 50. mínútu og hefði viljað klárað leikinn ef ég hefði mátt!"

Þór/KA leiddi leikinn í um klukkustund eftir að Sandra María Jessen kom liðinu yfir í upphafi leiks. Elín Metta Jensen jafnaði leikinn á 65. mínútu en tíu mínútum síðar skoraði Margrét Árnadóttir það sem reyndist sigurmarkið. Hvernig var að fylgjast með leiknum í seinni hálfleik?

„Aldrei verið jafn stressuð á ævinni held ég," sagði Andrea einfaldlega. En varð strax ljóst að þú mættir spila næsta leik?

„Já, svo lengi sem ég myndi hylja skurðinn. Eins pirruð og ég var yfir því þá hlustaði ég á fagfólk sem sagði að ég yrði að spila með hjálm öryggisins vegna. Ef saumarnir hefðu rifnað þá hefði bara blætt endalaust aftur."

Hjálmurinn er í eigu Jóhanns Helga Hannessonar, fyrrum leikmanns Þórs, sem fékk ófáum sinnum höfuðhögg á sínum ferli.

„Ég þurfti að reyna redda mér einhverju svo ég mætti spila, þannig pabbi sendi honum skilaboð og það var ekki spurning að fá hann í láni. Ég trúi líka að þessi hjálmur hafi gefið mér ofurkrafta í lok leiks í gær," sagði Andrea og hló. Hún lék með hjálminn í leiknum í gær og lagði upp sigurmark Þórs/KA þar sem hornspyrna hennar rataði til Örnu Eiríksdóttur sem skoraði.

Hvernig lítur framhaldið svo út?

„Saumarnir eru teknir úr á föstudaginn. Í kjölfarið þarf ég að fá álit hjá fagfólki hvernig laugardagurinn verður. Ég er með hjálminn á mér á æfingum þegar það getur orðið snerting milli leikmanna en annars ekki," sagði Andrea en Þór/KA á leik gegn Selfossi á laugardag.

Þess má geta að Jóhann Helgi lék lengi undir stjórn Páls Viðars Gíslasonar sem er faðir Andreu.
Athugasemdir
banner
banner