Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 10. mars 2021 19:53
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
England: Man City aftur á sigurbraut í miklum markaleik
City er aftur með 14 stiga forystu á toppnum.
City er aftur með 14 stiga forystu á toppnum.
Mynd: Getty Images
Manchester City 5 - 2 Southampton
1-0 Kevin de Bruyne ('15 )
1-1 James Ward-Prowse ('25 , víti)
2-1 Riyad Mahrez ('40 )
3-1 Ilkay Gundogan ('45 )
4-1 Riyad Mahrez ('55 )
4-2 Che Adams ('56 )
5-2 Kevin de Bruyne ('59 )

Manchester City komst aftur á sigurbraut í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. City tapaði fyrir nágrönnum sínum í Manchester United um síðustu helgi en þeir tóku á móti Southampton í kvöld.

Dýrlingarnir byrjuðu leikinn vel en það voru heimamenn sem tóku forystuna á 15. mínútu. Kevin de Bruyne fylgdi þá á eftir skoti Phil Foden sem Alex McCarthy varði.

Tæpum tíu mínútum síðar jöfnuðu gestirnir metin. James Ward-Prowse skoraði af vítapunktinum eftir að Aymeric Laporte braut á Jannik Vestergaard í teignum.

City hefði líklega átt að fá vítaspyrnu stuttu síðar en ekkert var dæmt á þegar McCarthy í marki Southampton tæklaði Foden innan teigs.

Topplið ensku úrvalsdeildarinnar lét það ekki á sig fá og þeir kláruðu fyrri hálfleikinn af miklum krafti. Moussa Djanepo fékk reyndar gott færi til að koma Southampton yfir á 37. mínútu en hann skaut fram hjá. Það reyndist dýrkeypt því Riyad Mahrez kom City yfir þremur mínútum síðar og fyrir hálfleiksflautið skoraði Ilkay Gundogan þriðja mark toppliðsins.

Fjörið hélt áfram í seinni hálfleik. Mahrez kórónaði mjög flottan leik sinn með því að skora á 55. mínútu, en Che Adams minnkaði munninn fyrir Southampton í næstu sókn.

De Bruyne skoraði svo sitt annað mark til að koma City í 5-2 á 59. mínútu eftir undirbúning frá Foden.

Southampton voru ekki hræðilegir í leiknum, en varnarleikur þeirra var ekki upp á marga fiska. Lokatölur 5-2 fyrir City sem er aftur komið með 14 stiga forystu á toppnum. Man Utd, sem er í öðru sæti, á leik til góða. Southampton er í 14. sæti með 33 stig.
Athugasemdir
banner
banner