Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   sun 17. mars 2024 20:41
Brynjar Ingi Erluson
Hafrún opnaði markareikninginn hjá Bröndby - María skoraði er Sittard kom sér í undanúrslit
Hafrún Rakel er komin á blað hjá Bröndby
Hafrún Rakel er komin á blað hjá Bröndby
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
María Catharina skoraði þriðja mark Sittard
María Catharina skoraði þriðja mark Sittard
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslensku fótboltakonurnar okkar gerðu ágætis hluti í Evrópuboltanum í dag. Hafrún Rakel Halldórsdóttir skoraði meðal annars fyrsta mark sitt fyrir danska liðið Bröndby í 2-0 sigri á Kolding í dönsku úrvalsdeildinni.

Hafrún Rakel kom frá Breiðabliki um áramótin en hún spilaði sinn fyrsta leik einmitt gegn Kolding þann 9. mars og skoraði síðan fyrsta mark sitt í dag.

Hún og Kristín Dís Árnadóttir voru báðar í byrjunarliði Bröndby sem er á toppnum með 31 stig.

Selma Sól Magnúsdóttir og stöllur hennar í Nürnberg höfðu tapað fjórum leikjum í röð áður en liðið náði að gera markalaust jafntefli við Freiburg í þýsku deildinni í dag.

Selma var á sínum stað í byrjunarliðinu en Nürnberg er áfram í fallsæti með 9 stig, fjórum stigum frá öruggu sæti.

Ingibjörg Sigurðardóttir spilaði allan leikinn í 2-1 tapi Duisburg gegn Eintracht Frankfurt. Duisburg er á botninum með aðeins 4 stig.

Sara Björk Gunnarsdóttir kom inn af bekknum er Juventus gerði 3-3 jafntefli við Inter í meistarariðli ítölsku deildarinnar. Juventus er í öðru sæti með 44 stig, sjö stigum á eftir toppliði Roma.

Guðný Árnadóttir spilaði sinn fyrsta leik fyrir sænska liðið Kristianstad er liðið tapaði fyrir Växjö, 3-1, í sænska bikarnum í dag. Hún kom inn af bekknum í síðari hálfleik en þær Hlín Eiríksdóttir og Katla Tryggvadóttir byrjuðu leikinn og gerði Hlín eina mark Kristianstad.

Bryndís Arna Níelsdóttir, sem er á mála hjá Växjö, skoraði eitt af þremur mörkum liðsins, en hún kom frá Val fyrir áramót.

Ekki er öll von úti fyrir Kristianstad sem mætir Häcken í lokaleik riðilsins en Kristianstad þarf að vinna þann leik til að komast áfram.

Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn í vörn Rosengård sem vann Vittsjö 3-0. Rosengård á góðan möguleika á að komast upp úr sínum riðli, en liðið er með 4 stig eins og Linköping fyrir lokaumferðina.

Matía Catharina Ólafsdóttir Gros skoraði þá eitt af fjórum mörkum Fortuna Sittard í 4-0 sigri á Utrecht í 8-liða úrslitum hollenska bikarsins.

Hún gerði þriðja mark liðsins eftir að hafa komið inn af bekknum sjö mínútum áður.

Lára Kristín Pederson og Hildur Antonsdóttir voru í byrjunarliði Sittard sem er nú komið í undanúrslit.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner