lau 27.apr 2024 13:00 Mynd: Aðdáendasíða Kormáks |
|
Spá þjálfara í 2. deild: 12. sæti
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 2. deild í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla þjálfara liðanna í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í neðsta sæti í spánni er Kormákur/Hvöt.
Kormákur/Hvöt komst nokkuð óvænt upp úr 3. deild í fyrra.
Mynd/Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Benjamín Jóhannes Gunnlaugarson er með reynslu úr þessari deild.
Mynd/Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
1.
2.
3.
4.
5.
6.
7.
8.
9.
10.
11.
12. Kormákur/Hvöt, 13 stig
12. Kormákur/Hvöt
Í neðsta sæti í spánni er stolt Húnaþings, Kormákur/Hvöt, sem komst upp úr 3. deild í fyrra nokkuð óvænt. Fyrir tímabilið var félaginu spáð níunda sæti í 3. deildinni og það voru kannski ekki skýr merki um að það myndi ganga svona vel í byrjun sumars. Í fyrstu fjórum leikjunum vann liðið tvo og tapaði tveimur. Það urðu þjálfaraskipti snemma og tók heimamaðurinn Ingvi Rafn Ingvarsson við liðinu. Eftir því sem leið á sumarið þá fór að ganga betur og sleppti liðið nánast öðru sætinu ekkert frá tíundu umferð. Þetta var tæpt í lokin en Kormáki/Hvöt tókst að lokum að landa öðru sætinu og þar með tryggja sig upp í 2. deild. Þetta verður nýtt og spennandi verkefni fyrir Kormák/Hvöt, en það verður fróðlegt að fylgjast með félaginu á stærra sviði í sumar.
Þjálfarinn: Ingvi Rafn Ingvarsson tók við Kormáki/Hvöt snemma á síðasta tímabili og gerði flotta hluti. Ingvi Rafn er einnig leikmaður liðsins og mun eitthvað koma við sögu inn á vellinum í sumar. Það eru fáir sem þekkja liðið betur en Ingvi en hann hefur spilað með liðinu í ellefu ár og þjálfaði liðið árið 2021 þegar þeir komust upp úr fjórðu deildinni í þá þriðju. Aco Pandurevic, sem þjálfaði áður liðið, verður Ingva til aðstoðar í sumar.
Stóra spurningin: Eru þeir tilbúnir í þetta?
Kormákur/Hvöt hefur misst sterka pósta frá því í fyrra. Lazar Cordasic fór í Ægi og markahæsti leikmaður 3. deildarinnar í fyrra, Ismael Sidibe, fór í Reyni Sandgerði. Þeir voru báðir í liði ársins í fyrra. Það er einfaldlega spurning um það hvort leikmannahópurinn sé sterkari en hann var í fyrra. Leikmenn eru að detta seint inn og það gæti tekið þá tíma að slípa sig saman en það er spurning hvort þeir hafi efni á því. Þjálfarar í deildinni hafa ekki mikla trú á Kormáki/Hvöt en það er þeirra að afsanna þessa spá.
Lykilmenn:
Uros Djuric: Er áfram í markinu hjá Kormáki/Hvöt en hann var í liði ársins í 3. deild í fyrra. Markvörður sem á alls ekki að vera að spila í 2. deild á Íslandi en hann ákvað að stökkva á ævintýrið að koma til Íslands í fyrra eftir að hafa tekið sér pásu frá fótbolta í einhverja sex mánuði. Hann hefur spilað í sterkum deildum í Austur-Evrópu, þar á meðal serbnesku úrvalsdeildinni, og verður líklega besti markvörður 2. deildar í sumar.
Papa Diounkou: Fyrir framan Djuric, þá þarf Papa Diounkou að vera sterkur í vörninni. Hann er fjölhæfur leikmaður og getur leyst margar stöður, en hann verður líklega mest í því að leysa varnarhlutverk í sumar. Hann er núna á leið inn í sitt þriðja tímabil með Kormáki/Hvöt og er farinn að þekkja félagið afar vel.
Goran Potkozarac: Er afar öflugur miðjumaður frá Serbíu sem hefur spilað með liðinu frá 2022. Hann var einnig í liði ársins í fyrra og er vel fær um að taka skrefið upp í 2. deildina í sumar. Mikilvægi hans fyrir Kormák/Hvöt er gríðarlegt.
Komnir:
Artur Jan Balicki frá Póllandi
Atli Þór Sindrason frá Þór (á láni)
Ernir Freyr Guðnason frá KB
Fannar Örn Kolbeinsson frá Hvíta riddaranum
Jorge Garcia Dominguez frá Spáni
Jón Gísli Stefánsson frá Tindastóli
Kristinn Bjarni Andrason frá Þór (á láni)
Negue Kante frá Ítalíu
Nökkvi Hjörvarsson frá Þór (á láni)
Pétur Orri Arnarson frá Þór (á láni)
Sergio Francisco Oulu frá Þrótti R.
Sigurður Pétur Stefánsson frá Tindastóli
Snorri Þór Stefánsson frá Þór
Theodór Unnar Ragnarsson frá Þrótti R. (á láni)
Farnir:
Alberto Sánchez Montilla í Reyni S.
Hlib Horan í Tindastól
Ísak Sigurjónsson í Tindastól
Jose Mariano Saez Moreno til Spánar
Lazar Cordasic í Ægi
Moussa Ismael Sidibe Brou í Reyni S.
Nicolas De Vito til Ítalíu
Þjálfarinn segir - Ingvi Rafn Ingvarsson
„Ég held að það sé nokkuð skiljanlegt að okkur hafi verið spáð 12. sæti. Þetta er fyrsta skipti í sögunni síðan Kormákur/Hvöt var sameinað að liðið leikur í 2. deild. Þannig að reynslan í þessari deild er lítil sem engin. Okkar síðustu leikmenn eru að detta inn í hópinn rétt fyrir mót og myndi ég halda að við erum svolítið eftir á miðað við önnur lið í deildinni. Þá er aðstaða til knattspyrnu á Blönduósi og Hvammstanga yfir veturinn lítil sem engin eins og sést yfirleitt nokkuð vel á liðinu á undirbúningstímabilinu."
„Þrátt fyrir það er mikil tilhlökkun bæði í mér og hópnum að takast á við 2. deildina í sumar. Ég held að það sé mikil spenna í bæjarfélögunum tveimur að sjá liðið spila í 2. deild. Kormákur/Hvöt er mikið stemningslið eins og sást á síðasta tímabili og því er mikilvægt fyrir liðið að stuðningurinn úr stúkunni verði enn meiri í ár. Heimavöllurinn okkar hefur verið gríðarlega mikilvægur undanfarin ár og er það algjört lykilatriði fyrir okkur að hann haldi áfram að vera það vígi sem hann hefur verið."
„Ég tel að við höfum náð að setja saman mjög spennandi lið fyrir tímabilið sem getur sótt helling af stigum. Við höldum lang stærsta kjarnanum frá síðasta tímabili sem er virkilega mikilvægt fyrir okkur. Ofan á það fáum við heimastráka til baka úr öðrum liðum, lánsmenn frá Þór Akureyri og þrjá nýja erlenda leikmenn. Við erum með mikið af flottum fótboltamönnum og ef við náum að smíða saman gott lið hef ég ekki of miklar áhyggjur af tímabilinu."
„Það er klárt mál að allir sem standa að klúbbnum, hvort sem það er stjórn, þjálfarateymi eða leikmenn eru klárir að leggja mikið á sig til að afsanna þessa spá."
Fyrstu þrír leikir Kormáks/Hvatar:
4. maí, Selfoss - Kormákur/Hvöt (JÁVERK-völlurinn)
11. maí, Kormákur/Hvöt - Reynir S. (Sauðárkróksvöllur)
17. maí, KF - Kormákur/Hvöt (Ólafsfjarðarvöllur)