Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mið 20. mars 2024 12:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Ef þú ferð í KR, þá tölum við aldrei við þig aftur"
Lennon er goðsögn hjá FH.
Lennon er goðsögn hjá FH.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Rúnar hafði mikinn áhuga á því að fá Lennon í KR.
Rúnar hafði mikinn áhuga á því að fá Lennon í KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Guðjónsson og Sam Hewson.
Heimir Guðjónsson og Sam Hewson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lennon raðaði inn mörkunum fyrir FH.
Lennon raðaði inn mörkunum fyrir FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik gegn KR.
Í leik gegn KR.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Steven Lennon tilkynnti það fyrir stuttu að hann væri hættur í fótbolta eftir glæstan feril hér á Íslandi. Hann er einn besti fótboltamaður sem hefur spilað hér á landi.

Lennon er goðsögn í FH en ferilinn hefði getað farið öðruvísi hjá honum þar sem KR sýndi honum mikinn áhuga á sínum tíma. Lennon kom hingað til lands árið 2011 og spilaði þá með Fram. Hann vakti fljótt athygli manna úr Vesturbænum og sagði hann í hlaðvarpi hér á Fótbolta.net fyrir stuttu að á ákveðnum tímapunkti hefði hann nánast verið búinn að semja við KR.

„Á þeim tíma sem ég kom var KR besta félagið og þeir unnu allt. Mér var sagt að þeir væru bestir í öllu. Við spiluðum gegn þeim í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins og við unnum 5-0. Ég skoraði fimm í þeim leik og áhuginn byrjaði þá. Hann var stöðugur og þeir sögðust vilja fá mig eftir tímabilið. Á því tímabili braut Jón Ragnar (Jónsson) fótinn á mér og það frestaði plönunum," sagði Lennon.

„Áður en ég fór til Noregs var ég í raun búinn að semja við KR um að fara þangað eftir tímabilið. Það var að fara að gerast en aðstæður breyttust."

KR-liðið á þessum tíma var virkilega gott og barðist um alla titla.

„Ég var vanur að hitta marga KR-inga á þessum tíma þegar ég kíkti niður í bæ eða fór út að borða. Þeir voru vanir að koma upp að mér og spurðu mig af hverju ég væri ekki að koma í KR, þeir vildu fá mig og ég yrði fullkominn í liðinu þeirra. Það var gaman að heyra og það var það sem ég var að hugsa um. Ég ætlaði að vinna titla þarna, en svo fór ég til Noregs."

Valdi svo á milli FH og KR
Lennon samdi við Sandnes Ulf í Noregi en sá tími var ekki sérstakur og togaði Ísland aftur í hann. Þegar það varð ljóst að hann myndi snúa aftur til Íslands þá var hann að velja á milli FH og KR.

Í liði FH voru tveir vinir hans úr Fram og það heillaði hann að spila aftur með þeim, en hann segir þó ákveðna eftirsjá að hafa aldrei spila fyrir Rúnar Kristinsson.

„Allt leit vel út þegar ég fór til Noregs og ég ákvað að skrifa undir, en ég hefði aldrei átt að gera það. Þetta var ekki félag sem hentaði mér og þess vegna fékk ég mig lausan og kom aftur. Ég spilaði mikið en leikstíllinn hentaði mér ekki. Ég gat ekki sýnt það hver ég var," sagði Lennon.

„Ég bað um að fá að fara en Sandnes náði samkomulagi við bæði FH og KR. Rúnar (Kristinsson) vildi enn fá mig en ég valdi FH. Það var gott að fá að velja um þessi tvö félög. Ég þekkti vel til KR. Rúnar hringdi í mig og Biggi Jó hringdi í mig fyrir FH. Rúnar var frábær og ég vildi spila fyrir hann, en Sam Hewson og Sam Tillen voru líka í símanum. Þeir voru þá báðir komnir í FH. Þeir sögðu við mig: 'Ef þú ferð í KR, þá tölum við aldrei við þig aftur'. Þeir sögðu við mig að allt væri frábært hjá FH. Að vera með bresku strákunum aftur skipti mig miklu máli. Ég elskaði líka að spila í Kaplakrika, það er minn uppáhalds staður að spila á. Ég valdi aðstæðurnar og vini mína fram yfir KR. Ég hefði elskað að spila fyrir Rúnar því ég virði hann mikið og tala enn við hann í dag. Það er ákveðin eftirsjá í því að hafa ekki spilað fyrir hann en að fara í FH var virkilega frábær ákvörðun fyrir mig."

Rúnar er mikil goðsögn á Íslandi og hann vildi fá Lennon mörgum sinnum. Skotinn segir það mikla viðurkenningu fyrir sig.

„Ég fór heim til hans í viðræðunum og við horfðum saman á Meistaradeildina. Við töluðum bara um fótbolta og það var ótrúlega gaman. Að svona goðsögn sýni mikinn áhuga var virkilega gaman."

Besti fótboltaleikur sem ég hef tekið þátt í
Sumarið 2014 var virkilega eftirminnilegt í íslenskum fótbolta þar sem Stjarnan og FH börðust um titilinn. Lennon kom á miðju tímabilinu og var frábær í liði FH en úrslitin réðust í lokaleik. Það var úrhelli í Kaplakrika þegar Stjarnan vann dramatískan sigur í einhverjum ótrúlegasta fótboltaleik sem spilaður hefur verið í íslenskum fótbolta.

„Enn í dag er þetta besti fótboltaleikur sem ég hef tekið þátt í, jafnvel þó svo að hann hafi ekki endað vel fyrir okkur. Þetta var ótrúlegur leikur fyrir íslenskan fótbolta," segir Lennon.

Þetta tímabil var eins og Hollywood-bíómynd. „Nákvæmlega. Það var rosaleg dramatík í leiknum og gríðarlegur fjöldi mætti til að horfa á leikinn. Það hefði verið hægt að gera frábæra heimildarmynd um þetta tímabil."

FH vann ekki titilinn það tímabilið en Lennon var svo lykilmaður er FH varð Íslandsmeistari 2015 og 2016. „Við vorum með frábæran hóp sem hefði átt að vinna deildina 2014 en við vorum með nægilega stóra karaktera til að koma til baka. Það voru þarna alvöru leikmenn sem kunnu þá list að vinna. Ég efaðist aldrei um að við myndum vinna deildina árið eftir. Að svara þessum miklu vonbrigðum með tveimur titlum var frábært. Við settumst aldrei niður til að tala um að nýta vonbrigðin sem hvatningu. Þetta var bara innra með okkur. Við skildum sársaukann og vissum hvað við þurftum að gera," sagði Lennon.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.
Steven Lennon gerir upp magnaðan feril - Skórnir upp á hillu
Athugasemdir
banner
banner
banner