Skoski sóknarmaðurinn Steven Lennon tilkynnti það í hlaðvarpi hér á Fótbolta.net fyrr í þessari viku að hann væri hættur að spila fótbolta eftir mjög farsælan feril hér á landi.
Lennon ólst upp í akademíu Rangers í Skotlandi en kom hingað til lands árið 2011 til að spila með Fram. Hér festi hann rætur en hann spilaði lengst af með FH og varð algjör goðsögn hjá félaginu.
Lennon ólst upp í akademíu Rangers í Skotlandi en kom hingað til lands árið 2011 til að spila með Fram. Hér festi hann rætur en hann spilaði lengst af með FH og varð algjör goðsögn hjá félaginu.
Lennon endar í fjórða til fimmta sæti yfir þá markahæstu í sögunni í efstu deild karla og er hann eini erlendi leikmaðurinn sem hefur skorað 100 mörk í deildinni. Hann er markahæsti erlendi leikmaður í sögu efstu deildar sem er frábært afrek.
Þegar Lennon var að byrja í fótbolta, þá var ekki útlit fyrir það að hann myndi skora mikið af mörkum, en hann byrjaði fótboltaferilinn sem miðvörður. Hann spilaði sem varnarmaður í hverfisliði sínu og var hann sóttur í Rangers, eitt stærsta félag Skotlands, sem varnarmaður.
„Ég byrjaði fimm ára að leika mér á sparkvellinum. Pabbi vinar míns var þjálfari hjá hverfisliðinu og ég prófaði að mæta á æfingar með þeim. Ég var fljótur og það hjálpaði mér. Ég var ekki besti leikmaðurinn strax en ég bætti mig með tímanum. Ég var varnarmaður á þeim tíma. Við spiluðum 2-2-2 kerfið í sjö manna bolti og ég var annar af tveimur varnarmönnunum," sagði Lennon við Fótbolta.net.
„Þegar við fórum í ellefu manna bolta þá var ég hægri bakvörður og miðvörður. Ég var með mikinn hraða en hafði ekki hæðina með mér. Félög eins og Glasgow Rangers og önnur félög í Skotlandi sýndu mér áhuga. Ég valdi Rangers og fór í akademíuna þeirra."
„Ég var eiginlega 'sweeper' af því ég var fljótur og góður í að lesa leikinn. Ég byrjaði sóknir og fékk stundum leyfi til að rekja boltann í gegnum lið því ég var fljótur. Þetta var grunnurinn minn í fótbolta. Þegar ég fór inn í akademíuna í Rangers þá settu þeir mig inn á miðjuna og ég var miðjumaður þangað til ég var 17 eða 18 ára. Þá fór ég aðeins framar. Það var ekki fyrr en ég kom til Íslands að ég varð alvöru sóknarmaður. "
Hér á Íslandi raðaði hann inn mörkunum.
„Fram þurfti sóknarmann þegar ég kom hingað, einhvern sem myndi skora mörk. Ég kom hingað á reynslu í viku eða tíu daga og ég raðaði inn mörkum. Þetta byrjaði þannig; ég byrjaði á því að skora mörk þegar ég kom hingað og hélt því áfram."
Hvað ef?
Lennon var markakóngur Bestu deildarinnar 2020 þegar hann skoraði 17 mörk í 18 leikjum. FH átti eftir fjóra leiki það sumar þegar mótinu slaufað út af Covid-faraldrinum. Lennon var tveimur mörkum frá því að jafna metið yfir flest mörk yfir eitt sumar í efstu deild og þremur mörkum frá því að slá það þegar keppni var hætt.
„Allir segja mér að ég hefði náð metinu, en því miður er það bara tal," segir Lennon.
„Ég var með 17 mörk í 18 leikjum og við áttum fjóra leiki eftir. Allir vissu að þetta myndi gerast því við vorum að fara að mæta tveimur liðum sem voru við botninn. Ég átti að skora nokkur gegn þeim. Þetta var klárlega að fara að gerast en svo kemur Covid upp. Ég var að æfa einn út á götu og var með markmiðið í hausnum; ég ætlaði að gera þetta almennilega þegar deildin byrjaði aftur."
„Svo fáum við símtalið að mótinu væru slaufað. Það voru mikil vonbrigði en það er bara eins og það er. Ég er viss um að ég hefði slegið metið og það er mikið af fólki sem hefur sagt það við mig. Það er synd að það hafi ekki farið í sögubækurnar, en það er bara eins og það er."
Hversu reiður var hann með ákvörðunina á þeim tímapunkti?
„Þetta var pirrandi en ég var ekki brjálaður. Ég setti eitthvað tíst út en ég var bara að djóka. Ég verð ekki reiður oft. Ég vissi eiginlega að ákvörðunin myndi koma. Ég hugsaði bara um að halda áfram og slá metið árið eftir, en það gerðist því miður ekki," sagði Lennon og hló.
Hægt er að hlusta á allt hlaðvarpið hér fyrir neðan.
Athugasemdir