Salah, Rashford, Guehi, Ten Hag, Dewsbury-Hall og fleiri í pakka dagsins
banner
   þri 05. júní 2018 11:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
HM spáin: E-riðill - 4. sæti
Kosta Ríka
Kosta Ríka er ekki spáð jafngóðu gengi og fyrir fjórum árum.
Kosta Ríka er ekki spáð jafngóðu gengi og fyrir fjórum árum.
Mynd: Getty Images
Keylor Navas er lykilmaður.
Keylor Navas er lykilmaður.
Mynd: Getty Images
Bryan Ruiz er fyrirliði.
Bryan Ruiz er fyrirliði.
Mynd: Getty Images
Óscar Ramírez tók við eftir að Paulo Wanchope lenti í slagsmálum.
Óscar Ramírez tók við eftir að Paulo Wanchope lenti í slagsmálum.
Mynd: Getty Images
Kosta Ríka komst mest á óvart í Brasilíu. Hópurinn er lítið breyttur. Hvað gera þeir í Rússlandi?
Kosta Ríka komst mest á óvart í Brasilíu. Hópurinn er lítið breyttur. Hvað gera þeir í Rússlandi?
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
HM spá Fótbolta.net heldur áfram í dag og núna er komið að seinni helmingi riðlakeppninnar. Við erum búin að fara í gegnum A-, B-, C- og D-riðla og nú er komið að E-riðlinum. Þar leika Brasilía, Kosta Ríka, og tvær Evrópuþjóðir, Serbía og Sviss.

Spámenn Fótbolta.net eru á því máli að Kosta Ríka, sem kom mest á óvart af öllum liðum á síðasta Heimsmeistaramóti, muni lenda í fjórða sætinu í þessum riðli.

Sjá einnig:
Spáin fyrir A-riðil
Spáin fyrir B-riðil
Spáin fyrir C-riðil
Spáin fyrir D-riðil

Í dag er rétt rúm vika í að mótið hefjist. Opnunarleikurinn er á milli Rússlands og Sádí-Arabíu í Moskvu 14. júní. Úrslitaleikurinn verður á sama velli, í Moskvu, 15. júlí.

Spámenn Fótbolta.net: Cloe Lacasse, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Gunnar Logi Gylfason, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Mist Rúnarsdóttir, Natasha Moraa Anasi, Orri Rafn Sigurðarson, Sara Hrund Helgadóttir, Tryggvi Guðmundsson.

Liðin fengu stig frá 1-4 eftir því sem þeim var spáð í riðlinum. Mest var því hægt að fá 44 stig, minnst 11 stig.

Spá Fótbolta.net fyrir E-riðil:

1. sæti.
2. sæti.
3. sæti.
4. sæti. Kosta Ríka, 16 stig

Staða á heimslista FIFA: 25.

Um liðið: Kosta Ríka kom öllum á óvart fyrir fjórum árum og vann riðil sinn sem innihélt England, Ítalíu og Úrúgvæ. Liðið komst í 8-liða úrslit og var nálægt því að slá út Holland þar í leik sem fór alla leið í vítaspyrnukeppni. Herbragð Louis van Gaal að skipta um markvörð þegar lítíð var eftir virkaði hins vegar upp á tíu. Kosta Ríka mætir nú til leiks fjórum árum síðar með svipaðan kjarna. Nær þessi þjóð að koma heimsbyggðinni aftur í opna skjöldu?

Þjálfarinn: Það er kominn nýr þjálfari í brúnna hjá Kosta Ríka. Óscar Ramírez, sem lék 75 landsleiki fyrir Kosta Ríka á sínum ferli, tók við liðinu 2015. Paulo Wanchope, sem var aðstoðarþjálfari 2014 var ráðinn þjálfari eftir Heimsmeistaramótið, en hann sagði starfi sínu lausu eftir að hafa lent í slagsmálum við öryggisvörð eftir landsleik við Panama.

Ramírez var aðstoðarþjálfari Wanchope en hann tók við keflinu af honum. Hann þjálfaði Alajuelense í heimalandinu árin áður en knattspyrnusamband Kosta Ríka réði hann til starfa. Ramirez er talinn sigursælasti stjóri í sögu þess félags það er ástæða til bjartsýni undir hans leiðsögu.

Árangur á síðasta HM: Komust í 8-liða úrslit 2014.

Besti árangur á HM: Sjá fyrir ofan.

Leikir á HM 2018:
17. júní, Kosta Ríka - Serbía (Samara)
22. júní, Brasilía - Kosta Ríka (St. Pétursborg)
27. júní, Sviss - Kosta Ríka (Nizhny Novgorod)

Af hverju Kosta Ríka gæti unnið leiki: Þetta er mjög svipað lið og komst í 8-liða úrslit fyrir fjórum árum. Svo gæti farið að níu leikmenn af þeim 11 sem byrjuðu gegn Hollandi í 8-liða úrslitunum í Brasilíu muni byrja gegn Serbíu í Rússlandi, að minnsta kosti sjö þeirra munu byrja leikinn. Það hafa orðið mjög litlar breytingar á þessu liði á síðustu fjórum árum.

Varnarlega er Kosta Ríka mjög sterkt. Stillt verður upp í fimm manna agaða varnarlínu með Keylor Navas fyrir aftan sig. Það verður erfitt að brjóta þetta lið niður.

Af hverju Kosta Ríka gæti tapað leikjum: Kosta Ríka reiðir sig mikið á sterkan varnarleik. Ef liðið lendir undir þá gæti það átt í erfiðleikum með að breyta um hugarfar. Kerfið sem liðið spilar býður ekki upp á blússandi sóknarbolta.

Eins og áður segir eru margir af leikmönnunum frá 2014 enn í liðinu og það þýðir að leikmennirnir eru fjórum árum eldri. Liðið er eitt af þeim elstu á mótinu. Sóknarlega vantar hraða og þá eru Joel Campbell og Marcos Urena, tveir af markaskorurum liðsins, búnir að vera að glíma við meiðsli. Þeir koma báðir tæpir til Rússlands sem er auðvitað áhyggjuefni.

Stjarnan: Keylor Navas, markvörðurinn. Hann stal senunni í Brasilíu fyrir fjórum árum þar sem hann var einn af bestu leikmönnum mótsins. Í kjölfarið var hann keyptur til Real Madrid þar sem hann hefur verið aðalmarkvörður síðan. Hann hefur unnið Meistaradeildina þrjú ár í röð með Madrídarliðinu og ef Kosta Ríka ætlar sér að gera einhverja hluti í Rússlandi, það er mikið undir hans frammistöðu komið.

Fylgstu með: Joel Campbell er 25 ára gamall, en einn af yngri leikmönnunum hjá Kosta Ríka. Þó hann sé með yngri leikmönnunum er hann einn af þeim reynslumeiri og hefur leikið 76 landsleiki. Hann skoraði fyrsta mark liðsins á mótinu fyrir fjórum árum og var einn af sterkari leikmönnum Kosta Ríka.

Hann hefur ekki náð að brjóta sér leið inn í lið Arsenal og verður samningslaus í sumar. Hann var í láni hjá Real Betis síðastliðið tímabil en gat lítið beitt sér vegna meiðsla. Hann kemur inn á þetta mót og þarf að sanna gildi sitt.

Líklegt byrjunarlið að mati Yahoo Sports (5-2-2-1): Keylor Navas; Christian Gamboa, Oscar Duarte, Johnny Acosta, Giancarlo Gonzalez, Bryan Oviedo; Celso Borges, David Guzman; Bryan Ruiz, Christian Bolanos; Marco Urena.

Campbell gæti komið inn í þetta lið ef hann er heill heilsu og ef Ramírez er tilbúinn að reiða sig á hann.

Leikmannahópurinn:
Kosta Ríka hefur valið sinn 23 manna hóp. Litlar breytingar hafa orðið á hópnum frá 2014.

Markverðir: Keylor Navas (Real Madrid), Patrick Pemberton (Liga Deportiva Alajuelense), Leonel Moreira (Herediano)

Varnarmenn: Cristian Gamboa (Celtic), Ian Smith (Norrkoping), Ronald Matarrita (New York City), Bryan Oviedo (Sunderland), Oscar Duarte (Espanyol), Giancarlo Gonzalez (Bologna), Francisco Calvo (Minnesota United), Kendall Waston (Vancouver Whitecaps), Johnny Acosta (Aguilas Dorados)

Miðjumenn: David Guzman (Portland Timbers), Yeltsin Tejeda (Lausanne-Sport), Celso Borges (Deportivo La Coruna), Randall Azofeifa (Herediano), Rodney Wallace (New York City), Bryan Ruiz (Sporting CP), Daniel Colindres (Saprissa), Christian Bolanos (Saprissa)

Sóknarmenn: Johan Venegas (Saprissa), Joel Campbell (Real Betis), Marco Urena (LAFC)
Athugasemdir
banner
banner