Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   fim 16. mars 2017 10:42
Elvar Geir Magnússon
Aron Jó geymdur á bekknum - Gæti farið í sumar
Aron ásamt Nouri þjálfara. Werder Bremen er í 15. sæti í Þýskalandi, rétt fyrir ofan fallsvæðið.
Aron ásamt Nouri þjálfara. Werder Bremen er í 15. sæti í Þýskalandi, rétt fyrir ofan fallsvæðið.
Mynd: Getty Images
Sóknarmaðurinn Aron Jóhannsson hefur ekki spilað með Werder Bremen í þýsku deildinni síðan hann kom af bekknum þegar tíu mínútur voru eftir af leik 11. febrúar. Síðan hefur hann verið ónotaður varamaður.

Hann hefur aðeins spilað tvo byrjunarliðsleiki í vetur hjá þjálfaranum Alexander Nouri.

„Ég vil ekki fara frá félaginu en þegar öllu er á botninn hvolft er mikilvægt að ég sé að spila. Ég elska fótbolta en verð að spila til að vera ánægður," segir Aron við vefsíðuna kreiszeitung.de.

Aron, sem er bandarískur landsliðsmaður, er aftarlega í goggunarröðinni hjá Bremen en meiðsli hafa einnig haft sín áhrif á dvöl hans hjá þýska félaginu. Fyrsta árið sitt var hann mikið á meiðslalistanum vegna meiðsla í mjöðm.

Hann segir erfitt að kyngja því að vera leikfær en fá ekki að spila. Hann þurfi að endurheimta sjálfstraustið en það sé aðeins hægt með því að fá spiltíma.

„Ég þarf að leggja hart að mér og bíða eftir næsta tækifæri, ég þarf að vera tilbúinn þegar það býðst. Ég vil sanna það að ég er nægilega góður til að spila hérna," segir Aron sem er samningsbundinn til 2019.

Þó tækifærin séu af skornum skammti inni á vellinum er lífið utan vallar að leika við Aron en hann eignaðist dóttur á dögunum.



Athugasemdir
banner
banner
banner