Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   þri 31. október 2017 16:40
Magnús Már Einarsson
Ingó Sig: Uppteknari af framtíðinni en vesenisstimpli
Ingólfur fagnar marki með Gróttu í sumar.
Ingólfur fagnar marki með Gróttu í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Ingólfur í leik gegn Fylki.
Ingólfur í leik gegn Fylki.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Ingólfur Sigurðsson stefnir á að halda áfram að spila fótbolta næsta sumar eftir að hafa tekið sér frí frá boltanum síðari hlutann á síðasta tímabili.

„Ég hef hug á að spila áfram á fullu og myndi helst vilja gera það í góðu liði. Ég reyni að þræla mér út á hlaupabrettinu þessar vikurnar og fer annað slagið til toppmannsins Guðjóns í Toppþjálfun. Mig langar til þess að festa rætur og vera hjá sama liðinu til nokkurra ára," sagði Ingólfur við Fótbolta.net í dag.

Hinn 24 ára gamli Ingólfur er sóknarsinnaður miðjumaður sem fór ungur að árum til Heerenveen og lék einnig með Lyngby í Danmörku. Í sumar spilaði Ingólfur með Gróttu í Inkasso-deildinni áður en hann hætti hjá félaginu í júlí eftir að hafa brugðist illa við útafskiptingu Þórhalls Dan Jóhannssonar þjálfara.

„Ég var auðvitað á hliðarlínunni seinni part sumars en ekki inn á vellinum. Það var gott að fá svigrúm til þess að anda og pæla aðeins í sjálfum sér," segir Ingólfur.

„Grótta er ljómandi flottur klúbbur, með einstakt yngri flokka starf og eru að gera virkilega áhugaverða hluti í meistaraflokki. Það var ekki öfundsvert hlutskipti sem þjálfarateymið fékk á síðasta tímabili. Leikmannahópurinn var þunnur og fjárráðin kannski ekki eins og hjá öðrum 1. deildarliðum. Þeir stóðu sig mjög vel og ég hef ekkert nema gott um þá að segja. Þeir munu án nokkurs vafa standa sig vel í framtíðinni."

„Tækla stöðuna eins og hún er"
Árið 2015 skoraði Ingólfur sex mörk þegar hann hjálpaði liði Víkings Ólafsvíkur upp í Pepsi-deildina áður en hann fór í Fram. Þar hætti Ingólfur einnig á miðju sumri í fyrra eftir ósætti. Ingólfur hefur nokkrum sinnum áður komist í fréttirnar vegna viðskilnaðar við fyrrum félög en hann horfir hins vegar bjartsýnn fram veginn.

„Auðvitað loðir það við mig. Fólk hefur haft skoðun á mér frá því ég var 14 ára gamall. Ég hef verið með vesenisstimpil á mér frá því ég tístaði mig úr KR yfir í Val árið 2011. Síðan fyrir nokkrum árum sagði ég frá því að ég hef glímt við andleg veikindi sem var kannski ákveðið sjokk fyrir karllægt sjomlasamfélag," sagði Ingólfur.

„Ég hef alveg fundið fyrir tortryggni og fólk sem ég hef unnið með er oftar en ekki miklu uppteknari af fortíð minni heldur en ég nokkurn tímann. Ég hef gefið á mér höggstað og það mótmælir því enginn ef hann er nýttur – því það er ég sem ber vesenisstimpilinn."

„Þetta er raunveruleikinn sem ég bý við og ég tækla stöðuna eins og hún er. En ég er miklu uppteknari af framtíðinni, ég held ég sé góður leikmaður og vil vera minnst fyrir það sem ég geri á vellinum,"
sagði Ingólfur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner