Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   fös 08. mars 2024 14:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Best fyrir hann og Man Utd ef að PSG myndi mæta með stóru seðlana"
Marcus Rashford.
Marcus Rashford.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Marcus Rashford hefur alls ekki átt gott tímabil með Manchester United og hefur líkamstjáning hans oft verið til skammar. Stuðningsmenn United eru margir hverjir orðnir þreyttir á honum.

Rashford var algjörlega frábær á síðasta tímabili og fékk þá nýjan samning, en hann er búinn að vera vægast slakur á yfirstandandi tímabili.

Hann skoraði þó flott mark í síðasta leik gegn Man City, en gerði samt lítið sem ekkert eftir það.

„Hann skuldaði ekkert eðlilega mikið, sérstaklega eftir þennan pistil. Ég átta mig ekki alveg á því á hvaða ferðalagi hann er á með þessum pistli, en það er önnur saga. Þetta var glæsilegt mark en síðan var það ekki söguna meir," sagði Andri Már Eggertsson í síðasta þætti af Enski boltinn hlaðvarpinu.

Rashford var mikið gagnrýndur á dögunum þegar hann fór á djammið í Belfast í Norður-Írlandi og hringdi sig svo inn veikan á æfingu hjá United. Það hefur verið skrifað um það í fjölmiðlum á Englandi að hann og Erik ten Hag, stjóri United, talist nánast ekki við eftir það.

„Rashford datt aðeins í gang eftir djammið í Belfast og það var eitthvað grín í gangi með að hann þyrfti að hella í sig oftar og eitthvað, en heilt er maður alveg að gefast upp á honum eftir að hann skrifaði undir þennan nýjan samning," sagði Eysteinn Þorri Björgvinsson í þættinum.

„Hann er með níu líf og gott betur en það í þessu liði finnst manni," sagði Andri.

Rashford er uppalinn hjá Man Utd og hefur verið þar allan sinn feril, en væri það kannski best fyrir hann að fá ferskt upphaf annars staðar?

„Ég held að það besta fyrir hann og Manchester United væri ef að PSG myndi mæta með stóru seðlana í sumar. En miðað við það hvernig hann talar og miðað við þennan pistil þá virðist hugur hans vera hjá United. Við vitum allir hvað hann getur ef hann dettur í gang en ég sé þetta ekki breytast á næstunni," sagði Eysteinn.

Allan þáttinn er hægt að hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan.
Enski boltinn - Martraðartitilbarátta fyrir Man Utd menn
Athugasemdir
banner
banner