Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
   fim 11. júní 2020 10:00
Fótbolti.net
Spá Fótbolta.net fyrir Pepsi Max-deild kvenna: 1. sæti
Breiðablik endaði í 2. sæti í Pepsi Max-deildinni í fyrra.
Breiðablik endaði í 2. sæti í Pepsi Max-deildinni í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Berglind Björg Þorvaldsdóttir
Berglind Björg Þorvaldsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Agla María Albertsdóttir
Agla María Albertsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sonný Lára Þráinsdóttir
Sonný Lára Þráinsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keppni í Pepsi Max-deild kvenna hefst annað kvöld. Fótbolti.net mun næstu dagana opinbera spá fyrir deildina í sumar en liðin verða kynnt eitt af öðru næstu dagana.

Spáin:
1. Breiðablik
2. Valur
3. Selfoss
4. KR
5. Fylkir
6. Stjarnan
7. Þór/KA
8. FH
9. ÍBV
10. Þróttur R.

1. Breiðablik

Lokastaða í fyrra: Eftir Íslandsmeistaratitil árið 2018 þá endaði Breiðablik í 2. sæti í Pepsi Max-deildinni í fyrra. Liðið tapaði ekki leik en endaði þrátt fyrir það á eftir Val.

Þjálfarinn: Þorsteinn Halldórsson hefur haldið fast um stjórnartaumana í Kópavogi í áraraðir og gert frábæra hluti. Hann er nú að hefja sitt sjötta tímabil með liðið.

Álit Jóa
Jóhann Kristinn Gunnarsson er sérfræðingur Fótbolta.net í Pepsi Max-deild kvenna líkt og síðustu ár. Hér er álit hans á liði Breiðabliks.

„Þetta sigursæla lið undanfarinna ára náði ekki titli í fyrra og ég hugsa að Steini og stelpurnar séu að springa úr spenningi að hefja tímabilið í ár. Þær halda svo til óbreyttu liði og bæta við sig góðum leikmönnum. Sveindís Jane er á flestra vörum og líklega ekki margir ungir leikmenn með jafn mikla pressu á herðunum vegna umtals áhugafólks og „sérfræðinga“. Hún hefur hingað til ekki verið í miklum vandræðum að svara þeirri pressu inni á vellinum og hugsa ég svo verði áfram. Gæðaleikmaður. Fyrir Breiðablik að fá Rakel Hönnu heim er alveg rosalega stórt og þýðingarmikið. Öflugur leikmaður sem getur leyst margar stöður, hleypur fyrir þrjá og skilar alltaf mörkum og stoðsendingum. Vinnur mikið af boltum og er mikilvæg í klefanum. Hún lyftir góðu liði klárlega upp í næsta þrep fyrir ofan."

„Hungrið sem Breiðablik hefur í titla og árangur hefur ekki minnkað í sumar og ljóst að þær koma einbeittar inn í tímabilið í ár. Samkeppni um stöður er mikil og breiddin líklega sú mesta í deildinni. Steini hefur margoft sýnt að hann getur skipulagt liðið þó vanti leikmenn og allar virðast vita nákvæmlega hvað á að gera."

„Eins og Valur þá eru Blikarnir gríðarsterkir varnarlega með Sonný fyrir aftan sig. Hildur Antons og Rakel Hönnu á miðjunni gæti virkað eins og grjótmulningsvél fyrir andstæðingana. Agla María, Berglind Björg og Sveindís ættu að skila mörkum fyrir liðið og nóg er af ungum og efnilegum leikmönnum til að bakka þær upp. Það verður jákvæður og skemmtilegur höfuðverkur að stilla upp liðinu miðað við mannskapinn og gæti Steini vel róterað í liðinu miðað við andstæðinga hverju sinni."

„Það er alveg ljóst að liðið ætlar sér að gera harða atlögu að báðum titlum þetta árið og það er mat sérfræðinga að þessu sinni að þetta hungur og titlaleysi í fyrra ásamt liðssöfnun og gæði leikmannahópsins verði til þess að þær taki annan ef ekki báða titlana árið 2020."


Gaman að fylgjast með: Af ungum þá verður gaman að sjá Hildi Þóru Hákonardóttur og Bergþóru Sól Ásmundsdóttur nýta sín tækifæri vel þegar þau koma. Hafrún Rakel Halldórsdóttir gæti átt eftir að spila hlutverk í varnarlínunni hægra megin og gaman að sjá hvernig hún kemur inn í þetta eftir að hafa flutt sig um set frá Aftureldingu. Svo spái ég að þetta verði stórt ár fyrir Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur í boltanum. Hrikalega spennandi og öflugur leikmaður sem á eftir að vera lykilmaður í velgengni Breiðabliks og vekja mikla athygli fyrir frammistöðu sína á vellinum.

Komnar
Hafrún Rakel Halldórsdóttir frá Aftureldingu
Rakel Hönundóttir frá Reading
Sveindís Jane Jónsdóttir frá Keflavík á láni
Vigdís Edda Friðriksdóttir frá Tindastóli

Farnar
Ásta Vigdís Guðlaugsdóttir í Keflavík á láni
Kristjana R. Kristjánsdóttir Sigurz í ÍBV á láni

Fyrstu leikir Breiðabliks
13. júní Breiðablik - FH
18. júní Selfoss - Breiðablik
23. júní Breiðablik - KR
Athugasemdir
banner
banner