Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   mán 13. apríl 2020 11:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Efnahagslegt gjaldþrot og siðferðisleg rotnun" hjá Barcelona
Mynd: Getty Images
Josep Maria Bartomeu, forseti Barcelona.
Josep Maria Bartomeu, forseti Barcelona.
Mynd: Getty Images
Victor Font, forsetaframbjóðandi hjá knattspyrnufélaginu Barcelona, telur að félagið geti orðið fyrir „efnahagslegu gjaldþroti og siðferðislegri rotnun" undir núverandi stjórn.

Font ætlar sér að bjóða sig fram í forsetakosningum á næsta ári þegar valdatíð Josep Maria Bartomeu endar. Font, sem er með stuðning frá goðsögninni Xavi, sendi frá sér opið bréf í gær þar sem hann gagnrýndi núverandi stjórn félagsins.

Sex stjórnarmenn Barcelona sögðu upp störfum í síðustu viku og kölluðu eftir kosningum. Þau gagnrýndu núverandi forseta fyrir hans störf.

Bartomeu og hans stjórn komst í fréttirnar fyrr á árinu þegar félagið var sagt hafa ráðið fyrirtæki að nafni i3 Ventures til að búa til reikninga á samfélagsmiðlum sem höfðu það að leiðarljósi að bæta orðspor forsetans og stjórnarinnar. Bartomeu hefur neitað þessum ásökunum.

Barcelona hefur unnið átta af síðustu 11 meistaratitlum á Spáni og var liðið á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar þegar hlé var gert á deildinni vegna kórónuveirunni. Leikmenn Barcelona gerðu samkomulag við félagið um stóra launaskerðingu í kjölfar heimsfaraldursins svo hægt væri að halda starfsfólki félagsins áfram. Eftir að hafa tekið á sig skerðingu í launum þá gagnrýndu leikmenn stjórn félagsins.

Í frétt frá Daily Mail segir að Barcelona hafi ætlað að nýta sér úrræði stjórnvalda á Spáni við að hjálpa við að greiða laun. Á meðan hafa Messi og aðrir leikmenn verið málaðir í vondu ljósi.

Font segir að það þurfi breytingar innan sem utan vallar hjá knattspyrnufélaginu Barcelona.

„Eina forgangsatriðið ætti að vera að koma félaginu úr þeirri krísu sem er núna í gangi, en þá ákveður forsetinn að breyta stjórninni til að bæta völd sín. Barca í heild sinni er í hættu," segir í bréfi Font.

Font segir að það sé ekki einstakt dæmi að félagið líti illa út á opinberum vettvangi. Það hafi gerst í ofantöldum dæmum og segir hann: „Bætum við reikulli íþróttastefnu; uppstokkun í stjórninni og verulegri lækkun á tekjum vegna faraldursins. Niðurstaðan er hætta á fjárhagslegu gjaldþroti og siðferðislegri rotnun. Leikurinn er búinn."

„Við verðum að byrja frá grunni. Stjórnunarlíkanið sem hefur á undanförnum árum gert það að verkum að við séum besta fjölíþróttafélag í heimi virkar ekki lengur. Það er skortur á gegnsæi. Við veltum meira en öll félög en samt eyðum við því öllu, og við þurfum að selja eða skipta leikmönnum á síðustu mínútu hvers tímabils til að halda jafnvægi í bókum okkar. Það er ekki sjálfbært."

Í bréfinu er kallað eftir því að núverandi stjórn útskýri efnahagsástandið og skuldir félagsins. Þá er stjórnin biðluð um að fresta óþörfum útgjöldum í kórónuveirufaraldrinum.

„Félagið þarf á umbreytingu að halda á skrifstofunum, umbreytingu sem er eins hugrökk, skapandi, nýstárleg og árangursrík og sú sem Johan Cruyff bjó til inn á fótboltavellinum."

Athugasemdir
banner
banner
banner