Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   lau 16. febrúar 2019 16:52
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
„Fannst kosningabaráttan stórundarleg"
Guðni rúllaði yfir Geir í kosningunum.
Guðni rúllaði yfir Geir í kosningunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórir Hákonarson.
Þórir Hákonarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég ætla að vona að næsta kosningabarátta fari ekki fram með sama hætti og hún gerði núna. Mér fannst þetta fara út í allt annað en þetta átti að snúast um," sagði Þórir Hákonarson, fyrrum framkvæmdastjóri KSÍ, í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977.

Hann var þar að tala um formannsslag Guðna Bergssonar og Geirs Þorsteinssonar en Guðni vann stórsigur þegar kosið var á ársþingi KSÍ fyrir viku síðan.

„Mér fannst kosningabaráttan stórundarleg. Þetta eru einhverjir 140 aðilar sem eru að kjósa til forystu og þetta er í Kastljósinu, Stöð 2, öllum fréttum og út um allt. Það er óvanalegt og ég tel að við séum ekki að stíga rétt skref með þessu."

Varð fyrir vonbrigðum með Söru
„Umræðan fannst mér á tíðum vera til skammar. Það kom fram óhróður frá ýmsum aðilum og það fór lítið fyrir hrósi heldur var verið að hreyta óhróðri í mótframbjóðandann. Ég varð fyrir vonbrigðum með það. Mér er sama hver frambjóðandinn er. Það veitir aldrei á gott að gera lítið úr störfum annarra, sem kannski hafa unnið í hreyfingunni í áraraðir."

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði kvennalandsliðsins, var meðal þeirra sem tjáðu sig en hún sagði Geir ekki hafa haft neinn tíma fyrir kvennalandsliðið í hans stjórnartíð. Þórir var ekki hrifinn af þessum ummælum Söru.

„Ég veit að ég verð ekki vinsæll að nefna það en ég varð fyrir vonbrigðum með orð Söru Bjarkar, fyrirliða kvennalandsliðsins. Mér fannst hún geta lýst yfir stuðningi við Guðna með öðrum hætti en að gera lítið úr störfum Geirs. Ég ber gríðarlega mikla virðingu fyrir henni en hún hefði getað lýst yfir stuðningi öðruvísi," segir Þórir.

Dulbúin hótun frá forseta UEFA
Þórir telur að forseti UEFA, Aleksander Ceferin, hafi brotið gegn siðareglum FIFA og UEFA með stuðningi sínum við Guðna Bergsson í aðdraganda kosninganna. Jón Rúnar Halldórsson, formaður FH, gagnrýndi stjórn KSÍ á þinginu fyrir viku þar sem hún hafi ekki brugðist við þessum afskiptum.

„Ég er sammála þeim sem hafa lýst þessu sem fordæmalausum afskiptum," segir Þórir. „Það sem mér fannst verst er að það var dulbúin hótun í hans málflutningi. Hann talaði um að samskipti KSÍ og UEFA væru geggjuð en gaf í skyn að þau gætu versnað ef annar tæki við."

„Þetta mál snýst ekkert um frambjóðendurna heldur framkomu hans gagnvart okkur."

„Ég held að við verðum að fá eitthvað mat á það hvert menn eru að fara. Ceferin hefði aldrei tjáð sig svona um formannskosningar í Þýskalandi eða Ítalíu. Ég tel að þessu máli sé ekki lokið, menn verða að fá viðbrögð," segir Þórir Hákonarson.

Smelltu HÉR til að hlusta á umræðuna úr útvarpsþættinum í heild sinni
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner