Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   fös 17. apríl 2020 20:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Iniesta: Vil sparka í bolta eins lengi og ég get
Iniesta er einn allra besti miðjumaður sem uppi hefur verið.
Iniesta er einn allra besti miðjumaður sem uppi hefur verið.
Mynd: Getty Images
Hann leikur í dag í Japan eftir mörg góð ár í Katalóníu.
Hann leikur í dag í Japan eftir mörg góð ár í Katalóníu.
Mynd: Getty Images
„Alltaf þegar ég sé mynd úr einhverjum leik eða af þéttsetnum leikvangi þá vill ég ólmur fara út og spila fótbolta aftur."

Þetta segir hinn 35 ára gamli Andres Iniesta í viðtali við The Guardian. Hann er ekki á þeim buxunum að hætta strax.

Iniesta er einn allra besti miðjumaður sem uppi hefur verið; einn allra besti fótboltamaður sem leikið hefur leikinn fagra. Iniesta vann allt sem hægt er að vinna með Barcelona er hann lék þar frá 2002 til 2018. Síðastliðin tvö ár hefur hann verið á mála hjá Vissel Kobe í Japan.

Núna eru liðnir 54 dagar síðan hann spilaði síðast fótboltaleik með Vissel Kobe. Deildin í Japan hófst 21. febrúar og var hlé gert á deildinni fjórum dögum síðar vegna kórónuveirufaraldursins. Flestallar deildir annars staðar í Evrópu hafa einnig verið stöðvaðar vegna veirunnar. Japanir vonast til að byrja aftur 9. maí, en hver veit?

Í viðtalinu segir Iniesta: „Veirur, og þessi veira sérstaklega, eru óútreiknanlegar. Þú spyrð sjálfan þig hvenær lífið verður aftur venjulegt. Hvenær getum við farið að heiman? Hvenær getum við knúsað hvort annað?"

Það er góð spurning. Iniesta fer víðan völl í viðtalinu, en hann segist ætla að spila eins lengi og hann mögulega getur. „Ég vil sparka í bolta eins lengi og ég get því það gerir mig ánægðan."

Iniesta segist vilja snúa aftur til Barcelona þegar leikmannaferlinum lýkur. Hver veit nema að hann og Xavi, sem mynduðu magnað miðjumannsteymi hjá félaginu á árum áður, muni endurnýja kynni sín í hlutverkum á bak við tjöldin. Það er alla vega ekki leiðinleg tilhugsun.
Athugasemdir
banner