Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   fim 07. júní 2018 19:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
HM spáin: F-riðill - 1. sæti
Þýskaland
Þjóðverjar urðu Heimsmeistarar fyrir fjórum árum.
Þjóðverjar urðu Heimsmeistarar fyrir fjórum árum.
Mynd: Getty Images
Löw hefur verið með Þýskaland frá 2006.
Löw hefur verið með Þýskaland frá 2006.
Mynd: Getty Images
Toni Kroos er mikilvægur á miðjunni.
Toni Kroos er mikilvægur á miðjunni.
Mynd: Getty Images
Neuer er í hópnum en ekki er víst að hann nái að spila.
Neuer er í hópnum en ekki er víst að hann nái að spila.
Mynd: Getty Images
Marco Reus.
Marco Reus.
Mynd: Getty Images
Timo Werner.
Timo Werner.
Mynd: Getty Images
Spá Fótbolta.net í riðlakeppni HM heldur áfram í dag. Eftir því sem líður á daginn verður spáin fyrir F-riðilinn opinberuð. Heimsmeisturum Þýskalands er spáð efsta sæti riðilsins.

Sjá einnig:
Spáin fyrir A-riðil
Spáin fyrir B-riðil
Spáin fyrir C-riðil
Spáin fyrir D-riðil
Spáin fyrir E-riðil

HM í Rússlandi hefst eftir nokkra daga. Opnunarleikurinn er á milli heimamanna og Sádí-Arabíu 14. júní og sjálfur úrslitaleikurinn verður 15. júlí næstkomandi.

Spámenn Fótbolta.net: Cloe Lacasse, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Gunnar Logi Gylfason, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Mist Rúnarsdóttir, Natasha Moraa Anasi, Orri Rafn Sigurðarson, Sara Hrund Helgadóttir, Tryggvi Guðmundsson.

Liðin fengu stig frá 1-4 eftir því sem þeim var spáð í riðlinum. Mest var því hægt að fá 44 stig, minnst 11 stig.

Spá Fótbolta.net fyrir F-riðil:

1. sæti. Þýskaland, 44 stig
2. sæti. Mexíkó, 26 stig
3. sæti. Svíþjóð, 23 stig
4. sæti. Suður-Kórea, 17 stig

Staða á heimslista FIFA: 1.

Um liðið: Heimsmeistarar Þýskalands eru ógnarsterkir og breiddin í hópnum er fáránlega mikil. Besti leikmaður liðsins frá 2014, markvörðurinn og fyrirliðinn Manuel Neuer, er tæpur en samt er gríðarlega mikil trú á liðinu.

Þjálfarinn: Hinn 58 ára gamli Joachim Löw hefur stýrt Þýskalandi með frábærum árangri frá 2006. Hann er að fara inn á sitt sjötta stórmót með liðið og örugglega ekki það síðasta. Löw framlengdi nýlega samning sinn við Þýskaland til 2022 og virðist ekki vera á förum neitt.

Árangur á síðasta HM: Heimsmeistarar.

Besti árangur á HM: Meistarar 1954, 1974 1990 og 2014.

Leikir á HM 2018:
17. júní, Þýskaland - Mexíkó (Moskva)
23. júní, Þýskaland - Svíþjóð (Sochi)
27. júní, Suður-Kórea - Þýskaland (Kazan)

Af hverju Þýskaland gæti unnið leiki: Nú, gerir Þýskaland eitthvað annað en að vinna leiki? Þjóðverjar töpuðu reyndar nýlega vináttulandsleik við Brasilíu þar sem margir leikmenn fengu tækifæri, en liðið hefur í rauninni ekki tapað síðan á EM 2016. Þýskaland rúllaði í gegnum undankeppnina og vann alla 10 leiki sína þar á auðveldan máta. Löw er á sínu 12. ári með þýska landsliðið og allir leikmenn sem spila undir hans stjórn vita hvernig hann vill spila fótbolta.

Hópurinn er gríðarlega sterkur, það sterkur að leikmaður eins og Leroy Sane komst ekki í hann. Andinn í kringum liðið hefur líka yfirleitt verið mjög góður.

Þá ber einnig að nefna það að á HM 2014 skoraði Þýskaland fimm mörk úr föstum leikatriðum. Það er gott vopn að hafa, að vera sterkir í föstum leikatriðum.

Af hverju Þýskaland gæti tapað leikjum: Mjög erfitt að segja. Það er ekkert rosalegt magn af stjörnum í þýska liðinu, liðsheildin er þeirra besti vinur. Það er auðvitað neikvætt ef Neuer verður ekki með þar sem hann er á sínum degi besti markvörður í heimi; hann var besti leikmaður liðsins fyrir fjórum árum. Ef Neuer verður ekki með, þá verður Marc-Andre Ter Stegen, markvörður Barcelona, í markinu. Ter Stegen er langt frá því að vera slæmur kostur í mark Þýskalands en hann er enginn Neuer.

Það gæti reynst slæm ákvörðun að skilja Leroy Sane eftir heima. Hann var magnaður með Manchester City í vetur.

Frá síðasta Heimsmeistaramóti hafa leiðtogar eins og Philipp Lahm, Bastian Schweinsteiger og Per Mertesacker hætt með landsliðinu. Það er erfitt að fylla í skarð þeirra.

Stjarnan: Það er erfitt að velja einn leikmann en ef einhver verður fyrir valinu þá er það Toni Kroos. Ef Neuer verður ekki klár í slaginn, eins og líklegt er, þá mun Kroos taka við keflinu sem besti leikmaðurinn í frekar jöfnu og góðu liði Þýskalands.

Kroos er magnaður miðjumaður sem hefur sannað gæði sín í stórkostlegu liði Real Madrid. Hversu slæm ákvörðun var það hjá Bayern München að sleppa honum frá sér?

Fylgstu með: Marco Reus. Hefur verið ótrúlega, ótrúlega óheppinn með meiðsli undanfarin ár. Missti af síðustu tveimur stórmótum með Þjóðverjum en nær HM nema eitthvað komi upp á. Hann er tilbúinn í slaginn og endaði tímabilið vel með Borussia Dortmund. Ef hann nær sér á strik er hann stórhættulegur.

Þú mátt einnig fylgjast með Timo Werner, sóknarmanni RB Leipzig. Efnilegur leikmaður með mikinn hraða. Hann getur fært þessu liði mörk og er búinn að skora sjö mörk í 13 landsleikjum.

Líklegt byrjunarlið Þýskalands að mati ESPN (4-2-3-1): Marc-Andre Ter Stegen; Joshua Kimmich, Niklas Sule, Mats Hummels, Jonas Hector; Toni Kroos, Sami Khedira; Thomas Muller, Mesut Ozil, Marco Reus; Timo Werner.

Jerome Boateng er búinn að vera meiddur. Ef hann er heill þá kemur hann bókað inn í liðið fyrir Niklas Sule.

Leikmannahópurinn:
Mikla athygli vakti að Leroy Sane er ekki í hópnum.

Markverðir: Manuel Neuer (Bayern Munich), Marc-Andre ter Stegen (Barcelona), Kevin Trapp (Paris Saint-Germain)

Varnarmenn: Mats Hummels (Bayern Munich), Jerome Boateng (Bayern Munich), Joshua Kimmich (Bayern Munich), Jonas Hector (Köln), Matthias Ginter (Gladbach), Niklas Sule (Bayern Munich), Antonio Rudiger (Chelsea), Marvin Plattenhardt (Hertha Berlin)

Miðjumenn: Toni Kroos (Real Madrid), Mesut Ozil (Arsenal), Sami Khedira (Juventus), Thomas Muller (Bayern Munich), Sebastian Rudy (Bayern Munich), Marco Reus (Borussia Dortmund), Leon Goretzka (Schalke), Julian Draxler (Paris Saint-Germain), Ilkay Gundogan (Manchester City), Julian Brandt (Bayer Leverkusen)

Sóknarmenn: Timo Werner (RB Leipzig), Mario Gomez (Stuttgart)
Athugasemdir
banner
banner