Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
banner
   fim 26. janúar 2017 16:10
Elvar Geir Magnússon
Viðtal
Raggi Sig: Bara sjálfum mér að kenna
Ragnar er ákveðinn í að festa sig í byrjunarliði Fulham.
Ragnar er ákveðinn í að festa sig í byrjunarliði Fulham.
Mynd: Getty Images
Fulham er nálægt umspilssætum.
Fulham er nálægt umspilssætum.
Mynd: Getty Images
Íslenski landsliðsmiðvörðurinn Ragnar Sigurðsson hefur þurft að verma varamannabekkinn hjá Fulham í síðustu leikjum í Championship-deildinni. Athygli hefur vakið að stjóri liðsins, Slavisa Jokanovic, hefur verið duglegur að gera breytingar á varnarlínu sinni milli leikja.

Ragnar hefur spilað sextán leiki með Fulham á tímabilinu en liðið er í níunda sæti, fimm stigum frá umspilssæti, þegar 27 umferðum er lokið.

„Ég hef spilað mjög góða leiki en svo hef ég gert klaufamistök sem ég er alls ekki sáttur með. Ég hef verið óheppinn að því leyti að þegar ég hef gert mistök hefur andstæðingurinn refsað," segir Ragnar í viðtali við Fótbolta.net.

„Þjálfarinn hefur verið mikið fyrir það að breyta til í varnarlínunni þó menn standi sig ágætlega. Þetta er eitthvað sem ég hef ekki þekkt frá fyrrum félagsliðum og landsliðinu. Það hefur kannski ekki hjálpað mér ofan á hitt."

„Mesta breiddin hjá Fulham er í vörninni eins og er. Við erum fjórir hafsentar. Þegar allir eru heilir er breiddin í öllum hópnum mjög góð."

Bara mitt að sýna hvað ég get
Ragnar hefur leikið virkilega vel í mörgum leikjum hjá Fulham og er ákveðinn í að vinna sér inn byrjunarliðssæti að nýju, hann er sannfærður um að eiga fullt erindi í það.

„Mér finnst ég svolítið þurfa að sanna mig upp á nýtt, það hefur ekki gengið alveg eins vel og ég vonaði. Ég kom inn með smá nafn eftir Evrópumótið. Nú er það bara mitt að sýna hvað maður getur. Sjálfstraustið minnkar ef manni gengur illa en maður þarf að vinna úr því. Ég þarf að nýta þá sénsa sem ég fæ, segir Ragnar.

Fulham á bikarleik gegn úrvalsdeildarliði Hull um helgina og Ragnar vonast eftir því að fá tækifæri í þeim leik.

„Maður vill alltaf spila og þetta er stórleikur fyrir félagið. Ég vona að sjálfsögðu að ég verði með en hef ekki hugmynd. Ég gæti verið í byrjunarliðinu, ég gæti líka verið utan hóps. Þetta kemur allt saman í ljós."

Erfitt að lesa í þjálfarann
Fyrr í þessum mánuði var Ragnar í byrjunarliðinu í 2-1 sigri gegn Cardiff í bikarnum og fékk góða dóma fyrir sína frammistöðu.

„Ég fann mig vel í þeim leik og var mjög ánægður með hvernig gekk. Samt var ég ekki í liðinu í leiknum þar á eftir. Það er erfitt að lesa í þjálfarann og maður veit ekki alveg hvað hann vill. Hann róterar mikið varnarlega en breytir ekki miklu sóknarlega. Fáir í hópnum vita hvar þeir standa, " segir Ragnar sem er þó alls ekki ósáttur við Jokanovic þjálfara.

„Það má ekki misskiljast. Mér finnst þjálfarinn mjög flottur gaur. Það er bara sjálfum mér að kenna að vera ekki í liðinu. Maður þarf bara að leiðrétta það. Mér líður vel í London og er mjög ánægður hjá félaginu."

Fulham er ekki langt frá umspilssæti og telur Ragnar að liðið sé nægilega öflugt til að taka þátt í toppbaráttunni.

„Við höfum verið að tapa stigum á pirrandi hátt. Við erum að mínu mati með betri liðum deildarinnar en höfum kastað frá okkur. Sem dæmi höfum við fengið níu vítaspyrnur og klúðrað sjö af þeim. Í nokkrum leikjum sem við höfum stýrt algjörlega hefur okkur ekki tekist að vinna. Við ættum að vera með fleiri stig en höfum verið klaufar. Þessi deild er þannig að hlutirnir eru fljótir að breytast," segir Ragnar Sigurðsson.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner