Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   mán 07. ágúst 2017 16:45
Elvar Geir Magnússon
Spáin fyrir enska - 18. sæti: Brighton
Lykilmaðurinn.
Lykilmaðurinn.
Mynd: Getty Images
Knattspyrnustjórinn Chris Hughton.
Knattspyrnustjórinn Chris Hughton.
Mynd: Getty Images
Anthony Knockaert.
Anthony Knockaert.
Mynd: Getty Images
Glenn Murray.
Glenn Murray.
Mynd: Getty Images
Flautað verður til leiks í ensku úrvalsdeildinni á föstudagskvöld. Í vikunni kynnum við liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Brighton & Hove Albion eru mættir upp í efstu deild.

Lokastaða síðasta tímabils: 2. sæti í Championship
Markahæstur á síðasta tímabili: Glenn Murray (23)

Leiðin frá botninum
Brighton hefur klifrað frá botninum og upp í efstu deild. Framtíð félagsins var í mikilli óvissu þegar það varð heimilislaust 1997 en dyggir stuðningsmenn komu til bjargar.

Liðið var nálægt því að falla úr ensku deildakeppninni en hefur nú klifrað upp í deild þeirra bestu. Brighton stuðningsmaðurinn og pókerspilarinn Tony Bloom varð stjórnarformaður félagsins 2009 og hefur nútímavætt það. 2011 flutti það á glæsilega Amex leikvanginn og nýtt æfingasvæði var tekið í gagnið.

Stórt markmið náðist þegar Brighton komst upp í úrvalsdeildina á síðasta tímabili og innileg fagnaðarlæti brutust út meðal stuðningsmanna.

Frakkinn Anthony Knockaert var valinn leikmaður ársins hjá félaginu enda algjör burðarás í sóknarspilinu. Hann fær nú annað tækifæri til að skína á stóra sviðinu.

Árið 2014 vann Knockaert Championship-deildina með Leicester en spilaði aðeins 330 mínútur í úrvalsdeildinni undir stjórn Nigel Pearson. Hann hafnaði nýjum samningi hjá Leicester fyrir frægt Englandsmeistaratímabil félagsins.

Stjórinn: Chris Hughton
Hughton er í gríðarlega miklum metum hjá Brighton og hefur tekist að skapa mjög jákvætt andrúmsloft innan liðsins. Tók við Brighton í desember 2014 en hann stýrði áður Newcastle, Birmingham og Norwich. Brighton hefur gæði til að halda sér uppi en fallbarátta er þó líkleg.

Hvað þarf að gerast?
Burnley sýndi það á síðasta tímabili hverju öflugur heimavöllur geta skilað, liðið hélt sér uppi þrátt fyrir að vinna bara einn útileik. Brighton gæti leikið það eftir en liðið vann flesta leiki allra liða á heimavelli sínum í Championship-deildinni og fékk fæst mörk á sig. Liðið hefur nóg af leikmönnum í kringum þrítugt og með Glenn Murray, Steve Sidwell og Bruno fyrirliða er reynsluleysi ekki vandamálið.

Lykilmaður: Lewis Dunk
Það reyndist Brighton gríðarlega mikilvægt að halda varafyrliðanum en Crystal Palace reyndi að fá hann í sínar raðir í fyrra. Vel spilandi miðvörður sem er mikilvægur hlekkur í vonum Brighton í að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni.

Fylgist með: Glenn Murray
Þessi 33 ára sóknarmaður var markakóngur Brighton á síðasta tímabili. Iðinn við markaskorun í Championship en hefur átt í meiri erfiðleikum gegn úrvalsdeildarvarnarmönnum. Hann vonast til að finna taktinn sem skilaði honum sjö mörkum í ellefu leikjum fyrir Crystal Palace 2015.

Komnir:
Pascal Gross (Ingolstadt)
Josh Kerr (Celtic)
Mathew Ryan (Valencia)
Markus Suttner (Ingolstadt)
Mathias Normann (FK Bodö/Glimt)
Izzy Brown (Chelsea) Lán
Steven Alzate (Leyton Orient)
Ales Mateju (Viktoria Plzen)
Davy Propper (PSV Eindhoven)

Farnir:
Elvis Manu (Genclerbirligi SK)
Jordan Maguire-Drew (Lincoln City)
Christian Walton (Wigan)
Oliver Norwood (Fulham) Lán

Þrír fyrstu leikir: Man City (H), Leicester (Ú) og Watford (Ú)

Stigagjöfin er reiknuð út frá þeirri formúlu sem gefin var upp þegar spáð var. Hún tengist á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10.?
11 ?
12. ?
13. ?
14. ?
15. ?
16. ?
17. ?
18. Brighton 31 stig
19. Huddersfield 24 stig
20. Swansea 16 stig

Spámennirnir: Alexander Freyr Einarsson, Arnar Geir Halldórsson, Bjarni Þórarinn Hallfreðsson, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson og Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson.
Athugasemdir
banner