Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
banner
   mán 06. ágúst 2018 19:38
Brynjar Ingi Erluson
Var Zlatan með Hamrén í vasanum?
Erik Hamrén og Zlatan Ibrahimovic á blaðamannafundi í Frakklandi
Erik Hamrén og Zlatan Ibrahimovic á blaðamannafundi í Frakklandi
Mynd: Getty Images
Hamrén og Zlatan áttu sérstakt samband
Hamrén og Zlatan áttu sérstakt samband
Mynd: Getty Images
Hamrén er umdeildur í Svíþjóð
Hamrén er umdeildur í Svíþjóð
Mynd: Getty Images
Erik Hamrén, fyrrum þjálfari sænska landsliðsins, er í viðræðum við KSÍ um að taka við liðinu en Heimir Hallgrímsson staðfesti eftir HM að hann yrði ekki áfram. Hann átti gott samband við Zlatan Ibrahimovic.

Það er þekkt saga í Svíþjóð er Lars Lagerbäck ákvað að senda þá Zlatan Ibrahimovic, Olof Mellberg og Christian Wilhelmsson heim úr æfingabúðum sænska landsliðsins í Gautaborg árið 2006. Það vakti mikla athygli að Lars hafi ákveðið að sýna þar lykilmönnum að þeir þyrftu einnig að framfylgja reglum.

Það fór allt á hina hliðina í Svíþjóð en Lars stóð við sína ákvörðun en Zlatan og félagar fóru út af liðshótelinu klukkan 23:55 og voru komnir aftur 1:15 að næturlagi en leikmennirnir voru að fagna afmæli Mellberg.

Svíar áttu leik við Lichtenstein og ljóst að þessir þrír leikmenn myndu ekki spila. Wilhelmsson og Mellberg ákváðu að bæta hegðun sína og snúa svo aftur í landsliðið en Zlatan var þó ekki sáttur.

Sport Express gerði könnun á því hvort Lars ætti að biðja Zlatan afsökunar á aðgerðum sínum en 56 prósent vildu að þjálfarinn myndi biðjast afsökunar.

Zlatan spilaði ekki aftur undir Lagerbäck fyrr en tæpu ári síðar eftir friðarviðræður milli hans, Mino Raiola, umboðsmanns Zlatan og Roland Andersson, sem var þá aðstoðarþjálfari Lars.

„Ég brást við orðinu „við" frá Lagerbäck. Hverjir í andskotanum eru „við"? Lagerbäck var þjálfarinn, þannig af hverju þurfti hann að fela sig á bakvið einhvern annan? Það hefði verið nóg fyrir hann að segja að hann hefði tekið ákvörðunina og þá hefði ég virt það. Ég pirraði mig bara á orðinu „við"," sagði Zlatan í ævisögu sinni um brottreksturinn úr landsliðinu.

Svíum mistókst að komast á HM 2010 í Suður-Afríku undir stjórn Lars og var hann látinn fara í kjölfarið. Zlatan lagði landsliðsskóna á hilluna en tók það upp aftur eftir að Erik Hamrén tók við liðinu árið 2010.

Zlatan hafði þó gagnrýnt Marcus Allbäck, sem var þá aðstoðarmaður Hamrén, áður en hann ákvað að spila aftur fyrir Svíþjóð.

„Ég veit ekki hversu alvarlegt þetta er. Allbäck hefur aldrei þjálfað áður, hann er enn að spila," sagði Zlatan um ráðninguna.

Sænska liðið var alltaf byggt í kringum Zlatan og ljóst að hann var í guðatölu og í raun ósnertanlegur. Sænska liðið treysti á að hann væri þessi X-faktor í leikjum, eitthvað sem hann kunni vel við. Það var ákveðið að hann væri lykllinn í 4-3-3 leikkerfinu hans Hamrén.

„Erik fer í þetta til að finna sigurformúlu. Hann er með sama hugarfar og ég. Auk þess hefur hann lofað mér medalíu. Nú hefst nýtt ævintýri en ég þekki 4-3-3 leikkerfið vel þar sem ég spila það hjá Barcelona," sagði Zlatan um Hamrén en þá var nokkuð ljóst að Hamrén vildi spila leikkerfið sem Zlatan kunni best við.

Sænski blaðamaðurinn Simon Bank, sem starfar hjá Aftonbladet, talaði um árangur Hamrén með Svía. Árangurinn talaði klárlega sínu máli, hann náði því besta úr Zlatan og hrósaði honum oftar en ekki í hástert.

Zlatan átti vissulega sín bestu ár undir stjórn Hamrén. Hann skoraði 40 mörk fyrir Hamrén, þar sem leikkerfið var byggt í kringum hann.

Bank er þó á þeirri skoðun að hugmyndafræði Hamrén hafi aðeins verið byggð á frammistöðu Zlatan.

„Hann týndi trúverðuleika sínum er leikmenn vissu ekki alveg hvert hann var að fara eða hver hugmyndafræði hans var. Þegar allt kemur til alls var hugmyndafræði Hamrén einföld, hún var Zlatan Ibrahimovic, en ekki mikið meira en það," sagði Bank.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner