Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
banner
   þri 05. mars 2024 11:30
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Gula spjaldið 
Gylfi að æfa með Fylki í endurhæfingunni á Spáni
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið á Spáni undanfarnar vikur í endurhæfingu undir handleiðslu Friðriks Ellerts Jónssonar sjúkraþjálfara.

Í hlaðvarpsþættinum Gula spjaldið er greint frá því að Gylfi hefur verið að mæta á æfingar með Fylki á Spáni en Árbæjarliðið er í æfingaferð rétt við Alicante.

Fjórir mánuðir eru síðan Gylfi spilaði síðast fótboltaleik en hann virðist vera að huga að endurkomu. Gylfi er félagslaus en hann rifti samningi sínum við Lyngby til að ná sér góðum af meiðslunum.

Íslenska liðið mætir Ísrael í fyrri umspilsleik um sæti í lokakeppni EM 2024 þann 21. mars. Sigurvegarinn í þeim leik mætir annað hvort Bosníu-Hersegóvínu eða Úkraínu 26. mars í úrslitaleik um sæti í lokakeppni EM í Þýskalandi.

Landsliðshópurinn verður kynntur í næstu viku og er talið ansi ólíklegt að Gylfi verði í hópnum. Age Hareide, þjálfari landsliðsins, ræddi við Vísi í lok febrúar um stöðuna á Gylfa og fyrirliðanum Aroni Einari Gunnarssyni.

„Hvorugur þessara leikmanna hefur verið að spila. Það væri því miklum vandkvæðum háð að velja þá. Menn verða að spila. Þeir hafa verið í meðferð við meiðslum. Ég held að Gylfi sé nær því að ná fullum bata en hann hefur ekkert spilað og það er aðalatriðið," sagði Hareide.

Gylfi hefur verið orðaður við Bestu deildina og þá helst Val en hann æfði með liðinu í fyrra, áður en hann gekk í raðir Lyngby.
Athugasemdir
banner
banner
banner