Man Utd skoðar það að fá Tuchel - Postecoglou fær fjármagn í sumar - Greenwood eftirstóttur á Englandi
   mán 19. febrúar 2024 14:50
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gylfi aftur orðaður við Val - „Myndi fagna því ef það yrði"
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sú saga heyrist núna aftur að Gylfi Þór Sigurðsson sé mögulega á leið í Val og muni spila með liðinu í Bestu deildinni í sumar.

Gylfi hefur undanfarið verið í endurhæfingu af meiðslum á Spáni. Hann hefur þar verið að æfa undir handleiðslu Friðriks Ellerts Jónssonar, fyrrum sjúkraþjálfara íslenska landsliðsins.

Gylfi er félagslaus en hann rifti samningi sínum við Lyngby til að ná sér góðum af meiðslunum. Lyngby býst við að fá hann aftur þegar hann nær sér af meiðslunum en hugsanlegt er að hann snúi frekar hér heim og fari í Val.

„Eins og menn vita af þá reyndum við að næla í hann á síðasta tímabili, en það gekk ekki. Ég hef ekki talað við hann en auðvitað væri gaman að sjá hann í Valstreyjunni á þessu ári. Þetta eru sögusagnir, en ég held að þetta sé eitthvað menn eru meira að láta sig dreyma um," sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, við Fótbolta.net í dag.

„Það væri mjög gaman ef hann myndi klára ferilinn á Íslandi en ég veit ekki hvort það sé inn í myndinni. Ég held að við séum ekki beint að bíða eftir því að hann verði næsta nafn hjá okkur, en auðvitað væri það æðislegt. Ég myndi fagna því ef það yrði."

Gylfi, sem er einn besti landsliðsmaður í sögu Íslands, sneri aftur í landsliðið fyrir gluggann í október í fyrra og bætti þá markametið er hann skoraði tvisvar í þægilegum sigri gegn Liechtenstein. Gylfi hafði byrjað fimm leiki í röð með félagsliði og landsliði þegar Lyngby mætti Vejle 12. nóvember, en þá var hann ekki í leikmannahópi liðsins. Síðan þá hefur hann ekkert spilað.
Athugasemdir
banner
banner
banner