Eins og staðan er núna er afar ólíklegt að Aron Einar Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson verði með íslenska landsliðinu þegar liðið mætir Ísrael í umspili fyrir EM í næsta mánuði.
Báðir eru þeir að glíma við meiðsli. Fjórir mánuðir eru síðan Gylfi spilaði síðast fótboltaleik en hann hefur undanfarið verið í endurhæfingu á Spáni.
Magne Hoseth, þjálfari Lyngby, sagði í gær að hann væri ekki að búast við því að Gylfi myndi snúa aftur til félagsins og framtíð hans er því í óvissu.
Aron spilaði síðast 29 mínútur með landsliðinu í nóvember en hann spilaði síðast fyrir félagslið sitt, Al Arabi í Katar, í apríl á síðasta ári. Aron sagði nýverið á Instagram að meiðslin sem hann væri að glíma væri þau erfiðustu á ferlinum.
Age Hareide, þjálfari landsliðsins, ræddi við Vísi um stöðuna á þessum tveimur leikmönnum sem spiluðu lykilhlutverk í því að Ísland komst á EM 2016 og HM 2018.
„Hvorugur þessara leikmanna hefur verið að spila. Það væri því miklum vandkvæðum háð að velja þá. Menn verða að spila. Þeir hafa verið í meðferð við meiðslum. Ég held að Gylfi sé nær því að ná fullum bata en hann hefur ekkert spilað og það er aðalatriðið," sagði Hareide en hann býst ekki við að velja þá nema þeir verði byrjaðir að spila.
Getur valið Albert aftur
Í sama viðtali ræddi Hareide um Albert Guðmundsson sem hann getur nú valið aftur í liðið eftir að kynferðisbrotamál gegn honum var látið falla niður. Albert hefur spilað frábærlega með félagsliði sínu Genoa á Ítalíu.
„Hann hefur spilað mjög vel á Ítalíu. Við höfum ekki getað valið hann vegna reglna KSÍ en núna hefur málinu verið vísað frá og það þýðir að ég get valið hann. Ég hef rætt við Albert um hans stöðu og hug eftir að hafa ekki mátt spila, og hann vill virkilega spila fyrir Ísland," segir Hareide.
Athugasemdir