Salah, Rashford, Guehi, Ten Hag, Dewsbury-Hall og fleiri í pakka dagsins
   sun 03. júní 2018 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
HM spáin: D-riðill - 3. sæti
Króatía
Mynd: Getty Images
Modric er stjarnan í þessu króatíska liði.
Modric er stjarnan í þessu króatíska liði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Króatar hafa miðju sem aðrir öfunda. Hér eru Modric og Rakitic í baráttu, en þeir spila með Real Madrid og Barcelona.
Króatar hafa miðju sem aðrir öfunda. Hér eru Modric og Rakitic í baráttu, en þeir spila með Real Madrid og Barcelona.
Mynd: Getty Images
Zlatko Dalic heitir þjálfari Króatíu.
Zlatko Dalic heitir þjálfari Króatíu.
Mynd: Getty Images
Ísland og Króatía þekkjast vel.
Ísland og Króatía þekkjast vel.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Ísland vann Króatíu í síðasta leik liðanna í júní. Hér má sjá Hörð Björgvin Magnússon fagna sigurmarki sínu.
Ísland vann Króatíu í síðasta leik liðanna í júní. Hér má sjá Hörð Björgvin Magnússon fagna sigurmarki sínu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Spá Fótbota.net fyrir HM heldur áfram í dag og núna er komið að riðli Íslands, D-riðlinum. Í þriðja sæti í spánni er lið sem Ísland þekkir alltof vel, Króatía.

Í D-riðli leika Argentína, Króatía, Ísland og Nígería.

Sjá einnig:
Spáin fyrir A-riðil
Spáin fyrir B-riðil
Spáin fyrir C-riðil

Í spá fyrir riðlakeppnina fékk Fótbolti.net góða álitsgjafa í bland við starfsmenn okkar til aðstoðar.

Í dag eru 11 dagar þangað til HM í Rússlandi hefst.

Spámenn Fótbolta.net: Cloe Lacasse, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Gunnar Logi Gylfason, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Mist Rúnarsdóttir, Natasha Moraa Anasi, Orri Rafn Sigurðarson, Sara Hrund Helgadóttir, Tryggvi Guðmundsson.

Liðin fengu stig frá 1-4 eftir því sem þeim var spáð í riðlinum. Mest var því hægt að fá 44 stig, minnst 11 stig.

Spá Fótbolta.net fyrir D-riðil:

1. sæti.
2. sæti.
3. sæti. Króatía, 25 stig
4. sæti. Nígería, 15 stig

Staða á heimslista FIFA: 18.

Um liðið: Króatar eru með frábært fótboltalið, lið sem við Íslendingar þekkjum alltof vel. Við mættum Króötum í umspili fyrir HM 2014, þar sem Króatía bar sigurorðið, við vorum með þeim í undankeppnini fyrir þetta Heimsmeistaramót og drógumst síðan í riðil með þeim á mótinu sjálfu. Ísland vann síðasta leik sinn við Króatíu og vonandi verður svipað upp á teningnum í Rússlandi.

Þjálfarinn: Zlatko Dalic mun stýra Króötum á HM. Dalic tók við Króatíu fyrir síðasta leik liðsins í undankeppninni gegn Úkraínu. Dalic náði að stýra liðinu til sigurs í þeim leik og umspilið var niðurstaðan. Þar vann Króatía Grikkland í tveggja leikja einvígi og fékk Dalic samning eftir það.

Sjá einnig:
Modric varð að ósk sinni - Dalic verður á HM

Dalic byrjaði þjálfaraferil sinn hjá Varteks í Króatíu árið 2005, en hefur þjálfað í Mið-Austurlöndum frá 2010. Hann þjálfaði til að byrja með í Sádí-Arabíu en frá 2014 hafði hann þjálfað Al-ain í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Árangur á síðasta HM: Féllu út í riðlakeppninni.

Besti árangur á HM: Þriðja sætið árið 1930 sem Júgóslavía og þriðja sæti sem Króatía árið 1998.

Leikir á HM 2018:
16. júní, Króatía - Nígería (Kalíníngrad)
21. júní, Argentína - Króatía (Nizhny Novgorod)
26. júní, Ísland - Króatía (Rostov-On-Don)

Af hverju Króatía gæti unnið leiki: Þeir eru með frábæra leikmenn sem spila í bestu liðum Evrópu. Miðjan hjá Króatíu er sérstaklega sterk, ein sú besta á mótinu, með Rakitic og Luka Modric sem spila með Barcelona og Real Madrid. Þeir tveir, Rakitic og Modric munu skipta miklu máli í baráttu Króatíu að komast áfram, sem og Mario Mandzukic í fremstu víglínu.

Króatía er með leikmenn í heimsklassa og getur unnið hvaða lið sem er á sínum degi. Flestir leikmannana spila í stórliðum á Evrópu og pressan á HM ætti ekki að reynast of mikil.

Af hverju Króatía gæti tapað leikjum: Það er einhver ástæða fyrir því að Króatía lenti fyrir neðan Ísland í undankeppninni. Á vellinum er varnarleikurinn líklega veikasti hlekkurinn hjá Króötum en í sókninni geta þeir orðið óþolinmóðir gegn liðum eins og Íslandi og Nígeríu. Það sást í undankeppninni hér á Laugardalsvelli þar sem Ísland vann 1-0.

Sjá einnig:
Undankeppni HM: Ísland með ótrúlegan sigur á Króatíu

Króatarnir geta verið kokhraustir þegar þeir mæta minni liðum og það hefur áður orðið þeim að falli. Þjálfarinn er þá ekki hinn reynslumesti í bransanum, það er ekki mikið vitað um hann.

Stjarnan: Luka Modric. Einn besti miðjumaður heims, ef ekki sá besti. Er orðinn 32 ára gamall, en það hefur lítið hægst á honum. Hann er potturinn og pannan í liði Real Madrid og hefur átt stóran þátt í velgengni liðsins undanfarin ár. Hann er með fyrirliðabandið hjá Króatíu og er hann sá leikmaður sem ungir króatískir fótboltamenn líta upp til.

Modric leikið 104 landsleiki fyrir Króatíu og skorað í þeim 12 mörk. Við Íslendingar höfum mætt honum nokkrum sinnum og höfum oftar en ekki lokað vel á hann og hans gæði, nú síðast í Laugardalnum í júní. Modric er að fara að leika á sínu þriðja HM, en hann spilaði einnig í Þýskalandi 2006 og Brasilíu 2014.

Sjá einnig:
Það sem Modric sagði eftir tap gegn Íslandi í júní 2017.

Modric er tengdur í mikið vafamál í heimalandinu. Zdravko Mamic, fyrrum framkvæmdastjóra Dinamo Zagreb, er sakaður um spillingu, en Modric bar vitni í máli hans. Modric er sakaður um að hafa logið í vitnastúkunni og voru króatískir stuðningsmenn reiðir út í hann enda er Mamic mjög umdeildur. Vonandi fyrir Ísland truflar þetta Modric eitthvað.

Fylgstu með: Marcelo Brozovic fær ekki jafnmikla athygli og leikmenn eins og Modric, Rakitic og Perisic, en hann er leikmaður sem ber að varast og það vita Íslendingar. Leikmaður Inter sem skoraði bæði mörk Króatíu í 2-0 sigri á Íslandi þegar liðin mættust út í Króatíu í undankeppninni.

Líklegt byrjunarlið að mati Yahoo Sports (4-3-3): Danijel Subasic; Sime Vrsaljko, Demagoj Vida, Dejan Lovren, Ivan Strinic; Marcelo Brozovic, Ivan Rakitic, Luka Modric; Ivan Perisic, Nikola Kalinic, Mario Mandzukic.

Leikmannahópurinn:
Króatar hafa valið 24 manna hóp. Hann verður minnkaður um einn í síðasta lagi á morgun.

Markverðir: Danijel Subasic (Mónakó), Lovre Kalinic (Gent), Dominik Livakovic (Dinamo Zagreb)

Varnarmenn: Vedran Corluka (Lokomotiv Moskva), Domagoj Vida (Besiktas), Ivan Strinic (Sampdoria), Dejan Lovren (Liverpool), Sime Vrsaljko (Atletico Madrid), Josip Pivaric (Dinamo Kiev), Tin Jedvaj (Bayer Leverkusen), Matej Mitrovic (Club Brugge), Duje Caleta-Car (Salzburg)

Miðjumenn: Luka Modric (Real Madrid), Ivan Rakitic (Barcelona), Mateo Kovacic (Real Madrid), Milan Badelj (Fiorentina), Marcelo Brozovic (Inter Milan), Filip Bradaric (Rijeka)

Sóknarmenn: Mario Mandzukic (Juventus), Ivan Perisic (Inter Milan), Nikola Kalinic (AC Milan), Andrej Kramaric (Hoffenheim), Marko Pjaca (Schalke), Ante Rebic (Eintracht Frankfurt).
Athugasemdir
banner
banner
banner