Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   fös 15. júlí 2016 17:45
Arnar Daði Arnarsson
Kvennaboltinn
Best í 8. umferð: Stirrð og stíf en það er ekkert nýtt
Arna Sif Ásgrímsdóttir - Valur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Instagram
„Þetta var gríðalega sannfærandi sigur," sagði varnarmaðurinn Arna Sif Ásgrímsdóttir, leikmaður Vals.

Arna Sif er leikmaður 8. umferðar í Pepsi-deild kvenna hjá Fótbolta.net en hún skoraði tvívegis og var ekki í neinum vandræðum varnarlega í 5-0 sigri gegn Selfossi.

Verið klaufar upp við markið
„Við lögðum leikinn vel upp og gerðum það sem við vorum beðnar um að gera. Vorum að halda bolta vel, nýta færin, gefa fá færi á okkur og verjast vel. Við vorum að mínu mati yfir á flestum sviðum," sagði Arna Sif sem var ánægð með hvað liðið náði að láta boltann rúlla vel á milli manna.

„Við vorum að finna hvor aðra í fætur og síðan nýttum við færin okkar. Við höfum stundum verið klaufar upp við markið," sagði Arna Sif sem var ánægð með sína spilamennsku í leiknum.

„Það er alltaf gaman að skora og halda hreinu. Sem varnarmaður er það ein besta tilfinning í heimi. En það er líka alltaf hægt að gera betur. Það vantar ennþá smá uppá minn leik, en það kemur," sagði Arna Sif sem var að glíma við meiðsli fyrir tímabilið og er ný byrjuð að spila aftur.

„Ég er búin að leggja mikið á mig og vera mjög dugleg síðan ég mátti byrja að æfa af viti aftur. Formið er fínt en það vantar aðeins uppá spilaform og svona litla hluti sem koma bara með meiri spiltíma. Ég er nokkurnveginn búin að ná upp fyrri styrk. Ég hef ekkert fundið til sem er frábært. Maður er kannski bara smá stirrður og stífur. En það er svosem ekkert nýtt."

Með splunkunýtt lið
Með sigrinum á Selfossi er Valsliðið á fínu flugi í deildinni og hafa nú unnið þrjá leiki í röð.

„Við erum nánast með splunkunýtt lið og þurftum aðeins að fá að spila okkur saman. Maður finnur það líka á æfingum. Gæðin eru alltaf að verða meiri. Þetta er alltaf að verða betra og betra," sagði Arna sem var ein af fjölmörgum leikmönnum sem gengu til liðs við Vals í vetur. Hún lék í Svíþjóð og ákvað í vetur að koma aftur heim til Ísland. Henni líkar vel á Hlíðarenda.

„Valur er stór og flottur klúbbur með mikinn metnað. Hér er góð aðstaða og gott umhverfi til að bæta sig í fótbolta. Við erum með frábæran hóp. Ég hef ekki yfir neinu að kvarta."

Valsstelpur fara í Kópavoginn í næstu umferð og mæta þar Breiðablik í toppslag deildarinnar. Með sigri geta Valsstelpur jafnað Breiðablik að stigum.

„Við förum inn í þann leik eins og alla hina. Sjáum hverju það skilar okkur," sagði leikmaður 8. umferðar, Arna Sif Ásgrímsdóttir að lokum.

Verbúð 11 gefur verðlaun
Leikmaður umferðarinnar í Pepsi-deild kvenna fær 15 þúsund króna gjafabréf frá veitingastaðnum Verbúð 11 sem og kassa af Pepsi Max.

Sjá einnig:
Leikmaður 7. umferðar - Írunn Þorbjörg Aradóttir (Þór/KA)
Leikmaður 6. umferðar - Elín Metta Jensen (Valur)
Leikmaður 5. umferðar - Berglind Hrund Jónasdóttir (Stjarnan)
Leikmaður 4. umferðar - Hallbera Guðný Gísladóttir (Breiðablik)
Leikmaður 3. umferðar - Lauren Elizabeth Hughes (Selfoss)
Leikmaður 2. umferðar - Jeannette Williams (FH)
Leikmaður 1. umferðar - Harpa Þorsteinsdóttir (Stjarnan)
Athugasemdir
banner
banner