Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   sun 08. janúar 2023 10:45
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Blæs á sögusagnir um fjárhagsörðugleika í Keflavík
Margir burðarásar horfnir á braut
Sigurður Garðarsson, formaður Keflavíkur.
Sigurður Garðarsson, formaður Keflavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markvörðurinn Sindri Kristinn Ólafsson er einn af þeim lykilmönnum sem eru farnir frá Keflavík.
Markvörðurinn Sindri Kristinn Ólafsson er einn af þeim lykilmönnum sem eru farnir frá Keflavík.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Joey Gibbs fór frá Keflavík í Stjörnuna.
Joey Gibbs fór frá Keflavík í Stjörnuna.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keflvíkingar hafa misst marga lykilmenn frá sér í vetur og stuðningsmenn hafa áhyggjur af stöðu mála. Háværar sögusagnir hafa verið í gangi um erfiða fjárhagsstöðu Keflavíkur og útvarpsþátturinn Fótbolti.net fékk Sigurð Garðarsson, formann knattspyrnudeildar félagsins, í þáttinn til að svara fyrir þessar sögur.

„Fjárhagsstaðan er bara góð, eins og eðlilegt er hjá íslenskum fótboltafélögum þá gengur tímabilið út á það að jafna greiðslustöðuna; hvenær eigum við fyrir því sem við erum búnir að skuldbinda okkur til. Við verðum skuldlausir við alla á réttum tíma og það eru engin vandamál þar. Við höfum ekki spennt okkur lengra en við höfum ráðið við," segir Sigurður.

„Fjárhagsstaðan er fín, við viljum hinsvegar hafa sterkari fjárhag. Þegar þjálfarinn okkar ræddi um fjárhag félagsins í lok tímabilsins var hann að tala um að við myndum vilja hafa sterkari fjárhag til að geta ráðið við stærri verkefni og tekið að okkur dýrari leikmenn. Það er það sem hann átti við."

Erfiðast að horfa á eftir uppöldum leikmönnum
Níu leikmenn sem léku fyrir Keflavík í Bestu deildinni í fyrra eru farnir frá félaginu og enginn er kominn í staðinn. Af þeim sem eru farnir eru fjórir erlendir leikmenn; Dani Hatakka (fór í FH), Joey Gibbs (í Stjörnuna), Patrik Johannesen (í Breiðablik) og Kian Williams (til Kanada).

„Í okkar starfi og í minni tíð höfum við lagt áherslu á uppbyggingu, byggt innan frá og reynt að lágmarka útgjöld við erlenda verktaka utan frá. Þessi staða varðandi leikmannamálin endurspeglast að stórum hluta að því, hluti af þessum mönnum eru aðkeyptir leikmenn sem eru ekki hluti af uppeldisstarfinu okkar. Þeir koma og fara og munu alltaf koma og fara. Þar koma menn í manns stað og sú vinna er bara í gangi að reyna að finna einhverja til að taka við af þeim," segir Sigurður.

„Erfiðast er að horfa á eftir uppöldum leikmönnum fara og illskiljanlegt þegar þeir eru að fara til liða sem eru í svipaðri stöðu og við erum í. Að þeir vilji ekki launa félaginu til baka það sem er lagt í þá. Ég skil hinsvegar þá leikmenn sem vilja sækja á vit ævintýranna og fara í atvinnumennsku. Við styðjum þá, Keflavík er vettvangur til að koma sér á framfæri og það hefur sýnt sig."

Markvörðurinn Sindri Kristinn Ólafsson yfirgaf Keflavík og fór í FH en FH hafnaði í 10. sæti í fyrra, þremur sætum neðar en Keflavík. Rúnar Þór Sigurgeirsson hélt hinsvegar út og samdi við Öster.

Siggi Raggi með fjármagn til að geta fyllt í skörð þeirra burðarása sem eru farnir
Sigurður segir að Keflavík sé með bolmagn til að styrkja leikmannahóp sinn og segir að fjárhagurinn sé sá sami, og mögulega sterkari, en félagið hafði á liðnu ári. Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, og hans menn séu að vinna í þeim málum núna.

Í þættinum er hann spurður að því hvort Siggi Raggi sé ánægður með það fjármagn sem hann hafi milli handanna til að smíða saman lið?

„Hefurðu hitt þjálfara sem er ánægður með budgetið sitt? Hann mun aldrei verða ánægður með budgetið en hann vinnur með okkur og þetta er samvinna. Þjálfarinn þarf að vinna með stjórninni og starfsmönnum," segir Sigurður Garðarsson.

En teljið þið ykkur hafa budget til að fylla í skörð þeirra burðarása sem eru farnir?

„Já klárlega, algjörlega. Við höfum mörg járn í eldinum þar sem verið er að vinna í. Bæði innanlands og erlendis. Það þarf svolítið að fara út fyrir landsteinana til að fá menn í gæðaflokki miðað við kostnað. Því miður er það þannig á Íslandi. Ég vildi gjarnan hafa fleiri uppalda leikmenn en miðað við liðin sem við erum að keppa við þá þurfum við að jafna þau líka. Annars sitjum við eftir og förum niður um deild."

Umræðan verið spuni
Það er mikið hark að reka fótboltafélög á Íslandi. Sigurður var spurður að því hvernig Keflavík hefði gengið að greiða laun á síðasta ári?

„Ég er ekki ofan í fjármálum annarra en ég held að þetta sé svipað og hjá öðrum félögum. Stundum erum við eftir í greiðslum en við höfum aldrei gengið frá neinum málum án þess að standa við allar okkar skuldbindingar. Við erum að gera það og munum gera það. Allir starfsmenn, þjálfarar eða leikmenn hafa eða eru um það bil að fá greiðslur," segir Sigurður.

„Það er enginn bilbugur á okkur og öll þessi umræða um fjárhag Keflavíkur hefur meira og minna verið spuni. Við erum í flottum málum og munum verða það."

Sjá eftir Joey Gibbs
Aftur í leikmannamálin. Sigurður viðurkennir að þó hann telji fjárhagsstöðuna góða þá vissulega vildi hann vera á betri stað með hópinn eins og staðan er núna. Hann er þó bjartsýnn á að það horfi til betri vegar á komandi vikum.

Hann segir að félagið hafi reynt að halda bæði markaskoraranum Joey Gibbs og varnarmanninum Hatakka. Gibbs fékk tímabundið leyfi frá Keflavík á síðasta tímabili og greinilegt að Sigurður er svekktur yfir því að hann hafi svo yfirgefið félagið. Báðir fengu tilboð um nýjan samning.

„Þú verður að spyrja þá af hverju þeir fóru, við höfðum áhuga á að halda þeim. Við sjáum eftir Joey Gibbs því við gáfum honum ansi mikinn slaka á síðasta tímabili. Það var mikið af hvísli í kringum það en við vorum bara góðir við hann. Hann var að eignast sitt fyrsta barn og vildi eyða tíma með konunni sinni og við sýndum því skilning, en fáum þetta til baka," segir Sigurður.

„En þetta er fótboltinn í dag. Ég er af þeirri kynslóð að allt var unnið í sjálfboðavinnu, leikmenn voru í sjálfboðavinnu. Leikmenn gerðu allt fyrir félagið og fyrir merkið. En í dag er þetta orðinn annar bransi. Þetta er farið að snúast um kaup og sölur en fyrir mér er fótboltinn bara ástríða."

Það verður stórt verkefni fyrir Keflavík að fylla í skörð þeirra sem eru farnir og landa leikmönnum í sama gæðaflokki. Keflavík var spáð neðsta sæti í ótímabæru spánni í útvarpsþættinum en Sigurður segir að verkefni næsta tímabils verði að tryggja áframhaldandi veru í deildinni og spila skemmtilegan fótbolta.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni í þættinum en þar fer hann einnig út í hina viðkvæmu umræðu um mögulega sameiningu félaga á Suðurnesjum, baráttu um styrktaraðila, árangur síðasta tímabils og fleira.
Útvarpsþátturinn - Flóttinn frá Keflavík og ótímabæra spáin
Athugasemdir
banner
banner
banner