Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   fös 15. mars 2024 18:28
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Ekki eins og kind sem gengur um og segir ekki neitt"
Icelandair
Ísland mætir Ísrael í næstu viku.
Ísland mætir Ísrael í næstu viku.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands.
Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska landsliðið fagnar marki.
Íslenska landsliðið fagnar marki.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Íslenska landsliðið mætir Ísrael í Búdapest í undanúrslitum umspilsins um sæti í lokakeppni EM 2024 þann 21. mars, fimmtudagskvöldið í næstu viku.

Sigurvegarinn í þeim leik mætir annað hvort Bosníu-Hersegóvínu eða Úkraínu 26. mars í hreinum úrslitaleik um sæti í lokakeppni EM í Þýskalandi.

Landsliðshópurinn fyrir þetta verkefni var tilkynntur í dag og í kjölfarið sat Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, fyrir svörum á fréttamannafundi. Hareide var spurður út í leikinn sem er framundan gegn Ísrael en hann býst við jöfnum leik þar. Leikurinn fer ekki fram í Ísrael út af stríðsástandinu þar.

„Ég hef ekkert á móti því að spila í Ísrael þannig séð en ég vildi óska þess að það rólegt og friðsælt þar. Þá gætum við spilað í Ísrael," sagði Hareide á fundinum.

„Þetta er 50/50 leikur. Við þurfum að vera klárir til að finna leikinn og við þurfum að finna veikleikana í liði Ísrael. Við þurfum að vera rólegir og sterkir í hausnum. Við þurfum að leggja mikið á okkur til að komast í gegn. Ég hef séð það áður frá íslenskum leikmönnum hvað hjartað er sterkt og hvað hausinn er sterkur. Við þurfum að minna alla á það. Þá eigum við mjög góðan möguleika."

„Við erum með skýrt plan og ég hef undirbúið þennan leik með sama leikgreinanda og ég var með í danska landsliðinu. Við höfum stúderað Ísrael mjög vel. Þeir eru með styrkleika og veikleika. Núna þurfum við að undirbúa okkur og hafa trú. Það er mikilvægt í fótboltanum."

Hræddur um stöðuna í heiminum
Hareide var á fundinum spurður út í stríðsástandið í Ísrael og tjáði sig aðeins um það. Hann var gagnrýndur í Ísrael á dögunum fyrir það að segjast hikandi við að spila gegn þjóðinni í fótbolta vegna þeirra átaka sem eru núna á Gasa. Fótboltaþjálfarinn Avram Grant var á meðal þeirra sem gagnrýndu Norðmanninn.

Hareide sagði í viðtali við Vísi: „En ef þú spyrð mig persónulega þá myndi ég hika við að spila við Ísrael, eins og staðan er núna. Vegna þess sem er í gangi á Gasa, og vegna þess sem þeir hafa gert við konur, börn og aðra saklausa borgara. Það ætti ekki að vera gert, og við ættum ekki að vera að spila þennan leik ef þú spyrð mig. En við verðum að spila því afleiðingarnar yrðu svo miklar fyrir Ísland ef við gerðum það ekki."

Á fundinum í dag sagði hann svo:

„Ég er frá Skandinavíu og ég er alinn upp við það að þú megir hafa skoðanir á hlutunum. Ég er ekki eins og kind sem gengur um og segir ekki neitt. Þetta er afar erfitt mál þar sem þessi átök hafa staðið yfir lengi."

Hareide segir að staðan sé erfið og kallar hann eftir frið í þessum átökum á milli Ísrael og Palestínu á Gasa.

„Ég er fótboltaþjálfari en mér finnst þessi staða óþægileg. En við erum að spila gegn fótboltamönnum, ekki hermönnum. Fótbolti er íþrótt og við þurfum að sýna íþróttamennsku, en við þurfum líka að vera meðvituð um það sem er í gangi í heiminum. Ég er hræddur um stöðuna í heiminum."
Athugasemdir
banner
banner