Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   þri 16. júní 2020 17:15
Fótbolti.net
Spá þjálfara í 3. deild: 1-3. sæti
KV er spáð efsta sætinu í 3. deildinni í sumar.  Myndin er úr leik liðsins gegn Kára í Mjólkurbikarnum á dögunum.
KV er spáð efsta sætinu í 3. deildinni í sumar. Myndin er úr leik liðsins gegn Kára í Mjólkurbikarnum á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hrannar Bogi Jónsson fyrirliði Augnabliks.
Hrannar Bogi Jónsson fyrirliði Augnabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Brynjar Árnason (til hægri) er lykilmaður hjá Hetti.
Brynjar Árnason (til hægri) er lykilmaður hjá Hetti.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Keppni í 3. deild karla hefst á fimmtudaginn. Fótbolti.net fékk þjálfarana í deildinni til að spá fyrir um lokastöðuna.

Hver þjálfari skilaði inn spá 1-11 og sleppti sínu liði. Hér að neðan má sjá liðin sem enduðu í efstu þremur sætunum í spánni.

Sjá einnig:
Spá þjálfara í 3. deild karla - 4-6. sæti
Spá þjálfara í 3. deild karla - 7-9. sæti
Spá þjálfara í 3. deild karla - 10-12. sæti

1. KV 118 stig
Sæti í fyrra: 3. sæti í 3. deild
Eftir nokkur ár í 2. deildinni og stopp í 1. deild árið 2014 þá hallaði undan fæti hjá KV og liðið féll í 3. deild árið 2017. Knattspyrnufélag Vesturbæjar hefur verið að ná vopnum sínum á ný og í fyrra blandaði liðið sér í baráttuna um að fara upp. Reynsluboltinn Sigurvin Ólafsson er núna á sínu öðru ári sem þjálfari en hann hefur komið sínu handbragði á liðið og KV spilar flottan fótbolta. Í liðinu má finna unga og efnilega leikmenn í bland við leikmenn sem eiga mörg tímabil að baki í meistaraflokki. Varnarmaðurinn reyndi Grétar Sigfinnur Sigurðarson hefur meðal annars spilað með KV á undirbúningstímabilinu. KV er spáð sigri í deildinni í sumar og ef liðið byggir ofan á spilamennskuna í fyrra þá gæti sú spá átt eftir að rætast.
Lykilmenn: Einar Már Þórisson, Ingólfur Sigurðsson, Njörður Þórhallsson.
Þjálfarinn segir - Sigurvin Ólafsson
„Að okkur sé spáð 1. sæti kemur mér ekki á óvart, maður hafði heyrt að orðið á götunni væri einhvern veginn á þessa leið. Ég held þó að menn renni nokkuð blint í sjóinn með spádóma um gengi þessara liða enda erfitt eða ómögulegt að meta hvernig flest af liðum 3. deildar líta út eða hvernig þau eru eða verða mönnuð í sumar. Að vera spáð 1. sæti er fyrir mig gleðiefni, það setur jákvæða pressu á mig og mína menn. Það staðfestir líka að álit annarra á KV hefur skánað verulega á síðustu tveimur árum, okkur var spáð falli fyrir tveimur árum og fimmta sæti í fyrra. Markmiðið er einfalt, það er að ná í nægilega mörg stig til að komast upp úr deildinni. Varðandi frekari liðsstyrk þá er hópurinn eins og er breiður og sterkur. Sem fyrr erum við hins vegar alltaf opnir fyrir að bæta góðum mönnum í hópinn, en þeir þurfa þá að vera ansi liprir og reiðubúnir að leika af ástríðu en ekki fyrir budduna."

2. Augnablik 104 stig
Sæti í fyrra: 9. sæti í 3. deild
Augnablik endaði einungis einu stigi frá fallsvæðinu í fyrra og falldraugurinn bankaði hressilega upp á í Kópavoginum. Jökull Elísabetarson er áfram þjálfari liðsins en þónokkrar breytingar eru á leikmannahópnum. Gamlar kempur sem hafa spilað með liðinu undanfarin ár eru farnar í Smára, nýtt lið í 4. deildinni. Augnablik hefur á sama tíma aukið samstarfið við Breiðablik og ungir og efnilegir leikmenn sem hafa æft með meistaraflokki Blika fá reynslu af meistaraflokki með Augnabliki í sumar. Liðið hefur æft vel og þessir ungu og efnilegu leikmenn gætu komið Augnablik upp um deild í sumar. Breiðablik vill sjá þetta venslafélag sitt komast upp í 2. deild og það er markmiðið í Kópavoginum.
Lykilmenn: Breki Barkarson, Þorleifur Úlfarsson og Brynjar Óli Bjarnason
Þjálfarinn segir - Jökull Elísabetarson
„Spáin er í takt við annað sem maður hefur heyrt og lesið. Markmiðið er að vinna deildina. Við munum ekki sækja liðstyrk annað en þá leikmenn sem við höfum aðgang að nú þegar."

3. Höttur/Huginn 88 stig
Sæti í fyrra: 6. sæti í 3. deild
Austanliðin Höttur og Huginn féllu bæði úr 2. deildinni árið 2018 og ákváðu í kjölfarið að sameinast. Markið var sett hátt í fyrra en eftir dapra byrjun náði sameinað lið aldrei að blanda sér í toppbaráttuna. Meiri bjartsýni er fyrir Austan í ár en Viðar Jónsson er á sínu öðru ári sem þjálfari liðsins. Tveir erlendir leikmenn hafa gengið til liðs við félagið vetur sem og Eiríkur Þór Bjarkason, markakóngur í 4. deildinni í fyrra. Sigur á 2. deildarliði Fjarðabyggðar í Mjólkurbikarnum um síðustu helgi gefur góð fyrirheit fyrir sumarið. Höttur/Huginn vill komast aftur upp í 2. deildina og liðið er líklegt til að gera alvöru atlögu að því í sumar.
Lykilmenn: Brynjar Árnason, Ferran Garcia Castellanos, Steinar Aron Magnússon.
Þjálfarinn segir - Viðar Jónsson
„Spáin er raunhæf að mínu mati. Það verða nokkur lið í baráttunni og markmiðið er klárlega að vera eitt af þeim en við gerum okkur grein fyrir því að deildin er erfið og ekkert gefið. Við komum til með að missa leikmann/menn þegar það líður á tímabilið og mögulega fyllum við þau skörð þegar að því kemur. Við erum með marga unga og efnilega leikmenn sem koma til með að fá tækifæri í bland við reynslubolta. Ég er spenntur fyrir því sem koma skal og vona að fólk fjölmenni á völlinn."

Lokastaðan í spánni
1. KV 118 stig
2. Augnablik 104 stig
3. Höttur/Huginn 88 stig
4. Reynir S. 86 stig
5. KFG 71 stig
6. Tindastóll 65 stig
7. Álftanes 63 stig
8. Einherji 55 stig
9. Vængir 44 stig
10. Sindri 38 stig
11. Ægir 37 stig
12. Elliði 23 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner