Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
banner
   mán 15. júní 2020 17:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara í 3. deild: 4-6. sæti
Fufura mun styrkja sóknarleikinn hjá Reynismönnum mikið.
Fufura mun styrkja sóknarleikinn hjá Reynismönnum mikið.
Mynd: Reynir Sandgerði
Kristján Másson og Björn Másson tóku við liði KFG í vetur.
Kristján Másson og Björn Másson tóku við liði KFG í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik hjá Tindastóli.
Úr leik hjá Tindastóli.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Keppni í 3. deild karla hefst á fimmtudaginn. Fótbolti.net fékk þjálfarana í deildinni til að spá fyrir um lokastöðuna.

Hver þjálfari skilaði inn spá 1-11 og sleppti sínu liði. Hér að neðan má sjá liðin sem enduðu í 4-6. sæti í spánni en fleiri lið birtast næstu dagana.

4. Reynir S. 86 stig
Sæti í fyrra: 5. sæti í 3. deild
Sandgerðingar komu aftur í 3. deildina í fyrra eftir stutt stopp í 4. deildinni. Í fyrra náðu Reynismenn ekki að blanda sér af alvöru í baráttuna um sæti í 2. deildinni en metnaðurinn í Sandgerði er mkikill og stefnt er á toppbaráttu í ár. Haraldur Freyr Guðmundsson hefur haldið vel utan um stjórnartaumana í Sandgerði og margir öflugir leikmenn eru hjá liðinu. Markaskorun ætti ekki að vera vandamál en Elton Barros, Fufura, kom frá Keflavík í vetur og fyrir er á svæðinu reynsluboltinn Hörður Sveinsson. Fufura hefur skorað sex mörk í fyrstu tveimur leikjum Reynis í Mjólkurbikarnum. Þá hefur Guðmundur Gísli Gunnarsson tekið fram skóna en þar er á ferðinni öflugur leikmaður sem hefur verið drjúgur fyrir Reynismenn í gegnum tíðina. Markvörðurinn Rúnar Gissurason fór hins vegar í Njarðvík og hann skilur eftir sig stórt skarð.
Lykilmenn: Elton Barros, Strahinja Pajic og Guðmundur Gísli Gunnarsson.
Þjálfarinn segir - Haraldur Freyr Guðmundsson
„Spáin kemur svo sem ekkert á óvart, við enduðum í 5. Sæti og markmiðin okkar fyrir þetta tímabil eru að gera betur en í fyrra og reyna að vera með í baráttunni um að fara upp um deild en það eru mörg góð lið í deildinni sem hafa styrkt sig og ætla sér upp þannig að það verður erfitt en ekki ógerlegt verkefni. Leikmannahópurinn er svo að segja klár og á ég ekki vona á frekari liðstyrk."

5. KFG 71 stig
Sæti í fyrra: 11. sæti í 2. deild
KFG spilaði í fyrsta skipti í 2. deild í fyrra en á endanum varð fall niðurstaðan. Lárus Guðmundsson, stofnandi og þjálfari KFG í áraraðir, ákvað að stíga til hliðar í vetur og tvíburabræðurnir Kristján og BJörn Mássynir stýra liðinu í sumar eftir að hafa verið með Lárusi undanfarin ár. Nokkrar breytingar eru á leikmannahópnum á milli ára en í liði KFG má finna öfluga leikmen sem hafa spilað áður í efri deildum. Kári Pétursson kom meðal annars frá HK á dögunum og mikið mun mæða á honum í sóknarleiknum í Garðabæ í sumar. Þá er þýski miðjumaðurinn Simon Sperl væntanlegur til liðsins í vikunni en möguleiki er á ennþá frekari liðsstyrk á næstunni. Markmiðið hjá KFG er líkt og hjá mörgum öðrum liðum að fara upp um deild í sumar.
Lykilmenn: Birgir Rafn Baldursson, Kári Pétursson, Þórhallur Kári Knútsson.
Þjálfarinn segir - Björn Másson
„Spáin kemur mér ekkert á óvart en annars á ég mjög erfitt með að átta mig á styrkleika liðana i deildinni enda lítið búið að vera um leiki undanfarnar vikur og liðin geta breyst hratt. Markmiðið okkar eins og væntanlegra alla liða í deildinni er að fara upp. Við erum alltaf að leita leiða til að styrkja hópinn og reikna ég með nýjum leikmönnum á næstu dögum/vikum."

6. Tindastóll 65 stig
Sæti í fyrra: 12. sæti í 2. deild
Eftir fallbaráttu í 2. deild 2018 þá gekk tímabilið illa á Sauðárkróki í fyrra og liðið var fallið þegar nokkrar umferðir voru eftir. Englendingurinn Jamie McDonough tók við stjórnartaumunum um mitt tímabil í fyrra og hann er áfram við stýrið. Tindastóll fékk fjóra erlenda leikmenn til liðs við sig á dögunum til að styrkja þann kjarna af heimamönnum sem eru í liðinu. Konráð Freyr Sigurðsson hætti við að ganga í raðir Völsungs á dögunum og hann verður áfram í stóru hlutverki á miðjunni hjá Tindastóli. Á Sauðárkróki er markmiðið skýrt fyrir tímabilið en liðið ætlar að vinna 3. deildina líkt og það gerði árið 2016.
Lykilmenn: Luke Rae, Konráð Freyr Sigurðsson og Tanner sica
Þjálfarinn segir - Jamie McDonough
„Hverjir eru í fimmta? Þeir hljóta að vera með gott lið! Okkar markmið hefur ekkert breyst síðan við kláruðum síðasta tímabil. Okkar markmið er að vinna 3. deildina. Þetta var mjög erfiður vetur fyrir okkur og þá ekki bara út af veðrinu fyrir norðan. Við höfum þurft að taka mjög stórar ákvarðanir og við gengum í gegnum erfiða tíma. Leikmenn okkar eru betri en fólk reiknar með. Þeir sýndu ekki sitt rétta andlit í fyrra. Það er ekki í mínum verkahring að tala um hluti sem gerðust hér áður en ég kom í júlí í fyrra en þeir hjálpuðu heimamönnum okkar klárlega ekki í að ganga vel innan vallar. Eftir að hafa horft á sex lið í deildinin nýlega þá þurfum við ekki að hræðast neitt. Þetta er auðvitað mjög erfið deild og styrkleikinn hjá KV og Augnablik verður mjög stór áskorun. Við erum klárir í þá áskorun. Ég hef trú á hópnum okkar. Við höfum blöndu af ungum og orkumiklum leikmönnum ásamt eldri mönnum. Meðalaldurinn hjá byrjunarliðinu í 1. umferð Mjólkurbikarins var 21 árs svo við höfum orkuna til að takast á við mjög erfitt tímabil. Við höfum einnig gæði til að láta fólk skipta um skoðun á næstu mánuðum. Ég vona að eftir langt hlé eigi allir eftir að njóta þess að spila leikinn sem við eldum."

Sjá einnig:
Spá þjálfara í 3. deild karla - 7-9. sæti
Spá þjálfara í 3. deild karla - 10-12. sæti
Athugasemdir
banner
banner