Salah, Rashford, Guehi, Ten Hag, Dewsbury-Hall og fleiri í pakka dagsins
   fös 08. júní 2018 17:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
HM spáin: G-riðill - 2. sæti
England
Harry Kane er fyrirliði og besti leikmaður Englands.
Harry Kane er fyrirliði og besti leikmaður Englands.
Mynd: Getty Images
Gareth Southgate.
Gareth Southgate.
Mynd: Getty Images
Rashford og Loftus-Cheek eru í hópnum.
Rashford og Loftus-Cheek eru í hópnum.
Mynd: Getty Images
Jordan Pickford.
Jordan Pickford.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Það fer að styttast í annan endann á HM spánni hjá okkur. Í dag er komið að G-riðlinum sem inniheldur Belgíu, England, Panama og Túnis. Englandi er spáð öðru sæti riðilsins.

Sjá einnig:
Spáin fyrir A-riðil
Spáin fyrir B-riðil
Spáin fyrir C-riðil
Spáin fyrir D-riðil
Spáin fyrir E-riðil
Spáin fyrir F-riðil

HM í Rússlandi hefst eftir nokkra daga. Opnunarleikurinn er á milli heimamanna og Sádí-Arabíu 14. júní og sjálfur úrslitaleikurinn verður 15. júlí næstkomandi.

Spámenn Fótbolta.net: Cloe Lacasse, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Gunnar Logi Gylfason, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Mist Rúnarsdóttir, Natasha Moraa Anasi, Orri Rafn Sigurðarson, Sara Hrund Helgadóttir, Tryggvi Guðmundsson.

Liðin fengu stig frá 1-4 eftir því sem þeim var spáð í riðlinum. Mest var því hægt að fá 44 stig, minnst 11 stig.

Spá Fótbolta.net fyrir G-riðil:

1. sæti.
2. sæti. England, 33 stig
3. sæti. Túnis, 19 stig
4. sæti. Panama, 15 stig

Staða á heimslista FIFA: 12.

Um liðið: Englendingar urðu heimsmeistarar 1966 en hafa ekki riðið feitum hesti síðan. Liðið hefur verið í lægð undanfarin ár og tapaði fyrir Íslandi í 16-liða úrslitum á Evrópumótinu 2016. Stuðningsmenn eru búnir að fá sig fullsadda af vonbrigðum og vilja sjá góðan árangur á HM í sumar.

Kynslóðaskipti eru í gangi hjá Englandi og er Harry Kane tekinn við fyrirliðabandinu. Reynsluboltar hafa hætt með enska landsliðinu undanfarin ár og nýir leikmenn eru að taka við keflinu.

Þjálfarinn: Roy Hodgson sagði starfi sínu lausu eftir tapið gegn Íslandi á EM. Sam Allardyce var ráðinn en hann stýrði liðinu aðeins í einum leik. Hann var látinn fara vegna hneykslismáls. Gareth Southgate var valinn eftirmaður Stóra Sam og mun hann stýra Englendingum í Rússlandi í sumar.

Southgate var miðvörður og lék með Crystal Palace, Aston Villa og Middlesbrough á sínum ferli. Hans fyrsta þjálfarastarf var í Middlesbrough og var hann þar frá 2006 til 2009. Hann tók því næst við enska U21 landsliðinu og stýrði því liði með ágætis árangri. Hann tók við A-landsliðinu í nóvember 2016 og skrifaði undir fjögurra ára samning við knattspyrnusambandið. Hans fyrsta verk var að koma liðinu á HM, honum tókst það. Næsta verkefni hans verður að koma liðinu upp úr riðlakeppninni.

Árangur á síðasta HM: Féllu út í riðlakeppninni.

Besti árangur á HM: Heimsmeistarar 1966.

18. júní, Túnis - England (Volgograd)
24. júní, England - Panama (Nizhny Novgorod)
28. júní, England - Belgía (Kalíníngrad)

Af hverju England gæti unnið leiki: Þetta enska liðið virkar meira spennandi en það hefur verið síðustu ár. Wayne Rooney er hættur og aðrir leikmenn fá tækifæri til að vera í stærra hlutverki. Kane, Sterling, Walker, Alli, Rashford, þetta eru hörkuleikmenn.

England getur sótt hratt með baneitraðan Kane sem sinn fremsta mann. Vörnin hefur verið sterk í síðustu verkefnum og það er langt síðan England fékk á sig mark úr opnu spili.

Af hverju England gæti tapað leikjum: Pressan á enska liðinu er mikil og fjölmiðlar í Englandi stunda það óspart að rakka liðið niður í hvert mögulegt skipti. Það hefur auðvitað áhrif á leikmennina.

Fáir af þeim miðvörðum sem eru í hópnum hafa verið að spila reglulega fyrir félagslið sín. Gary Cahill, Phil Jones, John Stones, þessir leikmenn hafa ekki verið að spila reglulega. Miðjan er líka áhyggjuefni, það vantar skapandi miðjumenn eins og til að mynda Adam Lallana.

Southgate virðist ætla að notast við þriggja manna varnarlínu á HM, það kerfi hefur ekki verið prófað í keppnisleikjum.

Stjarnan: Harry Kane, fyrirliði liðsins. Magnaður markaskorari sem hefur farið hamförum með Tottenham síðustu ár. Hann er komið með fyrirliðabandið hjá enska landsliðinu og ábyrgðin sem hann ber er orðin meiri.

Þetta er annað stórmótið sem Kane fer á með enska landsliðinu, það síðasta var Evrópumótið fyrir tveimur árum. Hann vill helst gleyma Evrópumótinu þar sem hann var vægast sagt slakur. Hann var látinn taka hornspyrnur og aukaspyrnur, ákvörðun sem enginn skildi. Kane á náttúrulega að vera fyrir framan markið til að slútta. Ekki að taka fyrirgjafirnar. Það er vonandi eitthvað sem Southgate skilur.

Árangur Englands í mótinu mun að mörgu leyti velta á Kane og hversu mörgum mörkum hann nær að skora.

Fylgstu með: Jordan Pickford. Markvörður sem var einn af fáum ljósum punktum í liði Everton á tímabilinu. Hefur aðeins spilað þrjá landsleiki fyrir England en verður væntanlega aðalmarkvörður liðsins í Rússlandi.

Það verður einnig gaman að fylgjast með Marcus Rashford. Hann getur sprengt leiki upp.

Líklegt byrjunarlið að mati Yahoo Sports (3-5-2): Jordan Pickford; Kyle Walker, Eric Dier, John Stones; Kieran Trippier, Jesse Lingard, Jordan Henderson, Dele Alli, Danny Rose; Raheem Sterling, Harry Kane.

Leikmannahópurinn:
Markverðir: Jack Butland (Stoke City), Jordan Pickford (Everton), Nick Pope (Burnley)

Varnarmenn: Phil Jones (Manchester United), Gary Cahill (Chelsea), Kyle Walker (Manchester City), Kieran Trippier (Tottenham Hotspur), Trent Alexander-Arnold (Liverpool), Danny Rose (Tottenham Hotspur), Ashley Young (Manchester United), John Stones (Manchester City), Harry Maguire (Leicester City)

Miðjumenn: Eric Dier (Tottenham Hotspur), Jordan Henderson (Liverpool), Fabian Delph (Manchester City), Ruben Loftus-Cheek (Chelsea), Jesse Lingard (Manchester United), Dele Alli (Tottenham Hotspur)

Sóknarmenn: Harry Kane (Tottenham Hotspur), Marcus Rashford (Manchester United), Jamie Vardy (Leicester City), Raheem Sterling (Manchester City), Danny Welbeck (Arsenal).
Athugasemdir
banner
banner