Varnarmaðurinn stóri og stæðilegi Jón Guðni Fjóluson hefur lagt skóna á hilluna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Víkingum í kvöld.
Jón Guðni er 35 ára gamall miðvörður sem hóf meistaraflokksferil sinn hjá Fram, en hann spilaði með Ægi og Hrunamönnum í yngri flokkunum áður en hann skipti yfir í Fram árið 2005.
Hann lék sinn fyrsta leik með Fram gegn KR sumarið 2007 og spilaði í heildina 59 leiki með liðinu áður en hann hélt út í atvinnumennsku.
Fyrsti áfangstaður hans erlendis var Belgía þar sem hann lék með Beerschot, en hann spilaði einnig með Sundsvall, Norrköping, Krasnodar, Brann og Hammarby.
Varnarmaðurinn sneri heim úr atvinnumennsku í byrjun síðasta árs og samdi þá við Víking. Hann var hluti af liðinu sem komst alla leið í umspilið í Sambandsdeild Evrópu.
Síðustu ár hefur hann verið að glíma við erfið meiðsli og fylgdu þau honum heim til Íslands. Hann hefur eftir mikla baráttu við meiðslavesenið ákveðið að leggja skóna á hilluna.
Jón Guðni spilaði 18 A-landsleiki og skoraði eitt mark, í vináttulandsleik gegn Perú árið 2018.
„Jón Guðni er frábær liðsfélagi og á sínum hápunkti var hann algerlega frábær hafsent með líkamsburði sem fáir hafa séð á Íslandi. Það er með miklum söknuði sem við kveðjum Jón Guðna því betri liðsmann er erfitt að finna en jafnfram óskum við honum alls hins besta í framtíðinni,“ sagði Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi á heimasíðu félagsins í dag.
Kæru Víkingar, Jón Guðni Fjóluson leikmaður meistaraflokks, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna vegna meiðsla.
— Víkingur (@vikingurfc) April 2, 2025
Sjá nánar : https://t.co/2Wuw8skaiQ pic.twitter.com/9J09oy7C2O
Athugasemdir