Mbeumo, Wirtz, Diomande, Quenda, Nypan, Van Nistelrooy, Cherki og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fim 04. júní 2020 07:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Andri glímir enn við eftirköst höfuðhöggsins - Sjóntruflanir hafa áhrif á daglegt líf
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri í Evrópuleik í fyrra.
Andri í Evrópuleik í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Hulda Margrét
Andri Adolphsson, leikmaður Vals í Pepsi Max-deildinni, hefur verið fjarri góðu gamni frá því í febrúar eftir að hafa fengið högg á hnakkann í leik gegn ÍBV.

Andri var nálægt því að vera klár í slaginn fyrir tveimur vikum en þá versnaði ástandið að nýju. Andri segist á tímum hafa séð nánast tvöfalt og er enn að glíma við eftirköstin í daglegu lífi. Fótbolti.net hafði samband við Andra og spurði hann út í stöðuna.

„Þetta er orðið ansi langur tími. Þrír mánuðir og ég hef verið að 'díla' við eftirköst höggsins síðan," sagði Andri í gærkvöldi.

„Í fyrstu lítur þetta ekkert illa út. Ég dett ekkert út og get svarað öllum spurningum sem sjúkraþjálfarinn spurði, heilahristingspróf. Ég held áfram að spila og finn ekkert fyrir þessu fyrr en daginn eftir og finn þá að ég er slæmur."

Sá nánast tvöfalt á tölvuskjáinn
Andri nefnir eftirköst í kjölfar höggsins. Hvernig lýsa þau sér?

„Ég mæti í vinnu mánudaginn eftir þetta. Ég vinn við tölvu og á þá erfitt með að lesa af skjánum og sé hálf óskýrt og nánast tvöfalt til að byrja með."

„Ég fann einnig fyrir miklum þrýsting í höfðinu til að byrja með en það er nánast allt farið. Sjóntruflanir er ég þó enn að 'díla' við."


Hlaup og átök efla einkennin
Hvað gerist ef Andri er að hlaupa eða taka á því á æfingum?

„Það í rauninni eykur á einkennin. Þ.e. þessar sjóntruflanir og svoleiðis. Ég hef unnið í þessu með sjúkraþjálfara að byggja upp þol gagnvart þessu. Þetta snýst fyrst og fremst um að koma sér inn í daglegt líf því ég gat ekkert unnið til að byrja með. Svo koma æfingar í kjölfarið."

„Ef púlsinn fer of hátt finn ég mikið fyrir einkennum og ef ég geri alltof mikið þá vakna ég rosalega slæmur daginn eftir. Það er voða erfitt að lýsa þessu einhvern veginn."


Var nálægt endurkomu en svo kom bakslag
Hvernig er þróunin í dag? Veit Andri hvenær hann má byrja að æfa á fullu eða er þetta bara metið dag frá degi?

„Það er eiginlega það versta við þetta [að þetta er bara metið dag frá degi]. Þetta er svo rosalega persónulega bundið hvernig þetta er. Þeir þora ekki að gefa mér neinn tímaramma. Fyrst var talað um þrjár vikur til þrír mánuðir."

„Ég var mjög nálægt því að vera kominn til baka fyrir tveimur vikum. Þá var ég búinn að vinna mig hægt og rólega upp en svo kemur bakslag í endurhæfinguna. Ég er núna því miður frekar langt frá því að vera kominn til baka."

„Ég er aðeins að hjóla og má ekki fara mikið yfir 130 í púls, sem er ansi langt frá því sem þarf til þess að spila fótboltaleik, þannig að tímarammi er mjög óljós."


Vonast til þess að geta tekið þátt í seinni umferðinni
Í draumaheimi hvenær sér Andri fram á að geta snúið aftur á völlinn? Lok júlí/ágúst eitthvað svoleiðis?

„Ég vil vera með í seinni umferðinni en það væri algjörlega frábært að vera kominn til baka í júlí."

„Þetta er rosalega óútreiknanlegt dæmi og eins og staðan er núna er ég að venja mig við vinnu og daglegt líf. Ég er ekkert byrjaður í fótbolta og ekki einu sinni að skokka,"
sagði Andri að lokum.
Athugasemdir
banner
banner