Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 08. mars 2023 21:54
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeildin: Bayern hafði betur gegn PSG
Mynd: EPA

FC Bayern 2 - 0 PSG (3-0 samanlagt)
1-0 Eric Maxim Choupo-Moting ('61)
2-0 Serge Gnabry ('90)


FC Bayern er komið í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar eftir sigur gegn Frakklandsmeisturum PSG. 

Bayern vann fyrri leik liðanna 0-1 í París og var því í góðri stöðu fyrir seinni leikinn sem fór fram í kvöld.

Gestirnir frá PSG mættu sprækir til leiks og voru óheppnir að skora ekki í fyrri hálfleik þegar Matthijs de Ligt bjargaði marktilraun Vitinha á marklínu með glæsilegri skriðtæklingu.

Bæjarar voru sterkari í fyrri hluta síðari hálfleiks og skoraði Eric Maxim Choupo-Moting eftir vel heppnaða hápressu, þar sem Marco Verratti missti boltann á stórhættulegum stað og eftirleikurinn auðveldur fyrir Leon Goretzka og Choupo-Moting. Þetta var í annað sinn á skömmum tíma sem Choupo-Moting setti boltann í netið, en fyrra skiptið var ekki dæmt mark vegna rangstöðu Thomas Müller sem gerði tilraun til að leika boltanum án þess að snerta hann.

PSG reyndi að svara fyrir sig en Yann Sommer varði skalla Sergio Ramos. Ramos átti aðra skallatilraun síðar í leiknum og komust leikmenn PSG nokkrum sinnum í álitlegar stöður en höfðu ekkert upp úr krafsinu.

Alphonso Davies kom svo gott sem í veg fyrir mark á lokamínútunum áður en Serge Gnabry innsiglaði sigur heimamanna eftir að hafa komið inn af bekknum. Joao Cancelo, sem kom einnig inn af bekknum, lagði markið upp með frábærum spretti upp völlinn.

Niðurstaðan er nokkuð sanngjörn - Bayern verðskuldar að fara áfram í næstu umferð á meðan stórveldi PSG heldur svekkt heim á leið.


Athugasemdir
banner
banner